Þvagfærasýking (e. Urinary tract infection) er af völdum baktería sem komist hafa inn í þvagfærin, oftast frá endaþarmi viðkomandi eða vegna kynsjúkdóma. Sýkingin getur verið bundin við þvagrás, þvagblöðru, blöðruhálskirtil eða í sumum tilvikum náð upp til nýrna.
Þvagfærasýking kemur sjaldnar fram hjá körlum en konum því þvagrásin er lengri og því erfiðara fyrir bakteríur að komast upp í blöðruna.
Mikilvægt
Karlmenn þurfa meðferð við þvagfærasýkingu.
Einkenni
- Sviði við þvaglát
- Tíð þvaglát
- Bráð þvaglát
- Dökkt og/eða gruggugt þvag
- Sterk lykt af þvaginu
- Blóð í þvagi
- Erfitt að pissa, lítið þvag kemur í einu
- Næturþvaglát
- Verkur eða þrýstingur yfir lífbeini
- Verkur á kynfærasvæði - verkur við að sitja
- Þvagleki
Stundum getur sýkingin náð til nýrna. Einkenni sýkingar í nýrum eru auk ofangreindra einkenna einkum:
- Hiti - hjá börnum - hjá fullorðnum
- Hrollur
- Verkir í baki/síðu
- Ógleði/Uppköst
- Slappleiki
Orsök
Bakteríusýking
Þvagfærasýkingar hjá karlmönnum tengjast oft einhvers konar truflun á flæði þvags frá nýrum og út um þvagrásina. Það getur verið vegna:
- Stækkunar á blöðruhálskirtli
- Nýrnasteina
- Þrenginga á þvagleiðurum eða þvagrás
Áhættuþættir
Líkur á þvagfærasýkingu eru meiri ef eftirfarandi er til staðar:
- Sykursýki
- Ónæmiskerfið er veiklað t.d. vegna lyfjameðferðar
- Óhreinlæti á kynfærasvæði
- Ónóg vökvainntaka og lítill þvagútskilnaður
- Aðgerð á þvagfærum eða notað þvaglegg á síðustu tveimur vikum
- Áverki á þvagrás á síðustu tveimur vikum
Greining
Oftast er þvag sent í ræktun eða gert strimilpróf á heilsugæslu.
Læknir ákveður hvort frekari rannsókna er þörf til að greina orsakir sýkingarinnar.
Meðferð
Þvagfærasýking í karlmönnum er meðhöndluð með sýklalyfjum. Stundum þarf frekari meðferð t.d. ef um þrengingar í þvagfærum er að ræða. Einnig má taka verkjalyf og hitalækkandi lyf.
Hvað get ég gert?
- Drekka vel
- Forðast drykki sem innihalda koffín og áfengi
- Taka forhúðina frá fyrir þvaglát
- Hafa þvaglát eftir kynmök
- Sleppa kynmökum ef grunur er um kynsjúkdóm
- Viðhalda góðu hreinlæti
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leita til næstu heilsugæslu ef:
- Einkenni þvagfærasýkingar eru til staðar
- Grunur er um kynsjúkdóm