Njálgur (e. pinworm) er lítill, hvítur hringormur sem er algeng sýking hjá fólki á öllum aldri en algengastur hjá börnum. Sýking kemur oftast upp á stofnunum þar sem mörg börn koma saman t.d. í dagvistun og í skólum og hjá aðstandendum þeirra sem sýkjast.
Einkenni
Njálgssmit er oft einkennalaust (hjá einum af hverjum þremur) en kláði við endaþarm er helsta einkennið. Kláðinn ágerist á nóttunni og getur valdið svefntruflunum. Ef hinn sýkti klórar sér mikið getur húðin orðið rauð og aum og sýkst af bakteríum.
Ef njálgssýkingin er mikil þ.e. mjög mikið af ormum, getur hún lýst sér með lystarleysi, kviðverkjum og uppköstum. Önnur einkenni sem komið geta fram eru pirringur, óróleiki, tanngnístur, svefntruflanir og minnkuð matarlyst.
Smitleiðir
Njálgurinn smitast með því að egg komast í munn og þaðan niður í maga. Eggin klekjast í meltingarveginum og ormarnir verpa svo eggjum sínum á svæðið við endaþarminn. Þaðan berast eggin svo með höndum út í umhverfið.
Greining
Þegar grunur er um njálg þarf að ganga úr skugga um að smit sé til staðar.
Ef um barn er að ræða geta foreldrar skoðað svæðið umhverfis endaþarminn með vasaljósi 2–3 klst. eftir að barnið er sofnað. Oft er þá hægt að sjá orma við endaþarmsopið og stundum sjást þeir utan á saur. Eggin er hins vegar ekki hægt að sjá með berum augum.
Fullorðnir geta fylgst með hægðum og sjái þeir hvíta orma utan á hægðum er líklega um njálg að ræða.
Stundum tekst ekki að staðfesta smit með þessum aðferðum en engu að síður getur reynst nauðsynlegt að meðhöndla vegna smits hjá öðrum sem viðkomandi umgengst.
Meðferð
Til að ráða niðurlögum njálgs þarf skerpt hreinlæti og lyfjagjöf.
Heimilismenn þurfa allir að taka lyfið samtímis samkvæmt leiðbeiningum og þrífa þarf heimilið samhliða til að hreinsa egg úr umhverfinu.
Lyfjagjöf
Til að ráða niðurlögum njálgs þarf lyfjameðferð. Lyfin eru seld í lausasölu í apótekum og er til sem töflur og mixtúra. Lyfin eru yfirleitt tekin tvisvar þ.e. fyrst einn skammtur og síðan annar skammtur 2 vikum síðar.
Hreinlæti
- Handþvottur með vatni og sápu og þurrkun með hreinu handklæði eftir salernisferðir, bleyjuskipti og fyrir meðhöndlun matar er áhrifaríkasta leiðin til að hindra njálgssmit og koma í veg fyrir áframhaldandi smit. Mikilvægt er að kenna börnum að þvo hendur og sjá til þess að þau geri það.
- Hreinsa endaþarmssvæði vel að morgni til dæmis með því að fara í sturtu.
- Hrein nærföt daglega og tíð náttfataskipti
- Skipta á rúmum daginn sem lyfið er tekið. Hrista ekki tauið heldur setja það beint í þvottavél og þvo við meira en 40°C. Æskilegt að þurrka í þurrkara.
- Ekki klóra húð við endaþarm.
- Hafa neglur stuttklipptar og hreinar. Ekki naga neglurnar.
- Gott almennt hreinlæti í umhverfi.
Hvað get ég gert?
Ásamt lyfjameðferð er skerpt hreinlæti nauðsynlegt til að ráða niðurlögum njálgs. Til að rjúfa smitferil njálgsins þarf að tryggja egg berist ekki í munn.
Almennt gott hreinlæti dregur úr líkum á smiti.
- Handþvottur með vatni og sápu og þurrkun með hreinu handklæði eftir salernisferðir, bleiuskipti og fyrir meðhöndlun matar er áhrifaríkasta leiðin til að hindra og koma í veg fyrir áframhaldandi smit. Mikilvægt er að kenna börnum að þvo hendur og sjá til þess að þau geri það.
- Hrein nærföt daglega.
- Halda umhverfi og leikföngum barna þokkalega hreinu.
Nánari upplýsingar
Á vef Embættis landlæknis eru nánari upplýsingar um njálg.
Finna næstu heilsugæslustöð hér.