RS veirusýkingar (e. respiratory syncytial virus) eru mjög algengar. Nær öll börn fá RS veirusýkingu fyrir 2ja ára aldur. Oftast eru þær ekki alvarlegar en sum börn eiga á hættu að verða alvarlega veik, sérstaklega ef þau eru:
- Yngri en 6 mánaða
- Fæddust fyrir tímann
- Með veiklað ónæmiskerfi, eða hjarta- og lungnasjúkdóma
- Útsett fyrir tóbaksreyk
RS-vírus er algengasta orsök berkjubólgu og lungnabólgu hjá börnum yngri en eins árs.
Börn geta fengið sýkinguna aftur í nýjum faröldrum þar sem veiran veldur ekki langtíma ónæmi.
Einkenni
Sýkingin nær yfirleitt hámarki á 3–5 dögum og er að mestu gengin yfir á einni viku. Algeng einkenni:
- Hiti - hjá börnum
- Nefrennsli
- Hnerri
- Þurr hósti
- Þreyta, slappleiki
Ung börn með RS veirusýkingu geta orðið pirruð og óróleg. Stundum borða þau og drekka minna en venjulega.
Einkenni um alvarlegri sýkingu (lungnabólgu eða berkjubólgu) eru:
- Versnandi hósti
- Blámi á vörum eða húð
- Mæði
- Hraðari öndun eða hlé á milli andardrátta
- Hvæsihljóð við öndun
- Lystarleysi
- Erfiðleikar við að drekka hjá ungum börnum
Smitleiðir
RS-veiran smitast einkum með beinni snertingu milli einstaklinga en getur smitast með úðasmiti, hósta eða hnerra. Veiran getur lifað í nokkrar klukkustundir til dæmis á leikföngum eða á borðplötu og getur borist í líkamann í gegnum munn, nef og augu.
Einkenni sjúkdómsins koma fram fjórum til sex dögum eftir að smit hefur orðið.
Smithættan er mest fyrstu dagana eftir að veikinda verður vart en getur haldið áfram í nokkrar vikur á eftir.
Greining
Greining byggir fyrst og fremst á sjúkdómseinkennum, sjúkrasögu og læknisskoðun en einnig er hægt að greina veiruna í slími frá nefkoki.
Veiran er svo algeng að flest börn innan tveggja ára aldurs hafa sýkst af henni.
Meðferð
Engin sérstök meðferð er við RS veirusýkingu og ef veikindi eru væg þarf eingöngu einkennameðferð heima. Ef veikindi eru alvarleg getur þurft að veita meðferð á sjúkrahúsi.
Hvað get ég gert?
- Hita- og verkjastillandi meðferð
- Drekka nægan vökva
- Hvíld
- Saltvatn/nefúði getur losað stíflur í nefi
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leita til heilsugæslunnar ef barnið er:
- Ekki með minnkandi einkenni þrátt fyrir einkennameðferð
- Að drekka eða borða mun minna en venjulega
- Með háan hita og hroll
- Eldra en 3ja mánaða með 39 stiga hita eða meira
- Mjög þreytt eða pirrað
- Ónæmisbælt eða með hjarta- eða lungnasjúkdóm
- Í erfiðleikum með öndun
Leita til bráðamóttöku barna ef barnið:
- Öndunarerfiðleikar - magi dregst inn við öndun, hlé á milli andardrátta
- Andar hratt
- Sýnir merki um ofþornun
- Þurr munnur, og/eða þorsti
- Hefur ekki pissað eða bleytt bleyju í 4-6 klst. hjá 0-3 mánaða börnum, 6-8 klst. hjá 3-12 mánaða börnum og í 12 klst. eða meira hjá 1 árs börnum og eldri
- Engin tár þegar barnið grætur
- Er yngra en 3ja mánaða með 38 stiga hita eða meira
- Hiti lækkar ekki þrátt fyrir hitalækkandi meðferð
Hringja í 112 ef:
- Hiti er undir 36 stigum
- Blámi á vörum, mjög föl húð eða bláleit
- Barnið bregst ekki við áreiti, erfitt að vekja barnið, helst ekki vakandi
- Handþvottur
- Hósta og hnerra í pappírsþurrku og henda henni strax eftir notkun
- Halda ungum börnum, einkum þeim sem fædd eru fyrir tímann eða eru ekki hraust, frá fólki með kvefeinkenni
- Forðast handaband eða nána snertingu og nánd við veikt fólk
- Forðast að snerta andlit, sérstaklega augu, nef og munn með óhreinum höndum