Kíghósti (e. pertussis) er öndunarfærasýking sem orsakast af bakteríunni bordetella pertussis. Hann er algengastur hjá börnum, einkum á fyrstu mánuðum ævinnar. Hjá unglingum og fullorðnum birtist sjúkdómurinn sem langvarandi og þrálátur hósti. Sýkingin stafar af bakteríu sem framleiðir eiturefni sem veldur slæmum hóstaköstum. Bólusett er gegn kíghósta í barnabólusetningum.
Einkenni
- Vægt kvef
- Vaxandi hósti
- Slímsöfnun og slæm hóstaköst, sérstaklega á næturnar
Eftir um það bil tvær vikur færast einkennin í vöxt með áköfum hóstaköstum og fylgir þeim einkennandi soghljóð við innöndun. Síðari einkenni eru:
- Hnerri
- Nefrennsli
- Hiti hjá börnum - hiti hjá fullorðnum
Einkenni sjúkdómsins geta verið til staðar í allt að 10 vikur.
Smitleiðir
Smit berst milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. með hnerra). Tími frá smiti þar til einkenni koma fram er yfirleitt um 2-3 vikur.
Greining
Sjúkdóminn má staðfesta með ræktun frá nefi.
Fylgikvillar
Ungum börnum er sérlega hætt við alvarlegum fylgikvillum sýkingarinnar sem geta verið:
- Öndunarstopp
- Krampar
- Lungnabólga
- Truflun á heilastarfsemi
Kíghósti er ekki jafn alvarlegur hjá eldri börnum og fullorðnum en mikill hósti getur haft í för með sér:
- Eyrnabólgu
- Kviðslit
- Verki í rifbeinum
- Þvagleka við mikinn hósta
Meðferð
Börn undir 6 mánaða þurfa oftast meðferð inni á sjúkrahúsi. Aðrir þurfa í fæstum tilvikum á meðferð á sjúkrahúsi að halda.
Í sumum tilfellum eru gefin sýklalyf til að drepa niður bakteríuna en þau minnka sjaldnast einkennin. Lyfin eru þá gefin til að minnka líkur á smithættu og virka aðeins ef gefin eru innan þriggja vikna frá því að hósti byrjaði.
Hvað get ég gert?
- Hvíld
- Drekka vel - heitir/volgir drykkir oft góðir
- Heit gufa getur hjálpað. Skrúfa frá heita vatninu inná baðherbergi, loka hurðinni og sitja þar í 20-30 mínútur.
- Hækka undir höfðalaginu á nóttinni
- Forðast áreiti eins og reykingar og sterk lyktarefni
- Hóstasaft gerir lítið gagn gegn kíghósta
- Verkjalyf má nota til að lækka hita og líða betur
- Nota andlitsgrímur til að draga úr líkum á smiti.
- Sérstaklega þarf að gæta að smitvörnum til að koma í veg fyrir að smita ung börn
Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn. Aukaverkanir af bólusetningum eru almennt vægar.
Hér á landi er byrjað að bólusetja börn 3ja mánaða.
Verðandi mæðrum er boðin bólusetning við kíghósta. Þegar bólusett er á öðrum eða þriðja þriðjungi meðgöngu myndast verndandi mótefni sem fylgjan flytur til barnsins. Mótefnin geta varið barnið strax frá fæðingu og ver barnið þar til barnabólusetningar taka við.Oftast er bólusett við 28. til 32. viku.