Kórónuveirur eru safn veira af sama stofni, sem geta valdið misalvarlegum sjúkdómum. Í desember 2019 var greint frá nýju afbrigði þessa stofns, SARS-CoV-2, sem hafði aldrei áður greinst í mönnum. Þetta nýja afbrigði veldur COVID-19 sjúkdómnum og er bæði bráðsmitandi og getur valdið alvarlegum veikindum.
Hér má finna fræðsluefni fyrir börn um COVID-19.
Einkenni
COVID-19 sjúkdómurinn veldur oft vægum einkennum sem minna helst á flensu. Í sumum tilfellum verður fólk þó alvarlega veikt og þarf innlögn á sjúkrahús. Eldra fólk og þau sem hafa langvinna sjúkdóma einkum hjarta- og lungnasjúkdóma eða sykursýki eru í meiri hættu á að fá alvarleg einkenni.
Á vef Embættis landlæknis má finna leiðbeiningar fyrir fólk sem er í áhættuhópum.
Algeng einkenni:
- Hálsbólga
- Hósti
- Kuldahrollur
- Hiti - hjá börnum - hjá fullorðnum
- Óþægindi frá meltingarvegi, uppköst eða niðurgangur
- Kvef, nefrennsli eða stíflað nef
- Bein- og vöðvaverki
- Þreyta og slappleik
- Bragð- og lyktarskyn hverfur
- Erfiðleikar við öndun
- Höfuðverkur
Smitleiðir
Meðgöngutími sjúkdómsins er 2-14 dagar. Oftast koma einkenni fram á 4-8 degi en fólk getur verið smitandi í allt að tvær vikur. Bæði þau sem fá einkenni og þau sem eru alveg einkennalaus geta smitað aðra.
COVID-19 berst á milli manna með úðasmiti. Snertismit er einnig hugsanleg smitleið.
- Úðasmit
Þegar smitaður einstaklingur hnerrar eða hóstar dreifast veirur með úðanum út í andrúmsloftið. Heilbrigðir sem eru í sama rými eða koma í það einhverjum tíma síðar eru í hættu á að smitast, sérstaklega ef rýmið er lokað og engin loftskipti eiga sér stað. Mörg smit verða í heimahúsum og á vinnustöðum þar sem engin loftræsting er eða gluggar ekki hafðir opnir til að auka loftskipti. - Snertismiti/dropasmit
Þegar hendur mengast af dropum í umhverfinu eftir að hafa snert sýkt svæði. Sameiginlegir snertifletir s.s. hurðarhúnar, skjáir og innkaupakerrur geta borið smit sem berst á hendur. Fólk ber svo hendur upp að andliti sínu, í augu, nef eða munn og fær þannig veiruna í sig.
Orsakir
COVID-19 sjúkdómurinn orsakast af ákveðnu veiruafbrigði, SARS-CoV-2, sem er bæði bráðsmitandi og getur valdið alvarlegum veikindum og jafnvel dauða.
Greining
Tvær tegundir Covid prófa eru notaðar hér á landi til að greina hvort veiran sé til staðar hjá einstaklingum:
- PCR (e. polymerase chain reaction)
- Hraðgreiningarpróf (e. rapid antigen test)
Bæði prófin felast í að sýnatökupinna er stungið í nef- og/eða hálskok. Af því loknu er hann settur í ákveðinn vökva og sendur á rannsóknarstofu til greiningar.
Einkennasýnataka
Ef einhver einkenni eru til staðar er mælt að taka COVID-19 heimapróf.
Læknir getur ákveðið að framkvæma PCR próf og bókar þá fólk í slíkt próf.
Meðferð
Ekki er lengur skylda fyrir þau sem fá COVID-19 að dvelja í einangrun. Fólk sem fær COVID-19 og er með öndunarfæraeinkenni og hita er beðið um að halda sig til hlés í a.m.k. fimm daga.
Ýmis ráð við fylgikvillum COVID-19 sjúkdóms:
- Drekka vel til að koma í veg fyrir þurrk
- Hóstasaft
- Hvíld
- Taka hitalækkandi lyf eins og t.d. Parasetamol
- Liggja á hliðum eða á sitja uppi ef hósti er mikill. Forðast skal að liggja út af á baki
- Slímlosandi freyðitöflur sem fást í lyfjaverslunum geta hjálpað
- Gott er að setjast upp á um það bil klukkutíma fresti og gera nokkrar öndunaræfingar. Anda djúpt ofan í maga
Hvað get ég gert?
- Nota grímur sem hylja bæði nef og munn ef einkenni eru til staðar
- Tryggja góða loftræstingu. Góð loftskipti með opnum gluggum bæði í húsnæði og í bílum er mikilvæg
- Handþvottur (vatn og sápa) eða spritt (spritt drepur ekki allar veirur t.d. NORO veiruna, svo alltaf að nota handþvott þegar þess er kostur)
- Halda sig heima ef einkenna verður vart og forðast samskipti við aðra
- Taka COVID-19 heimapróf til að staðfesta greiningu
- Fylgjast vel með fréttum á heimasíðu heilsugæslunnar á heilsugaeslan.is. Á heimasíðum heilbrigðisstofnana má finna þessar upplýsingar fyrir hvern landshluta fyrir sig
Ef þörf er á aðstoð
En einkenni eru slæm eða langvarandi er rétt að leita sér aðstoða. Hægt er að fá aðstoð hjá Heilsugæslunni og Læknavaktinni.
- Til að fá aðstoð hjá Heilsugæslunni má hafa samband við netspjall á heilsuvera.is eða í síma 1700
- Hringja í 112 í neyðartilfellum.
Finna næstu heilsugæslu hér.