Inflúensa (e. flu) er sýking af völdum inflúensuveira A og B í öndunarfærum. Sýklalyf virka ekki á inflúensuveirur. Á vetri hverjum gengur inflúensan yfir á tímabilinu október til mars og er hún 2–3 mánuði að ganga yfir. Í daglegu tali er oft talað um flensu en það orð er líka oft haft um sýkingar í öndunarfærum sem ekki eru inflúensa.
Einkenni
Einkenni inflúensunnar koma oftast snögglega yfir fólk og algengustu einkennin eru:
- Hiti
- Hósti
- Nefrennsli
- Höfuðverkur og beinverkir (verkir í öllum líkamanum)
- Hálsbólga og kvef eru sjaldgæfari einkenni í flensu en geta þó fylgt
Smitleiðir
Veiran berst milli manna með dropasmiti við hósta eða hnerra og/eða með snertismiti
Til að forðast smit er mikilvægt að:
- Þvo hendurnar oft með vatni og sápu
- Halda sig fjarri fólki sem er með inflúensu
- Láta bólusetja sig árlega gegn inflúensu
Greining
Hægt er að greina sjúkdóminn með sýnatöku frá nefi eða hálsi.
Skyndipróf geta leitt til bráðabirgðaniðurstöðu samdægurs en ræktun tekur nokkra daga.
Hvað get ég gert?
- Drekka vel af vatni
- Hvíla sig og sofa vel
- Taka hitalækkandi lyf
- Vera heima þar til hitalaus í einn sólarhring án hitalækkandi lyfja
- Þolinmæði, það tekur líkamann 1-2 vikur að jafna sig á inflúensu
Hvenær skal leita aðstoðar?
Einkenni inflúensu geta varað lengi en leita skal til heilsugæslunnar ef eftirfarandi einkenni koma fram:
- Andþyngsli
- Blóðlitaður uppgangur
- Verkur er fyrir brjósti eða kvið
- Svimi eða sljóleiki
- Uppköst í meira en tvo sólarhringa
Finna næstu heilsugæslu hér.
Ef barn fær inflúensu
Sömu ráð eiga við sjúkdóminn hjá barni,
- Halda barninu heima þar til það hefur verið hitalaust í 1 til 2 sólarhringa án hitalækkandi lyfja og barninu líður vel
- Gefa hitalækkandi lyf eftir þörfum
- Gæta þess að gefa barninu vel að drekka. Börn geta þornað fljótt með háan hita
Farðu með barnið strax á næstu bráðamóttöku ef:
- Barnið fer að anda hratt eða á erfitt með öndun
- Barnið fer að blána
- Barnið er ekki að drekka nóg, pissar lítið og þvag er mjög dökkt
- Barnið á erfitt með að vakna og/eða þú nærð litlu sambandi við það
- Barnið lagast af inflúensunni en slær síðan niður aftur og fær hita eða hósta
- Barnið fær hita og útbrot
Ef ég er barnshafandi?
Ef þú ert barnshafandi skaltu alls ekki vera í nálægt fólki sem er með inflúensu.
Ef þú heldur að þú sért komin með sjúkdóminn skaltu hafa samband við ljósmóður eða heimilislækni sem þú ert hjá í mæðravernd.
Ráðlagt er að þungaðar konur fái bóluefni. Það má fá bóluefni við inflúensu með barn á brjósti.
Bóluefni
Áhættuhópar sem njóta forgangs við inflúensubólusetningu:
- Börn á aldrinum 6 mánaða - 4 ára
- Allir einstaklingar 60 ára og eldri
- Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum
- Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan
- Þungaðar konur
Ofangreindir áhættuhópar eiga rétt á bóluefninu sér að kostnaðarlausu.
Bóluefni veitir ekki 100% vörn og getur fólk fengið einkenni inflúensu þrátt fyrir bólusetningu.
Ekki er til inflúensubóluefni sem nota má fyrir börn undir 6 mánaða aldri, en bólusetning móður á meðgöngu skilar mótefnum til barns sem talin eru veita vernd í a.m.k. 6 mánuði.