Lifrarbólga er ástand þegar lifrin bólgnar. Meðal orsaka eru veirusýkingar, aðrar sýkingar, langvarandi áfengisneysla, lyf og eiturefni, meðfæddir sjúkdómar og sjálfsofnæmissjúkdómar.
Einkenni geta verið væg og skammvinn, sérstaklega þegar algengar kvefveirur valda lifrarbólgu. Í sumum tilfellum eru einkennin alvarleg og/eða langvinn og hafa mikil áhrif á líf fólks. Lifrarbólga getur valdið skemmdum á lifrinni, valdið skertri lifrarstarfsemi og í einstaka tilfellum leitt til lifrarkrabbameins.
Lifrin gegnir veigamiklu hlutverki í líkamanum og sér meðal annars um að vinna ýmis efni úr fæðunni, brjóta niður lyf, eiturefni og alkóhól. Einnig myndar lifrin gall sem brýtur niður fitu. Auk þess að býr hún til eggjahvítuefni sem eru nauðsynleg fyrir blóðstorknun.
Einkenni
Einkenni eru mismunandi eftir orsök. Helstu einkenni veirulifrarbólgu:
- Almenn vanlíðan
- Dökkt þvag
- Gula – hvítan í augum og húð fá gulleitan blæ
- Fölar og gráleitar hægðir
- Hiti - hjá börnum - hjá fullorðnum
- Kláði í húð
- Lystarleysi
- Kviðverkur
- Slappleiki
- Stöðug þreyta
- Vöðva- og liðaverkir
Einkenni barna eru oftast vægari en hjá fullorðnum en þau eru mjög smitandi. Fólk sem annast börnin geta fengið verri einkenni ef smit á sér stað.
Lifrarbólga getur verið einkennalaus en merki geta komið fram í blóðprufum. Á seinni stigum getur lifrarbólga leitt til gulu, bólgu í fótleggjum, ökklum og fótum, ruglingi, blóði í hægðum og uppgangi.
Smitleiðir
Veirulifrarbólga smitast með saur/saurmenguðu vatni eða matvælum annars vegar og blóði eða öðrum líkamsvessum hins vegar. Helstu smitleiðir með vessa eru:
- Deila nálum með sýktum einstaklingi
- Í fæðingu frá sýktri móður til barns
- Með því að deila tannbursta eða rakvélum með sýktum einstaklingi
- Óvarið kynlíf
- Stunguslys með nál frá sýktum einstaklingi
Greining
Lifrarbólga er greind með blóðprufu.
Meðferð
Lifrarbólga vegna adeno-, entero-, herpes-, hlaupabólu- eða inflúensuveiru er skammvinn og þarfnast sjaldan meðferð.
Til eru veirulyf gegn lifrarbólgu B og C.
Ekki er til veirulyf gegn lifrarbólgu A en meðferð felst í að meðhöndla einkenni.
Forvarnir
Bólusetning er áreiðanlegasta vörnin gegn lifrarbólgu A og B. Bólusetning er valkvæð.
Ekki er til bóluefni gegn lifrarbólgu C en til að fyrirbyggja smit er hægt að passa upp á að deila ekki rakvélum, tannburstum eða nálabúnaði og nota smokka í kynlífi. Sömu ráðstafanir draga líka úr smithættu vegna lifrarbólgu B en mikilvægt er að makar og annað heimilisfólk einstaklinga með lifrarbólgu B sé bólusett.
Einnig er mikilvægt að passa upp á hreinlæti og góðan handþvott eftir salernisferðir og áður en matvæli eru handleikin. Þessar ráðstafanir draga úr smithættu vegna lifrarbólgu A og margra annarra veira sem geta valdið lifrarbólgu.
Lifrarbólga A er veirusýking sem smitast með saursmiti eða með því að neyta matar eða drykkjar sem er mengaður af saur einstaklings sem er með veiruna. Þetta getur gerst ef smitaður einstaklingur gætir ekki að handþvotti eftir salernisferð og handleikur svo matvæli sem aðrir neyta.
Lifrarbólga A er víða landlæg erlendis þar sem hreinlæti er ábótavant. Sjúkdómurinn gengur yfirleitt yfir á þremur til sex mánuðum en sum tilfelli geta verið alvarleg. Engin sérstök meðferð er til við lifrarbólgu A önnur en að meðhöndla einkenni sem geta verið kviðverkir, ógleði og kláði.
Hægt er að greina lifrarbólgu A með blóðprufu. Eftir að einstaklingur hefur smitast myndast ónæmi og einstaklingurinn fær sjúkdóminn ekki aftur.
Mælt er að með að fá bólusetningu við lifrarbólgu A ef:
- Einstaklingur er í mikilli smithættu eða smit getur haft alvarlegar afleiðingar.
- Ferðast er á svæðum þar sem sjúkdómurinn er algengur eins og Indland, Afríka, Mið- og Suður Ameríka, Mið-Austurlönd og Austur Evrópa.
Bóluefni gegn lifrarbólgu A er talið veita vörn í a.m.k. 30 ár. Passa þarf upp á handþvott eftir salernisferðir og bleiuskipti.
Frekari upplýsingar um bólusetningar ferðamanna.
Lifrarbólga B er veirusýking sem berst með blóði eða öðrum líkamsvessum milli einstaklinga. Sjúkdómurinn getur smitast þegar nálum er deilt, við stunguslys eða við notkun rakvéla eða tannbursta frá sýktum einstaklingi. Einnig getur sjúkdómurinn smitast við samfarir án smokks. Flest sem smitast af lifrarbólgu B jafna sig á nokkrum mánuðum. Hluti þeirra sem smitast af lifrarbólgu B losa sig ekki við veiruna og fær langvinna sýkingu.
Fólk sem smitast ungt af lifrarbólgu B, til dæmis frá móður í fæðingu, er í mestri hættu á að fá langvinna sýkingu sem getur leitt til skorpulifrar og krabbameins í lifur.
Lifrarbólga B er greind með blóðprufu og hægt er að meðhöndla sjúkdóminn með veirulyfjum.
Mælt er með að eftirfarandi einstaklingar í áhættuhópum fái bólusetningu:
- Heilbrigðisstarfsfólk
- Fólk sem notar sprautulyf
- Samkynhneigðir karlmenn
- Börn mæðra með lifrarbólgu B
- Fólk sem ferðast til svæða þar sem sýkingin er algeng
Bóluefnið veitir vörn gegn Lifrarbólgu B. Einnig er mælt með notkun smokka til að koma í veg fyrir smit.
Frekari upplýsingar um bólusetningar ferðamanna.
Lifrarbólga C er veirusýking sem smitast með blóði. Smit getur átt sér stað meðal annars við:
- Óvarið kynlíf
- Fæðingu frá sýktri móður til barns
- Húðflúr eða götun þar sem hreinlætis er ekki nægilega vel gætt
- Notkun nála frá sýktum einstaklingi
- Nota tannbursta eða rakvél frá sýktum einstaklingi
Stundum eru lítil sem engin einkenni sem fylgja sjúkdómnum en flensulík einkenni geta komið fram og því vita einstaklingar ekki endilega að þeir séu smitaðir. Sum sem smitast jafna sig tiltölulega fljótt og líkaminn nær að losa sig við sjúkdóminn en önnur sitja eftir með veiruna í líkamanum í mörg ár. Þetta ástand kallast krónísk lifrarbólga C og getur valdið skorpulifur og lifrarbilun. Sjúkdómurinn getur leitt til krabbameins í lifur, sérstaklega ef einstaklingur er einnig með lifrarbólgu B.
Mælt er með bólusetningu gegn lifrarbólgu A og B fyrir alla þá einstaklinga sem eru greindir með lifrarbólgu C.
Lifrarbólgu C er hægt að meðhöndla með veirulyfjum en ekki er til bóluefni við sjúkdómnum.
Algengustu tegundir lifrarbólgu eru þær sem hefur verið fjallað um hér að ofan eða lifrarbólga A, B og C. Hins vegar eru til aðrar gerðir af lifrarbólgu sem eru ekki alveg jafn algengar.
Lifrarbólga D
Veiran sem veldur Lifrarbólgu D getur ekki náð sér á strik nema lifrarbólgu B veira sé líka til staðar og þær smitast því yfirleitt saman með blóði eða óvörðu kynlífi. Þessi sjúkdómur er ekki algengur á Íslandi en er algengari annars staðar í Evrópu, Mið Austurlöndum, Afríku og Suður Ameríku.
Langtíma samsýking lifrarbólgu D og B eykur hættu á að þróa með sér alvarleg vandamál vegna sýkingarinnar eins og skorpulifur og krabbamein í lifur, umfram sýkingu með lifrarbólgu B eingöngu.
Ekki er til neitt sérstakt bóluefni við lifrarbólgu D en með því að hindra lifrarbólgu B sýkingu með bólusetningu fæst vörn gegn lifrarbólgu D líka.
Lifrarbólga E
Lifrarbólga E er veirusýking sem hefur verið tengd við neyslu á kjöti sem ekki hefur verið eldað nægilega vel, oftast svínakjöti en einnig dádýrakjöti og skelfiski.
Sýkingin er yfirleitt væg og gengur yfir á stuttum tíma og þarfnast ekki meðferðar en sum geta veikst alvarlega og þá helst fólk með veiklað ónæmiskerfi og/eða er barnshafandi.
Lifrarbólga af völdum áfengisnotkunar kemur til eftir margra ára ofneyslu á áfengi. Einkenni eru ekki alltaf áberandi, enda fleiri kvillar sem fylgja mikilli áfengisneyslu og því vita einstaklingar ekki endilega að þeir séu með þennan sjúkdóm.
Í sumum tilfellum getur þó lifrarbólgan leitt til skyndilegrar gulu og jafnvel lifrarbilunar.
Hætti einstaklingur að neyta áfengis getur lifrarbólgan gengið til baka og einstaklingurinn jafnað sig en það er ákveðin hætta á að hann þrói með sér skorpulifur, lifrarbilun eða lifrarkrabbamein ef áfengisnotkun er haldið áfram. Þannig er hægt að hafa áhrif á það hvernig sjúkdómurinn þróast.
Þessi sjúkdómur er frekar sjaldgæfur og kemur í kjölfar þess að ónæmiskerfið ræðst á lifrarfrumur og skemmir lifrina. Þetta ástand getur leitt til þess að lifrin skemmist svo mikið að hún hættir að starfa eðlilega.
Meðferð við sjálfsofnæmislifrarbólgu felur í sér notkun ónæmisbælandi lyfja og lyfja sem draga úr bólgum.
Orsakir þessarar gerð lifrarbólgu eru óþekktar og ekki er vitað hvort hægt sé að koma í veg fyrir hana.