Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Þrýstingssár

Kaflar
Útgáfudagur

Þrýstingssár eru áverkar á húð og undirliggjandi vef sem myndast vegna staðbundins þrýstings eða álags. Þrýstingssár eru líka nefnd legusár því þau myndast oftast hjá fólki sem á erfitt með að hreyfa sig og situr eða liggur mikið í sömu stellingu. Því lengur sem þrýstingur varir því meiri hætta er á að alvarlegt sár myndist.

Einkenni

Þrýstingssár eru fljót að myndast en lengi að gróa. Þau geta verið sársaukafull og dregið úr lífsgæðum. Hætta er á að þrýstingssár myndist t.d. á hælum, olnbogum, setbeinum, spjaldhrygg og rófubeini.

Fyrstu einkenni geta verið:

  • Eymsli
  • Roðablettur á húð

Önnur einkenni eru:

  • Glansandi, heit eða köld húð.
  • Sár, blöðrur eða fleiður

Áhættuþættir

Hætta á að fá þrýstingssár eykst þegar:

  • Geta til hreyfingar er lítil t.d. vegna lömunar, langvarandi veikinda eða skurðaðgerða.
  • Löngum tíma er varið í rúmi, í stól eða í hjólastól án þess að hagræða sér.
  • Fólk skynjar ekki sársauka eða óþægindi og skiptir því ekki um stellingu eins og þarf.
  • Notuð eru sterk verkjalyf eða slævandi lyf.
  • Raki liggur við húð vegna svita, þvags eða hægða.
  • Of lítið er borðað miðað við þarfir eða fæði er einhæft.
  • Fólk er grannholda eða í yfirþyngd.
  • Húð er viðkvæm, til dæmis hjá öldruðum

Hvað get ég gert?

Þegar hætta er á myndun þrýstingssárs er nauðsynlegt að bregðast strax við.

Hreyfing er mikilvæg til að forðast viðvarandi þrýsting á húð og undirliggjandi vefi.

Ráðlagt er að:

  • Fara reglulega fram úr rúmi, sitja til borðs við máltíðir og standa reglulega upp úr stól.
  • Hagræða sér reglulega þegar setið er í stól til að breyta þrýstingi, helst ekki sjaldnar en á 15 mínútna fresti.
  • Skipta reglulega um stellingu í rúmi, ekki sjaldnar en á tveggja klukkustunda fresti yfir daginn. Snúningslök og rúmgrindur geta auðveldað hreyfingu. Hægt er að láta símann minna sig á að breyta um stellingu.
  • Hafa höfðalag helst ekki mikið hækkað nema stuttan tíma í einu, því það reynir mikið á húð yfir spjaldhrygg. Sum þurfa þó að hafa hátt undir höfði vegna sjúkdómsástands. Heilbrigðisstarfsfólk veitir ráðgjöf um hreyfingu, legustellingar, setu í stól, notkun stuðningspúða og annarra hjálpartækja, í samræmi við þarfir hvers og eins.

Athuga húð

Ráðlagt er að skoða og meta ástand húðar sem er í hættu a.m.k. tvisvar á sólarhring til að athuga hvort:

  • Roði eða blámi sjáist
  • Húð sé glansandi, bólgin, heit eða köld
  • Sár, blöðrur eða fleiður sjáist

Hætta er á að þrýstingssár myndist á ákveðnum svæðum til dæmis á:

  • Hælum
  • Olnbogum
  • Setbeinum
  • Spjaldhrygg og rófubeini

Vökvi og næring

Undirlag

Dýnur, sessur og annað undirlag er mikilvægur þáttur í því að koma í veg fyrir þrýstingssár.

  • Rúmdýnan þarf að vera þægileg og hafa þann eiginleika að dreifa þrýstingi. Mikilvægt er að láta starfsfólk vita ef dýna er óþægileg.
  • Sérhannaðar loftdýnur og sérstakar stólsessur hjálpa til við að dreifa þrýstingi og draga úr hættu á þrýstingssárum.
  • Koddar og sérstakar hælahlífar koma að gagni við að fyrirbyggja þrýstingssár á hælum með því að lyfta hælum frá dýnu.
  • Lök þurfa að vera slétt því krumpur í lökum geta valdið óþarfa þrýstingi á húð.
  • Forðast ætti þröngar teygjur, þykka sauma og krumpur í fatnaði sem geta valdið þrýstingi á húð.

Raki

  • Halda þarf húð hreinni og forðast að raki s.s. þvag, hægðir eða sviti, liggi við húð því raki veikir húð og eykur hættu á þrýstingssárum.
  • Mikilvægt er að skipta um rakan fatnað, rúmfatnað eða bleiu.
  • Mælt er með að hreinsa húð með mildri sápu, hreinsikremi eða hreinsifroðu og nota rakakrem eða húðverndandi áburði eftir þörfum.
  • Mælt er með reglulegum salernisferðum hjá fólki með þvagleka.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef spurningar eða áhyggjur vakna varðandi þrýstingssár skal leita til heilsugæslunnar

Finna næstu heilsugæslustöð.

Frekari upplýsingar má finna hér