Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Eftir fæðingu - heimaþjónusta ljósmæðra

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Lágmarksdvöl á sjúkrahúsi eftir fæðingu er 4 klst. Konan og barnið (eftir atvikum fjölskyldan) dvelja á sængurlegudeild/stofu meðan á dvöl þeirra á stofnuninni stendur. Eftir fæðingu á LSH býðst foreldrum að dvelja á meðgöngu- og sængurlegudeild í allt að 24 klst eftir eðlilega fæðingu. Þær konur sem hafa fætt áður fara gjarnan heim fyrr eða innan 12 klst. Kona og barn sem þurfa sérstaka umönnun og/eða eftirlit þurfa oft að dvelja lengur á sjúkrahúsinu. Á öðrum fæðingarstöðum getur fyrirkomulagið verið eitthvað frábrugðið.

Þegar fjölskyldan útskrifast heim innan sólarhrings frá fæðingu, stendur þeim til boða að þiggja vitjanir frá ljósmóður í heimaþjónustu næstu 6-10 daga. Ljósmóðirin kemur heim til fjölskyldunnar innan 12-16 klst frá útskrift og það er hægt að hafa samband við hana í síma ef vandamál koma upp milli heimsókna.
Konum sem eru að fæða í fyrsta sinn býðst að fá allt að 7 heimsóknir ljósmóður en konur sem hafa fætt áður 6 heimsóknir.
Mæður sem fæða með keisaraskurði eiga þess kost að útskrifast í heimaþjónustu eftir 48 klst. Þó frávik hafi verið í heilsufari móður eða barns og þau þurft lengri dvöl á sjúkrahúsi geta þau útskrifast í heimaþjónustu allt að 72 klst. eftir fæðingu.

Gott er að nýta tímann á spítalanum vel til að öðlast færni í fyrstu skrefum brjóstagjafar og fá leiðsögn frá ljósmóður þegar barnið er tilbúið að fara á brjóst. Það eykur líkur á að vel takist til og veitir aukið öryggi þegar heim er komið.
Á LSH er nýburinn skoðaður af barnalækni fyrir heimferð og fer skoðunin fram inni á herbergi fjölskyldunnar. Foreldrar fá tíma fyrir barnið í aðra skoðun hjá barnalækni þegar barnið er 5-7 daga gamalt. Heyrnarmæling er gerð í þessari skoðun og barnið er vigtað. Skoðunin fer fram á jarðhæð Barnaspítala Hringsins.