Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Tölvuleikjaröskun

Kaflar
Útgáfudagur

Hvað er tölvuleikjaröskun?

Tölvuleikjaröskun eða tölvuleikjafíkn er annað og meira en að nota net/tölvur í miklu mæli. Til að geta flokkast undir tölvuleikjaröskun verður notkunin að hafa skaðleg áhrif á fjölbreytta virkni einstaklingsins, s.s. fjölskyldulíf, félagslíf, skóla og/eða starf. Einkennin þurfa jafnframt að hafa verið til staðar í a.m.k. 12 mánuði.

Verndandi þættir

Sterk sjálfsmynd, félagsleg færni og að líða vel í skólanum eru dæmi um verndandi þættir gegn tölvuleikjaröskun. Einnig er það talinn verndandi þáttur ef unglingar hafa stjórn á hegðun sinni í leiknum. Þar að auki er íþróttaiðkun og regluleg hreyfing verndandi þættir.

Er ástæða til að hafa áhyggjur?

Einungis lítill hluti fólks þróar með sér tölvuleikjaröskun/tölvuleikjafíkn. Hins vegar er mikilvægt að spá í þann tíma sem maður ver í tölvuleiki/netnotkun og hvaða áhrif notkunin hefur á aðrar athafnir daglegs lífs.

Ef áhyggjur eru af tölvunotkun er hægt að skoða 7 spurningar hér á eftir. Ef svarið við flestum eða öllum er oft eða mjög oft, skal leita aðstoðar.

Hversu oft síðustu 6-12 mánuðina var:

  • Aukning á tíma sem var eitt í tölvuleiki?
  • Spilaður tölvuleikur allan daginn?
  • Spilað tölvuleikur til að gleyma raunveruleikanum?
  • Reynt að minnka tölvuleikjanotkun án árangurs?
  • Vanlíðan þegar ekki var hægt að spila tölvuleiki?
  • Ósætti til dæmis við fjölskyldu/vini vegna tímans sem var eytt í tölvuleiki?
  • Öðrum hlutum sleppt (skóla, heimanámi, vinnu, íþróttaæfingum) til að spila tölvuleiki?

Upplýsingar um skjátíma og börn.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef skjánotkun er komin út fyrir eðlileg mörk er ráðlagt að leita til sálfræðinga á heilsugæslustöðvum eða fagaðila á stofu. Með tilvísun frá heimilislækni fá börn undir 18 ára aldri niðurgreiðslu frá sjúkratryggingum fyrir sálfræðiþjónustu. Aðrir borga komugjald. 

Finna næstu heilsugæslu hér

Víða um land halda heilsugæslustöðvar og sveitarfélög uppeldisnámskeið sem Geðheilsumiðstöð barna hefur hannað og heldur utan um. Það er tilvalið að kynna sér hvort námskeið er í boði í þínu nágrenni. 

Geðheilsumiðstöð barna heldur námskeiðið ,,Ertu að tengja? Uppeldi, tengsl og foreldrahlutverkið" þar sem m.a. er farið yfir skjánotkun.