Kæfisvefn (e. sleep apnea) er þegar hálsinn þrengist eða lokast í svefni og veldur endurteknum öndunartruflunum. Fólk verður ekki vart við að það hætti að anda í svefni en ef til vill vaknar fólk upp til að grípa andann og fær e.t.v. að heyra að það hrjóti. Talað er um kæfisvefn þegar öndurarhlé eru 5 eða fleiri á klukkustund.
Öndunarhlé á klukkustund | |
Vægur kæfisvefn | 5 - 15 |
Kæfisvefn á meðalháu stigi | 16-29 |
Kæfisvefn á háu stigi | 30 eða fleiri |
Kæfisvefn er algengastur hjá miðaldra karlmönnum, þó hann geti einnig verið hjá bæði konum og körlum á öllum aldri og jafnvel börnum.
Einkenni
Einkennum kæfisvefns er gjarnan skipt í tvennt. Einkennum í svefni og einkennum í vöku.
Einkenni í svefni
- Háværar hrotur
- Órólegur svefn
- Hrökkva upp úr svefni
- Tíð næturþvaglát
- Nætursviti
- Öndunarhlé
Einkenni í vöku
- Þreyta og dagsyfja
- Syfja við akstur
- Erfiðleikar með einbeitingu og minni
- Vaknar með höfuðverk, munnþurrk og sáran háls
- Þörf fyrir að leggja sig á daginn
- Óþolinmæði
Sumir finna ekki fyrir neinum einkennum, eða þeim finnst ekkert óeðlilegt að finna fyrir þreytu og hrjóta. Aðrir finna fyrir þessum einkennum af öðrum ástæðum. Svefntruflanir eru algengar og tengjast oft á tíðum alls ekki kæfisvefni.
Helstu ástæður kæfisvefns
Offita er algengasta ástæða kæfisvefns. Á milli 60% og 70% þeirra sem eru með kæfisvefn eru of þungir. Oft eru samverkandi þættir að verki sem þrengt geta að öndunarveginum. Sem dæmi má nefna:
- Lítil haka
- Skekkja á miðnesi
- Kvef
- Gróðurofnæmi
- Þyngdaraukning
Neysla áfengis og róandi lyfja hefur einnig áhrif með því að lengja öndunarhléin og fjölga þeim.
Greining
Gera þarf svefnrannsókn til að greina kæfisvefn. Rannsóknin er gerð yfir nótt. Ýmist fer viðkomandi heim með rannsóknarbúnaðinn og skilar honum að morgni eða rannsóknin er gerð inni á sjúkrahúsi.
Meðferð
Öflugasta meðferðin við kæfisvefni er notkun svefnöndunartækis. Notkun tækisins tryggir að öndunarvegurinn haldist opinn yfir nóttina og kemur þannig í veg fyrir öndunarhlé með tilheyrandi súrefnisskorti og truflun á svefni.
Bitgómur er hlutur sem reynst hefur vel í sumum tilvikum sér í lagi hjá þeim sem hafa vægan kæfisvefn. Bitgóminn þarf að fá hjá tannlækni sem hefur sérþekkingu á þessu sviði. Leiðbeiningar um það eru gefnar af þeim sem greina kæfisvefninn.
Hvað get ég gert?
- Svefnvenjur skipta miklu máli þegar kæfisvefn er annars vegar. Hér finnur þú góð ráð til að bæta svefninn.
- Hjá sumum kemur kæfisvefn aðeins fram ef þeir sofa á bakinu. Í því tilviki er gott ráð er að festa lítinn mjúkan bolta við bakið sem varnar því að þú farir ósjálfrátt á bakið í svefni.
- Létta þig ef þú ert yfir kjörþyngd. Besta leiðin til að gera það er að fylgja almennum ráðleggingum um mataræði og hreyfingu. Á flestum heilsugæslustöðvum eru lífsstílsmóttökur og þar er einnig hjálp að fá í þessum efnum. Hér eru líka almenn ráð til þeirra sem vilja breyta venjum sínum.
- Forðast áfengi og róandi lyf, því það getur aukið kæfisvefn.
- Göngudeild lyfjadeildar á Landspítalanum hefur gefið út leiðbeiningar til þeirra sem greinast með kæfisvefn þar sem ítarlega ef fjallað um kæfisvefn meðal annars greiningarferlið og meðferðina.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Ef þú telur þig vera með kæfisvefn skaltu leita til heimilislæknis. Læknir getur gefið tilvísun í frekari svefnrannsókn. Slíkar rannsóknir eru gerðar í Reykjavík, Selfossi, Akureyri og Ísafirði.
Áður en þú hittir heimilislækninn getur verið hjálplegt að:
- Fá maka, fjölskyldumeðlim eða vin til að fylgjast með þér í svefni. Fylgjast með hvort endurteknar öndunartruflanir eiga sér stað.
- Fylla út Epworth spurningalistann um dagsyfju. Miðaðu við eðlilegt daglegt líf að undanförnu og reyndu að setja þig í þessi spor í huganum.
Hversu miklar líkur eru á því að þú dottir eða sofnir við eftirfarandi aðstæður?
Aðstæður: | Engar | Litlar | Töluverðar | Miklar |
Sit og les | 0 | 1 | 2 | 3 |
Horfi á sjónvarp | 0 | 1 | 2 | 3 |
Sit og fylgist með t.d. í leikhúsi eða á fundi | 0 | 1 | 2 | 3 |
Er farþegi í bíl í klukkustund án þess að stoppa | 0 | 1 | 2 | 3 |
Legg mig síðdegis ef ég hef tækifæri til | 0 | 1 | 2 | 3 |
Sit og spjalla við einhvern | 0 | 1 | 2 | 3 |
Sit í ró og næði eftir máltíð | 0 | 1 | 2 | 3 |
Er í bíl sem stoppar í fáeinar mínútur | 0 | 1 | 2 | 3 |
Leggðu saman stigin:
Stig | Niðurstaða |
10 eða minna | Eðlilegt ástand |
11-14 | Væg dagsyfja |
15-18 | Meðal dagsyfja |
19 eða meira | Mikil dagsyfja |
Er kæfisvefn hættulegur?
Ómeðhöndlaður kæfisvefn getur verið það. Fólk með ómeðhöndlaðan kæfisvefn fær ekki góðan svefn. Það er því þreyttara og með minni einbeitingu sem getur valdið slysum t.d. bílslysum. Kæfisvefn er einn þeirra þátta sem auka líkur á háþrýstingi og því er fólk með kæfisvefn líklegra en annað fólk til að vera með of háan blóðþrýsting. Þeim er einnig hættara við að fá hjartaáfall eða þjást af hjartabilun.