Ristill (e. shingles) er smitsjúkdómur sem eingöngu kemur fram hjá þeim sem hafa fengið hlaupabólu. Sjúkdómurinn kemur fram þegar varicella zoster veiran sem orsakar hlaupabólu nær að endurvirkjast. Við það koma fram sársaukafull útbrot í húð, oftast á öðrum helmingi líkamans og er eins og band eða belti í laginu.
Einkenni
Fyrstu einkenni:
- Kláði, verkir og sviðatilfinning á því húðsvæði sem blöðrurnar koma fram
- Húð verður viðkvæm fyrir snertingu
- Hiti, slappleiki og höfuðverkur áður en útbrot koma fram
Eftir einn til þrjá daga:
- Roði þar sem verkir eru
- Blöðrur sem eru tærar í fyrstu en dökkna síðar.
- Blöðrurnar valda verkjum og kláða og koma oftast á annarri hlið líkamans eins og belti
Eftir þrjá til fjóra daga:
- Opnast sárin og vökvi fer úr blöðrum. Á þessum tíma geta sárin sýkst
Eftir sjö til tíu daga:
- Sár fara að gróa og hrúður myndast
- Útbrotin hverfa yfirleitt eftir þrjár til fjórar vikur en ör og breytingar á húðlit geta varað lengur
Ristill getur stundum sest á augað. Þá verður augað rautt, þurrt, viðkvæmt fyrir ljósi, þokusýn eða tvísýni. Verkir í auganu geta fylgt ristli í auga.
Börn sem fá ristil fá eins útbrot og fullorðnir en yfirleitt vægari einkenni.
Smitleiðir
Eftir hlaupabólu lifir veiran áfram í líkamanum. Hún liggur í dvala en getur komið fram aftur og valdið ristli.
Ristill getur komið fram á öllum aldri en er algengastur hjá 50 ára og eldri. Einkenni eru meiri eftir því sem fólk er eldra. Ristill er algengari hjá fólki með veikt ónæmiskerfi. Möguleiki er að fá ristil oftar en einu sinn en það er þó sjaldgæft.
Sá sem hefur ristil getur smitað þá sem ekki hafa fengið hlaupabólu á meðan blöðrur eru til staðar. Eftir að blöðrur eru orðnar þurrar og þaktar hrúðri er viðkomandi ekki lengur smitandi.
Þeir sem bólusettir eru gegn hlaupabólu eru ólíklegri til að fá ristil síðar á ævinni en þeir sem veikst hafa af hlaupabólu.
Áhættuhópar
Hlaupabóla getur verið hættulegur sjúkdómur fyrir:
- Fólki með skert ónæmiskerfi
- Barnshafandi konur
- Einstaklinga á ónæmisbælandi meðferð
- Einstaklinga í krabbameinsmeðferð
- HIV smitaða
Hvað get ég gert?
- Taka paracetamól eða ibuprofen til að minnka sársauka
- Halda útbrotum hreinum og þurrum til að minnka líkur á sýkingu
- Forðast að snerta útbrotin og þvo hendur með sápu ef það gerist, til að minnka lýkur á smiti
- Vera í þægilegum fötum
- Kaldur bakstur (sem dæmi poki af frosnu grænmeti vafinn inn í handklæði)
- Gæta þess að umbúðir/plástrar festist ekki í útbrotum. Sérstakar umbúðir fást í apótekum sem festast síður í sárum
- Forðast að nota rakakrem eða gel, nema læknir eða hjúkrunarfræðingur hafi gefið þær ráðleggingar
- Ef hægt er að hylja útbrot þá er ekki þörf fyrir að breyta hefðbundnum athöfnum og má því fara í skóla eða vinna á meðan ristill er til staðar
- Forðastu nálægð við barnshafandi konur, ungabörn og einstaklinga með skert ónæmiskerfi t.d. vegna krabbameinsmeðferðar, meðan sár eru ekki gróin
Hvenær skal leita aðstoðar?
Ef grunur er um ristil er gott að leita til heilsugæslunnar og sem allra fyrst ef eftirfarandi einkenni eru til staðar:
- Útbrot eða sár eru í andliti þar sem hætta er á að þau berist í augu
- Sýkingarmerki í sárum, eins og hiti, roði og eymsl
- Mikill sársauki fylgir sárunum
- Mikil vanlíðan
- Skert ónæmiskerfi
Vaktsími heilsugæslunnar 1700 er opinn allan sólarhringinn.
Finna næstu heilsugæslu hér.
Einn af hverjum tíu fá slæm og þrálát einkenni ristills sem geta verið:
- Langvarandi verkir sem geta valdið svefnerfiðleikum, þyngdartapi og þunglyndi
- Húðsýking, ef bakteríur berast í sárin getur það seinkað batanum
- Bólga í eyrum sem getur valdið slæmum verkjum og jafnvel slappleika í andlitsvöðvum
- Augnbólgur eða skemmdir á hornhimnu augans, sérstaklega ef útbrot voru í andliti
Eftirfarandi minnkar líkur á að fá ristil.
- Þeir sem ekki hafa fengið hlaupabólu geta forðast smit með því að snerta ekki útbrot einstaklinga með hlaupabólu eða ristil.
- Bólusetja gegn hlaupabólu. Bólusetning hófst árið 2019 og er hluti af barnabólusetningu. Bóluefnið heitir Varilrix og er gefið við 18 mánaða og við 2,5 árs aldur.
Nafn á bóluefni: Bóluefnið heitir Shingrix og er hægt að fá lyfseðil gegn tilvísun frá lækni. Greiða þarf fullan kostnað af lyfinu.
Hvenær gefið: Bólusetning er valkvæð. Gefnir eru tveir skammtar með 2-6 mánaða millibili.
Virkni bóluefnis: Bóluefnið veitir góða vörn gegn þessum sjúkdómi og taugaverkjum (e. Postherpetic neuralgia) sem eru þekktar afleiðingar hans. Til að fá góða virkni þarf tvær bólusetningar. Bóluefnið dregur úr áhættunni að fá ristil og eins ef fólk fær ristil þá minnka líkur á alvarlegum einkennum og afleiðingum sýkingarinnar. Fólk getur fengið ristil oftar en einu sinni og því er gagnlegt að fá bólusetningu jafnvel þótt fólk hafi fengið ristil áður.
Frábendingar
- Bóluefnið á ekki að gefa í eftirfarandi tilfellum nema í samráði við lækni eða hjúkrunarfræðing:
- Grunur um ofnæmi fyrir bóluefninu eða einhverju innihaldsefni þess
- Fólki sem sýnt hafa ofnæmisviðbrögð eftir fyrri bólusetningu
- Fólki sem hefur virkan ristil þegar bólusetning á að fara fram
- Fólki með háan hita eða bráðan sjúkdóm (t.d. flensu, hósta, hálsbólgu).
- Þunguðum konum
Aukaverkanir: Þekktar aukaverkanir eru:
- Höfuðverkur
- Hiti
- Vöðvaverkur
- Ógleði eða magaverkur
- Þreyta sem geta varið í 2-3 daga.
- Þá getur stungustaður verið rauður og aumur viðkomu og jafnvel bólginn í einhverja daga eftir bólusetninguna.
- Kláði yfir stungustað er einnig þekktur fylgikvilli.