Bjúgur (e. edema) myndast þegar vökvasöfnun verður í vefjum líkamans. Oftast sést bjúgur á rist eða ökkla en hann getur einnig komið fram í öðrum líkamshlutum eins og á kvið, höndum og í andliti. Bjúgur getur takmarkað hreyfingar í útlimum og valdið óþægindum. Ef bjúgur er viðvarandi er ráðlagt að leita læknis.
Einkenni
- Bólginn ökkli eða fótleggur
- Húð yfir bólgu er glansandi, teygð og mögulega rauðleit
- Ef þrýst er með fingri á bólgið svæði myndast dæld í húðinni
- Far myndast eftir tímabundinn þrýsting t.d. eftir stroff á sokkum
- Verkir í fótum
- Þreyta í fótum
- Kláði yfir bólgustað
- Þyngdaraukning á skömmum tíma
- Mæði
Orsakir
Bjúgur getur myndast af mörgum ástæðum. Dæmi um orsakir:
Saltrík fæða getur valdið bjúg á fótum sérstaklega ef ekki er drukkið nægjanlegt vatn
Kyrrseta og langar stöður. Að vera á hreyfingu hjálpar til.
Meðganga er álag fyrir líkamann og bjúgur einn þeirra meðgöngukvilla sem geta fylgt
Áverkar til dæmis tognun á fæti
Umbúðir eins og gifs, teyjubindi, þröngir sokkar eða þröngir skór geta valdið bjúg
Skordýrabit bólgna gjarnan upp og geta valdið bjúg
Löngum bíl- og flugferðum fylgir oft mikil kyrrseta því er gott að standa upp reglulega og gera fótaæfingar til að minnka bjúgsöfnun
Aukaverkun lyfja. Hafir þú grun um að svo geti verið er gott að lesa um aukaverkanir þeirra lyfja sem þú notar. Á sérlyfjaskrá má fynna fylgiseðla lyfja.
Hjartabilun fylgir oftast bjúgur
Hjartaþelsbólga lýsir sér meðal annars með bjúgmyndun í líkamanum
Hvað get ég gert?
Það er ýmislegt hægt að gera til að koma í veg fyrir vökvasöfnun til dæmis:
- Regluleg hreyfing til að auka blóðflæði í fótum
- Fótaæfingar þegar setið er, kreppa tær og teygja úr sér við hvert tækifæri
- Hafa hátt undir fótum í hvíld, nota skemil eða kodda undir fætur
- Forðast kyrrstöðu með hangandi fætur
- Forðast heit böð
- Forðast langar stöður því þá hækkar þrýstingur er veldur bjúg í fótleggjum
- Nota stuðningssokka á daginn
- Nota stuðningssokka (flugsokka) í lengri bíl- og flugferðum: standa reglulega upp og ganga um
- Huga að mataræði og takmarka neyslu á salti
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leitaðu strax á næstu bráðamóttöku ef:
- Skyndilega kemur mikill bjúgur á fætur
- Erfiðleikar eru við öndun
- Aukin mæði
- Verkur fyrir brjósti, þrýstingur eða þyngsl yfir brjóstkassa
Ráðlagt er að leita heilsugæsluna ef:
- Bjúgur lagast ekki við það hækka undir fótum, ganga um eða minnka setu
- Bjúgur eykst á fótum
- Bjúgur er á öðrum fæti með verk sem ekki tengist áverka
- Skyndilegur hiti eða roði myndast á fótlegg