Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

Smitsjúkdómar sem bólusett er gegn

Kaflar
Útgáfudagur

Fyrir neðan er listi af smitsjúkdómum sem hægt er að fá bólusetningu gegn. Bólusett er gegn ýmsum bakteríu- og veirusýkingum.

Bóluefni geta verið:

  • Hluti af bólusetningu barna
  • Ráðlögð fyrir dvöl á landsvæðum þar sem smitsjúkdómar eru til staðar
  • Ráðlögð af lækni fyrir ákveðna einstaklinga til dæmis vegna veikinda
  • Ráðlögð fyrir fólk 60 ára og eldri

Möguleiki er að bóluefni sem notuð eru breytist á milli ára og árganga. 

Upplýsingar um bóluefni má finna hjá Sérlyfjaskrá.

Barnaveiki

Bólusetning gegn barnaveiki er hluti af bólusetningu barna

  • Smitleiðir
    • Bakterían berst milli manna með dropa- eða úðasmiti frá öndunarfærum t.d. hósta, hnerra eða hlátri sem síðan berst með höndum í slímhúðir munns eða nefs.
  • Bóluefni
    • Mælt með örvunarskammti á 10 ára fresti.
    • Barnaveiki greindist síðast á Íslandi árið 1953.
Covid-19

Boðið er upp á bólusetningu gegn Covid-19 á haustin.

  • Smitleiðir
    • COVID-19 berst á milli manna með úðasmiti. Snertismit er einnig hugsanleg smitleið.
  • Bóluefni
    • Ráðlegt er að fólk 60 ára á eldri og fólk með undirliggjandi sjúkdóma fari árlega í bólusetningu.
Hib bakteríusýking

Bólusetning gegn Hib bakteríusýkingu er hluti af bólusetningu barna

  • Smitleiðir
    • Hib baktería berst á milli manna með úða frá öndunarfærum við hósta eða hnerra.
  • Bóluefni
    • Bólusetning hófst á árunum 1981-1990.
Hettusótt

Bólusetning gegn hettusótt er hluti af bólusetningu barna.

  • Smitleiðir
    • Smit berst með úða frá öndunarfærum t.d. með hnerra.
  • Bóluefni
    • Bólusetning hófst hér á landi árið 1989.
Hlaupabóla

Bólusetning gegn hlaupabólu er hluti af bólusetningu barna

  • Smitleiðir
    • Sjúkdómurinn smitast á milli manna með úða frá öndunarvegum og með beinni snertingu við vessandi útbrot.
  • Bóluefni
    • Byrjað var að bólusetja gegn hlaupabólu árið 2019.
HPV veira

Bólusetning gegn HPV veiru er hluti af bólusetningu barna

  • Smitleiðir
    • HPV-veira smitast við snertingu húðar eða slímhúðar, oftast við kynmök við sýkta húð/slímhúð.
  • Bóluefni
    • Bólusetning stúlkna hófst haustið 2011. Árið 2023 var byrjað að bólusetja öll börn við 12 ára aldur.
Hundaæði

Bólusetning gegn hundaæði getur verið hluti af bólusetningu ferðamanna

  • Smitleiðir
    • Veiran berst með munnvatni sýktra spendýra, aðallega hunda. Smit berst í fólk við bit eða klór af sýktum dýrum, en einnig ef dýrin sleikja opin sár eða munnvatn þeirra kemst í nálægð við munn eða augu fólks.
  • Bóluefni
    • Bóluefni er forvörn og meðferð. Til að tryggja árangursríka meðferð er nauðsynlegt að leita strax til læknis verði fólk fyrir biti eða klóri spendýrs í landi þar sem hundaæði er landlægt. Það gildir jafnt um bólusett og óbólusett fólk.
Inflúensa

Boðið er upp á bólusetningu gegn inflúensu á hverju ári.

  • Smitleiðir
    • Veiran berst milli manna með dropasmiti við hósta eða hnerra og/eða með snertismiti.
  • Bóluefni
    • Bólusetning er í boði á haustin.
Japönsk heilabólga

Bólusetning gegn japanskri heilabólgu getur verið hluti af bólusetningu ferðamanna

  • Smitleiðir
    • Veirusýkingin getur borist í fólk verði það bitið af moskítóflugum á svæðum þar sem sjúkdómurinn er landlægur.
  • Bóluefni
    • Ráðlagt er að fá bóluefni ef dvelja á lengi á hættusvæðum eða stunda þar útivist. 
Kíghósti

Bólusetning gegn kíghósta er hluti af bólusetningu barna

  • Smitleiðir
    • Smit berst milli manna með úða frá öndunarfærum t.d. með hnerra eða hósta. 
  • Bóluefni
    • Mælt með örvunarskammti á 10 ára fresti.
Kólera

Bólusetning gegn Kóleru er hluti af bólusetningu ferðamanna

  • Smitleiðir
    • Bakterían berst með menguðu vatni og matvælum í smáþarmana og veldur miklum vatnskenndum niðurgangi. Eiturefnin sem bakterían gefur frá sér hefur slæm áhrif á slímhúð þarma.
  • Bóluefni
    • Bóluefnið er lyfseðilsskylt og er í vökvaformi.
Lifrarbólga A

Bólusetning gegn lifrarbólgu A getur verið hluti af bólusetningu ferðamanna.

  • Smitleiðir
    • Lifrarbólga A er veirusýking sem smitast með saursmiti eða með því að neyta matar eða drykkjar sem er mengaður af saur einstaklings sem er með veiruna. Þetta getur gerst ef smitaður einstaklingur gætir ekki að handþvotti eftir salernisferð og handleikur svo matvæli sem aðrir neyta.
  • Bóluefni
    • Annaðhvort gefið eitt og sér eða í sömu sprautu og lifrarbólga B.
Lifrarbólga B

Bólusetning gegn lifrarbólgu B getur verið hluti af bólusetningu ferðamanna.

  • Smitleiðir
    • Lifrarbólga B er veirusýking sem berst með blóði eða öðrum líkamsvessum milli einstaklinga. Sjúkdómurinn getur smitast þegar nálum er deilt, við stunguslys eða við notkun rakvéla eða tannbursta frá sýktum einstaklingi. Einnig getur sjúkdómurinn smitast við samfarir án smokks.
  • Bóluefni
    • Annaðhvort gefið eitt og sér eða í sömu sprautu og lifrarbólga A.
Lungnabólga

Lungnabólga er oftast af völdum baktería en getur líka verið vegna veiru- eða sveppasýkinga. Til er bóluefni gegn pneumókokka bakteríu sem geta orsakað lungnabólgu en einnig aðrar tegundir sýkinga, til dæmis eyrnabólgu og/eða heilahimnubólgu. 

  • Smitleiðir
    • Smit berast yfirleitt með úðasmiti, t.d. hósta eða hnerra.
  • Bóluefni
    • Bóluefni gegn pneumókokkum er hluti af bólusetningu barna
    • Til eru bóluefni sem gefin eru á öllum aldri eftir ráðleggingum frá lækni.
    • Fólk 60 ára og eldri er ráðlagt að fá bólusetningu gegn pneumókokkum. 
Malaría

Bólusetning gegn Malaríu getur verið hluti af bólusetningu ferðamanna

  • Smitleiðir
    • Malaría berst með biti moskítóflugu en smit á sér ekki stað manna á milli.
  • Bóluefni
    • Ekki er til bóluefni gegn malaríu. Á ferðalögum til svæða þar sem malaría er landlæg ber að gefa lyf í töfluformi í forvarnarskyni. Nánari upplýsingar um fyrirbyggjandi meðferð við malaríu má fá hjá heimilislæknum og smitsjúkdómalæknum. Lyfin eru lyfseðilsskyld.
Meningókokkar ACWY

Bólusetning gegn Meningókokkum er hluti af bólusetningu barna en getur einnig verið hluti af bólusetningu ferðamanna fyrir þá sem fengu ekki barnabólusetningu. 

  • Smitleiðir
    • Bakterían smitast með dropasmiti frá öndunarfærum t.d. við hósta eða með kossum.
  • Bóluefni
    • Byrjað var að bólusetja gegn Meningókokkum C árið 2002 og var fólk fætt 1983 eða yngra bólusett.
    • Byrjað að bólusetja er gegn Meningókokkum A, C, W og Y árið 2023.
Mislingar

Bólusetning gegn mislingum er hluti af bólusetningu barna

  • Smitleiðir
    • Mislingaveiran er mjög smitandi og berst milli manna með úða frá öndunarfærum t.d. hósta og hnerra.
  • Bóluefni
    • Bólusetning gegn mislingum hófst hér á landi árið 1976.
Mítilborin heilabólga, TBE

Bólusetning gegn mítilborni heilabólgu getur verið hluti af bólusetningu ferðamanna

  • Smitleiðir
    • Sjúkdómurinn smitast með biti skógarmítils.
  • Bóluefni
    • Bólusetning gegn blóðmítlaheilabólgu er möguleg fyrir þau sem hyggja á ferðalög á svæðum þar sem sjúkdómur er þekktur.
Mýgulusótt

Bólusetning gegn mýgulusótt getur verið hluti af bólusetningu ferðamanna

  • Smitleiðir
    • Moskítóflugur bera veiruna í fólk með biti.
  • Bóluefni
    • Bóluefnið er ætlað fólki frá 9 mánaða - 60 ára. Möguleiki á gefa efnið börnum 6 til 9 mánaða og fólki eldra en 60 ára að undangengnu mati læknis.
    • Ráðlagt að fá staðfestingu á inndælingu frá heilbrigðisstarfsmanni í bólusetningarskírteini þegar bóluefnið er gefið.
Mænusótt

Bólusetning gegn mænusótt er hluti af bólusetningu barna

  • Smitleiðir
    • Mænusóttarveiran er mjög smitandi og getur borist í menn með úðasmiti, til dæmis með hnerra en einnig með saurmengun í drykkjarvatni og mat.
  • Bóluefni
    • Mælt með örvunarskammti á 10 ára fresti.
Rauðir hundar

Bólusetning gegn rauðum hundum er hluti af bólusetningu barna

  • Smitleiðir
    • Sjúkdómurinn berst með úðasmiti.
  • Bóluefni
    • Bólusetning gegn rauðum hundum hófst hér á landi árið 1977 hjá konum á barnseignaraldri sem ekki höfðu mótefni gegn veirunni en því fyrirkomulagi var hætt árið 2001.
    • Almenn bólusetning barna hófst árið 1989.
Ristill

Aðeins fólk sem hefur fengið hlaupabóluna getur fengið ristil

  • Smitleiðir
    • Eftir hlaupabólu smit lifir veiran áfram í líkamanum. Hún liggur í dvala en getur komið fram aftur og valdið ristli.
  • Bóluefni
    • Til er bóluefni gegn ristli. Bóluefnið er nokkuð dýrt og í flestum tilfellum þarf að fá lyfseðil frá lækni.
Rótaveira

Bóluefni gegn rótaveiru hluti af bólusetningu barna.

  • Smitleiðir
    • Rótaveira smitast auðveldlega á milli fólks með snertismiti.
  • Bóluefni
    • Bólusetningin gegn rótaveiru hófst í ársbyrjun 2025.
Stífkrampi

Bólusetning gegn stífkrampa er hluti af bólusetningu barna

  • Smitleiðir
    • Stífkrampabakteríur komast inn í líkamann um skurði, rispur eða sár á húðinni.
  • Bóluefni
    • Mælt með örvunarskammti á 10 ára fresti.
Taugaveiki

Bólusetning gegn taugaveiki getur verið hluti af bólusetningu ferðamanna

  • Smitleiðir
    • Taugaveiki smitast auðveldlega milli manna þar sem hreinlæti er takmarkað. T.d. með sýktum matvælum, vatni, eða notkun salerna þar sem bakterían er til staðar.
  • Bóluefni
    • Mælt er með bólusetningu fyrir fólk sem eru að skipuleggja lengra en tveggja vikna ferðalag til landa þar sem sjúkdómurinn er landlægur.