Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Höfuðverkur

Kaflar
Útgáfudagur

Höfuðverkur (e. headache) er algengt einkenni bæði hjá skólabörnum og fullorðnum. Höfuðverkur er hins vegar sjaldgæfur hjá börnum yngri en 5 ára. Margar ástæður geta verið fyrir höfuðverk og geta önnur einkenni sem fylgja sagt til um hversu alvarlegt ástandið er.

Orsakir

Höfuðverkur getur verið af fjölþættum ástæðum. Dæmi um orsakir:

Vökvaskortur er algeng ástæða höfuðverks. Líkaminn þarf vökva til að geta starfað eðlilega.

Streita og álag eru algengustu ástæður höfuðverkja. Oftast er um að ræða stöðugan verk í öllu höfðinu eða verk í hnakka eða enni. Sumir upplifa hann eins og þrýsting af bandi sem bundið er um höfðuðið eða þröngri húfu.

Mígreni hrjáir bæði börn og fullorðna. Talið er að um 5 af hverjum 100 séu með sjúkdóminn. Migreni kemur í köstum og höfuðverknum fylgir oft ljósfælni og ógleði. Verkurinn er gjarnan í enninu eða öðrum helmingi höfuðsins. Köstin standa oftast í 1 til 6 klukkutíma en geta staðið í allt að þrjá sólarhringa.

Sýkingar eru algeng ástæða fyrir höfuðverk. Hér er til dæmis um að ræða inflúensu, kvef og bólgur í kinnholum eða ennisholum. Þessum sýkingum fylgir hiti. 

Heilahristingur getur komið af höfuðhöggi. Honum fylgir gjarnan höfuðverkur sem ber að taka alvarlega.

Fráhvarfseinkenni ýmsra efna getur meðal annars verið höfuðverkur. Þetta getur verið fráhvarf eftir neyslu áfengis og annarra vímuefna en einnig ef sá sem vanur er að drekka mikið kaffi, fær ekki kaffið sitt.

Heilahimnubólga veldur kröftugum höfuðverk, háum hita og stífleika í hnakka. Séu þessi einkenni til staðar hjá börnum eða fullorðnum þarf strax að leita læknis.

Heilablóðfall fylgir oftast mikill og sár skyndilegur höfuðverkur. Samfara honum eru oftast sjóntruflanir, kröftug uppköst, truflun á jafnvægi eða hreyfingu, skyntruflanir eða lamanir. Leitið strax til læknis ef grunur er um heilablóðfall.

Hvað get ég gert?

Nokkur ráð sem geta hjálpað við höfuðverk:

  • Drekka nóg af vökva
  • Hvílast við rólegar aðstæður
  • Kaldur bakstur á enni 
  • Taka almenn verkjalyf

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu strax á næstu bráðamóttöku ef:

  • Skyndilegur og mjög mikill höfuðverkur, versti verkur sem þú hefur upplifað
  • Skyndilegt þróttleysi, doði eða náladofi í öðrum helmingi líkamans
  • Ruglástand, sljóvgi eða erfiðleikar með tal
  • Erfiðleikar með að standa upp og ganga
  • Hár hiti og stífur háls
  • Punktblæðingar (litlir dökkir blettir) birtast á húð
  • Barn með sykursýki og blóðsykur mælist hár

Leitaðu til heilsugæslunnar þinnar á næsta sólarhring ef:

  • Ráð og lyf við mígreni virka ekki
  • Breyting er á migreniköstum
  • Höfuðverkur varir í >12 tíma án annarra einkenna
  • Saga um hækkaðan blóðþrýsting
  • Höfuðverkurinn hefur áhrif á daglegt líf
  • Höfuðverkur á hliðum höfuðs og aldur er yfir 50 ára

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku