Tríkómónassýking (e. Trichomoniasis) er kynsjúkdómur sem orsakast af sníkjudýrinu Trichomonas vaginalis.
Einkenni
Um helmingur smitaðra fá engin einkenni en geta samt sem áður smitað aðra.
Einkenni eru mismunandi milli kynja.
Einkenni hjá konum:
- Aukin útferð frá leggöngum
- Froðukennd útferð
- Illa lyktandi útferð eða breyttur litur á henni
- Sviði við þvaglát
- Verkir í leggöngum við kynmök
- Óþægindi á kynfærasvæði svo sem bólga og/eða kláði við leggöng eða barma
Einkenni hjá körlum:
- Verkir við þvaglát eða sáðlát
- Tíðari þvaglát
- Útferð frá getnaðarlim
- Óþægindi, bólga eða roði á getnaðarlim eða undir forhúð
Smitleiðir
Kynsjúkdómurinn smitast við óvarin kynmök eða með óvörðum kynlífstækjum sé þeim deilt milli aðila. Ekki er talið að sjúkdómurinn smitist með munnmökum.
Meðgöngutími
Einkenni koma oftast fram innan mánaðar frá smiti.
Greining
Líkamsskoðun kynfæra og/eða sýnataka frá kynfærum
Ef viðkomandi greinist með sýkinguna er mikilvægt að smitrakning fari fram svo að fyrri rekkjunautar geti farið í skoðun og fengið meðhöndlun við hæfi.
Meðferð
Hvað get ég gert?
- Ekki deila eða nota kynlífstæki frá öðrum nema eftir viðeigandi þvott eða setja á þau smokk
- Nota smokk við kynmök
- Klára sýklalyfjaskammt sé staðfest sýking til þess að koma í veg fyrir endursmit
Ef grunur er um tríkómónas sýkingu eða ef óskað er eftir að láta skima fyrir kynsjúkdómum er hægt að bóka tíma á heilsugæslu eða hjá göngudeild kynsjúkdóma Landspítalans í síma 543-6050 milli kl 08:15-15:00 eða á smáforriti Landspítalans.