Fara á efnissvæði

Þvagsýrugigt

Kaflar
Útgáfudagur

Þvagsýrugigt (e. gout) er gigtarsjúkdómur sem veldur bólgum og verkjum í liðum, oftast við stórutá. Þvagsýrugigt kemur í köstum sem vara í 5-7 daga. Endurtekin þvagsýrugigtarköst geta skemmt liði og valdið langvarandi liðagigt, því er nauðsynlegt að leita aðstoðar ef einkenni þvagsýrugigtar koma fram.

Helstu ástæður þvagsýrugigtar

Þvagsýra er efnasamband sem myndast í líkamanum við niðurbrot ákveðinna fæðutegunda. Undir venjulegum kringumstæðum losar líkaminn sig við þvagsýru í gegnum þvaglát. Hjá einstaklingum með þvagsýrugigt skilst of lítið út með þvagi eða framleiðsla þvagsýru er of mikil í líkamanum og því safnast hún upp í blóðinu. Ástæðan getur verið erfðir en umhverfisþættir geta einnig haft áhrif.

Einkenni

  • Slæmur verkur í lið, oftast í fremsta lið stóru táar, ökkla eða hné
  • Húðin í kringum liðinn er rauð og táin þrútin
  • Viðkvæmni fyrir snertingu á svæðinu

Hvað get ég gert?

Eftirfarandi atriði geta bætt líðan meðan á þvagsýrugigtarkasti stendur:

  • Verkjalyf, t.d. íbúprófen á 4-6 klukkutíma fresti
  • Drekka 1-2 lítra af vatni yfir daginn - flýtir fyrir útskilnaði þvagsýru úr líkamanum
  • Hvílast og hækka undir útlim
  • Leggja kælingu á bólgna liðinn reglulega í um 20 mínútur í senn
  • Minnka neyslu próteinríks fæðis eins og innmats, kjöts og sjávarfangs
  • Passa að setja engan þrýsting á bólgna liðinn
  • Forðast áfengi

Áhættuhópar

Eftirfarandi eykur líkur á þvagsýrugigt:

  • Ættarsaga um þvagsýrugigt
  • Neysla áfengis
  • Offita
  • Inntaka þvagræsilyfs eða lyfs við háum blóðþrýsting (ACE blokkarar)
  • Hátt kólesteról, hár blóðþrýstingur, nýrnavandamál eða sykursýki
  • Slys eða skurðaðgerðir
  • Óhófleg neysla af rauðu kjöti eða sjávarafurðum

Þvagsýrugigt er mun algengari meðal karla en kvenna en hún er algengari hjá konum eftir tíðahvörf.

Forvarnir

Eftirfarandi þættir minnka líkur á að fá þvagsýrugigt:

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ráðlagt er að leita til heilsugæslunnar þegar einkenni þvagsýrugigtar koma fram þar sem varanlegar liðskemmdir geta orðið sé hún ekki meðhöndluð. Þau lyf sem helst eru notuð við bráðu kasti eru bólgueyðandi gigtarlyf, verkjalyf og stundum eru gefnir sterar.

Flestir sem fá þvagsýrugigt eru settir á langtímameðferð til að fyrirbyggja köst. Ef liðurinn verður mjög heitur og bólginn og einstaklingurinn fær háan hita er mikilvægt að leita sér hjálpar strax.

Hægt er að óska eftir ráðgjöf hjá hjúkrunarfræðingi allan sólarhringinn í síma 1700.

Finna næstu heilsugæslustöð.