Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

Hlaupabóla

Kaflar
Útgáfudagur

Hlaupabóla er algengur sjúkdómur sem orsakast af varicella zoster (e. herpes zoster) veiru. Yfirleitt er um vægan sjúkdóm að ræða. Í einstaka tilfellum getur hlaupabóla orðið að alvarlegum sjúkdómi, þ.e. ef veiran nær að dreifa sér til ýmissa líffæra og valda skaða. 

Nánast allir fullorðnir hafa fengið hlaupabólu einhvern tímann á lífsleiðinni. Algengast er að fólk hafi fengið sjúkdóminn á barnsaldri en árið 2020 hófst reglubundin bólusetning gegn hlaupabólu. 

Einkenni

Helstu einkenni:

  • Útbrot
  • Kláði
  • Slappleiki
  • Vægur hiti í 1-2 daga áður en útbrot koma fram og varir hitinn áfram hjá börnum og unglingum í 2-3 daga samhliða útbrotunum

Önnur einkenni geta verið:

Útbrotin byrja sem litlar rauðar bólur sem eftir nokkra klukkutíma verða að vessafylltum blöðrum Blöðrurnar verða síðan að sárum á 1-2 dögum. Það myndast hrúður og þær þorna upp.Útbrotin byrja oftast á bol og andliti, en þau geta einnig komið fram í hársverði og á fótum. Stundum berast útbrotin yfir í slímhúðir og kynfæri. 

Nýjar bólur geta bæst við eftir 3-6 daga. Það er mjög mismunandi hversu mikil útbrot hver einstaklingur fær

Hlaupabóluútbrot á barni

Sjúkdómurinn varir í 7-10 daga hjá börnum en lengur hjá fullorðnum. Flestir fá hlaupabólu bara einu sinni á ævinni. 

Smitleiðir

Sjúkdómurinn smitast á milli manna með úða frá öndunarvegum og með beinni snertingu við útbrotin sem eru vessafylltar blöðrur ef þær eru sprungnar því veiran er í vessanum.

Það geta liðið 10-21 dagar frá smiti og þar til einkenni koma fram. Einstaklingur getur smitað aðra allt að þremur dögum áður en hann fær sjálfur útbrot og er smitandi þar til allar bólur hafa sprungið og þornað upp.

Bólusett börn sem greinast með hlaupabólu geta einnig smitað aðra þrátt fyrir að fá oftast væg einkenni. Öll börn eiga að vera heima þar til engar nýjar bólur eru að myndast og þær orðnar þurrar, enginn vessi að koma úr þeim. 

Í kjölfar hlaupabólusýkingar tekur veiran sér bólfestu í taugum líkamans og liggur þar dulin. Hún getur síðar tekið sig upp og valdið svokölluðum ristli sem einkennist af staðbundnum og sársaukafullum blöðrulíkum útbrotum. Einstaklingur með ristil getur smitað aðra af hlaupabólu.

Greining

Útbrot hlaupabólu er einkennandi fyrir sjúkdóminn og byggir greiningin á þeim. Einnig er hægt að greina veiruna með ræktun frá útbrotum eða með blóðrannsókn.

Hvað get ég gert?

  • Drekka vel
  • Draga úr kláða
    • Hægt er að lina kláða með köldum bökstrum
    • Sturta eða bað geta slegið á kláðann. Hiti og sviti auka á kláðann 
    • Lyf til útvortis notkunar, t.d. sinkáburður og púður, áburður sem inniheldur menthol svo og mentholspritt. Einnig eru til staðdeyfikrem. Þessi lyf draga einungis úr kláðanum tímabundið og við notkun þeirra ber að hafa í huga að þau geta valdið sviða í stutta stund
    • Trufli kláðinn svefn er hægt að nota kláðastillandi lyf sem fást án lyfseðils
  • Gæta þarf hreinlætis. Börn klóra sér gjarnan í blöðrurnar og geta borið smit
  • Gefa hitalækkandi lyf eins og paracetamól (panodil) en gæta verður þess að þau inni haldi ekki aspirín og ekki er mælt með lyfjum sem innihalda íbúprófen. 
  • Vera í fatnaði sem hylja útbrot

Sýktir fullorðnir eiga að halda sig frá vinnu og sýkt börn eiga að vera fjarri skóla eða leikskóla þar til allar útbrotsblöðrur hafa þornað og engar nýjar birtast. Þetta tekur venjulega allt að fimm daga.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu til heilsugæslu ef:

  • Grunur er um bakteríusýkingu í útbrotum 
  • Einkenni versna
  • Skert ónæmiskerfi 
  • Útbrot koma á auga eða augu

Leitaðu til bráðamóttökunnar ef:

  • Grunur um ofþornun
  • Minnkuð meðvitund
  • Krampi
  • Ofskynjanir eða minnistap
  • Öndunarerfiðleikar

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku

Barnshafandi

Barnshafandi kona sem kemst í snertingu við hlaupabólu og hefur ekki fengið hlaupabólu skal hafa samband við mæðravernd Heilsugæslunnar. 

Fylgikvillar

Yfirleitt stafar engin hætta af hlaupabólu. Börn verða yfirleitt lítið veik en hlaupabóla leggst oft þyngra á unglinga og fullorðna einstaklinga sem er líka hættara við fylgikvillum en börnum.

Helstu fylgikvillar sem geta komið í kjölfar hlaupabólu eru:

  • Lungnabólga
  • Í stöku tilfellum getur hlaupabóla valdið heilabólgu og hjartavöðvabólgu
  • Sýking í sárum ef verið er að klóra mikið í þau
Forvarnir

Til er bóluefni gegn hlaupabólu. Börn fædd 2019 og síðar eiga rétt á bólusetningu að kostnaðarlausu. 

Foreldrar barna fædd 2018 eða fyrr geta óskað eftir að kaupa bóluefnið fyrir þau börn sem ekki hafa fengið hlaupabóluna. Bóluefnið er lyfseðilsskylt. 

Fólk sem er útsett fyrir hlaupabólu en hefur ekki mótefni er ráðlagt að fara í bólusetningu á næstu 3-5 dögum.

Fyrirkomulag barnabólusetninga