Kvef (e. cold) er algengur veirusjúkdómur sem veldur bólgum í nefi og hálsi. Kvef smitast auðveldlega með úðadropum sem berast milli einstaklinga með hósta og hnerra en einnig er hægt að smitast af hlutum eins og t.d. hurðarhúnum og handriðum.
Kvef læknast að sjálfu sér, oftast á innan við 10 dögum. Þekktar eru yfir 200 kvefveirur og því getur einstaklingur fengið kvef nokkrum sinnum á ári, algengt er að yngri börn séu að veikjast að meðaltali 6-8 sinnum af kvefi yfir árið. Sýklalyf eru gagnslaus við kvefi þar sem þau hafa einungis áhrif á bakteríur.
Börn sem hafa verið hitalaus í sólarhring eftir kvefpest og líður vel geta farið í skóla.
Einkenni
Einkennin koma yfirleitt fram 1-3 dögum eftir smit og geta verið:
- Hálssærindi
- Nefrennsli eða stíflað nef
- Hnerri
- Hósti
- Höfuðverkur
- Slappleiki
- Hiti - hjá börnum - hjá fullorðnum
- Vöðvaverkir
- Þrýstingur í andliti og út í eyru
- Bragð- og lyktarskyn getur minnkað
- Minnkuð matarlyst (algengara hjá börnum)
Einkennin ganga oftast yfir á 5-10 dögum en vara oft lengur hjá börnum en fullorðnum. Börn fá oftast hita á fyrstu 3 dögum kvefs.
Hvað get ég gert?
Engin lækning er til við kvefveirum heldur þarf ónæmiskerfi líkamans tíma til að vinna á þeim og því skiptir góð hvíld heima mestu máli til að ná bata sem fyrst.
Eftirfarandi ráð geta hugsanlega flýtt fyrir bata og linað einkenni.
- Drekka vatn (6-8 glös á dag)
- Heitir drykkir geta hjálpað t.d. heitt vatn með sítrónu og hunangi gæti linað hálssærindi og hóstaköst
- Hvíld
- Hóstamixtúrur gætu reynst hjálplegar við hóstaköst
- Hækka undir höfðalagi á nóttu getur hjálpað þegar hósti er til staðar eða nefstíflur
- Saltvatn/nefsprey gætu losað stíflur í nefi
- Slímlosandi freyðitöflur til að leysa upp slím
- Verkjalyf (paracetamól) ef höfuðverkur, vöðvaverkir eða hiti eru til staðar
- Forðast reykingar og reyk af þeirra völdum
- Borða ferska ávexti, sérstaklega sítrusávexti
Börn og fullorðnir fá sjaldan fylgikvilla eftir kvef en eftirfarandi sjúkdómar geta þó komið upp í kjölfar kvefpestar:
- Lungna- eða berkjubólga – Ef hiti yfir 38,5 varir lengur en í 3 daga og hósti eða hröð öndun er til staðar er möguleiki á lungna- eða barkabólgu
- Sýking í ennis- og kinnholum – Ef einkenni frá nefi vara lengur en í 10 daga og litað nefrennsli og jafnvel verkir í andliti eru til staðar.
- Eyrnabólga – Börn geta fengið eyrnabólgu í kjölfar kvefs
- Augnsýking
- Astmaeinkenni versna
- Handþvottur
- Forðast handaband eða nána snertingu og nánd við veikan einstakling
- Forðast að snerta andlit, sérstaklega augu, nef og munn með óhreinum höndum
- Halda ónæmiskerfinu heilbrigðu með því að:
- Fá nægan svefn (≥ 7 klst.)
- Borða hollan mat
- Ástunda reglulega hreyfingu
- Drekka vatn (≥ 1,5 L)
- Taka D-vítamín
- Forðast streitu