Fara á efnissvæði

Taugaveiki

Kaflar
Útgáfudagur

Taugaveiki (e. Typhoid fever) er sjúkdómur af völdum baktería sem berast í fólk með menguðum matvælum og vatni. Bakterían getur haft alvarlegar afleiðinlegar á heilsu fólks og jafnvel ógnað lífi. Til er bóluefni gegn einni bakteríu sem mælt er með að fólk noti fyrir lengri ferðir til svæða þar sem sjúkdómur er landlægur. Það er einkum í löndum þar sem hreinlæti er bágborið og ekki hægt að tryggja hreint vatn.

Einkenni

Venjulega koma einkenni fram 1-3 vikum eftir að fólk fær bakteríuna í sig. Þau helstu eru:

Einkenni sem geta komið síðar fram:

  • Taugaeinkenni: máttleysi, rugl, óvenjuleg líkamsstaða, geðrof, breytt skynjun
  • Nýrnabilun (bjúgur, hækkaður blóðþrýstingur)
  • Hjartabólga (hjartsláttartruflanir, brjóstverkur) 
  • Útbrot (ljósbleik útbrot á ljósri húð, dumbrauð á dekkri húð)

Orsök

Bakteríur sem valda taugaveiki kallast Salmonella typhi og S. paratyphi (nokkrar undirgerðir) og eru skyldar Salmonellu sem veldur matareitrun. Taugaveikisbakteríur smita eingöngu fólk, ekki dýr. Þegar heilbrigt fólk neytir matvæla sem menguð eru af taugaveikisbakteríu fjölgar hún sér tiltölulega hratt í meltingarveginum. Sé útbreiðslan ekki stöðvuð berst bakterían í blóðrás, dreifist um líkamann og skemmir líffæri. 

Smitleiðir

Taugaveiki smitast auðveldlega milli manna þar sem hreinlæti er takmarkað. Dæmi eru til um að sýkt fólk sem ekki hefur fengið sýklalyf beri bakteríuna um langt skeið en hún getur valdið langvarandi gallblöðrubólgu í slíkum tilfellum.

Þekktar smitleiðir:

  • Neysla matvæla eða vatns sem mengað er af saur eða þvagi frá sýktu fólki
  • Notkun salerni þar sem bakterían er til staðar og gæta ekki að handþvotti í kjölfarið
  • Neysla sjávarfangs úr skólpmenguðu vatni
  • Munn- eða endaþarmsmök með fólki sem eru smitberar

Greining

Greining felur í sér sögu og rannsóknir

  • Lýsing á nýafstöðnu ferðalagi og aðstæðum þar
  • Lýsing á einkennum
  • Blóðprufur
  • Saursýni
  • Þvagsýni

Ef grunur vaknar um taugaveiki á ferðalagi þar sem sjúkdómurinn er landlægur skal án tafar leita læknisaðstoðar (einnig þau sem eru bólusett). Verði einkenna vart eftir að komið er heim úr ferðalagi skal hafa samband við næstu heilsugæslustöð.

Meðferð

Taugaveiki er meðhöndluð með sýklalyfjum. Jafnvel á réttri meðferð lagast einkenni taugaveiki nokkuð hægt, á u.þ.b. 5 dögum. Sýklalyfjaónæmi getur verið vandamál við meðferð taugaveiki en næmi er staðfest þegar taugaveikisbaktería greinist hér á landi og meðferð breytt ef þörf er á. Taugaveiki getur leitt til dauða fái fólk ekki viðeigandi meðferð.

Hvíld, næg vökvainntekt og reglulegar máltíðir eru mikilvægir þættir sem stuðla að bata. Litlar og fleiri máltíðir yfir daginn geta gert meira gagn en fáar og stórar þar sem meltingarkerfið er viðkvæmt. Eftir að meðferð hefst eru teknar hægðaprufur reglulega til að fylgjast með hvort bakterían sé horfin úr líkamanum. Mikilvægt er að fólk sem starfar við matvæli snúi ekki aftur til vinnu fyrr en búið er að uppræta bakteríuna.

Forvarnir
  • Besta vörnin gegn taugaveiki er eðlileg magasýra. Mælt er með að forðast notkun sýruhamlandi lyfja s.s. omeprazole á ferðalögum á svæðum þar sem taugaveiki er landlæg. Önnur magalyf eins og Gaviscon, hafa ekki áhrif á framleiðslu sýrunnar og eru öruggari í þessu samhengi. 
  • Bólusetning. (Bóluefni gegn taugaveiki sem býðst á Íslandi veitir um 30-50% vörn gegn sjúkdómnum).
  • Gæta vel að öllu hreinlæti á meðan á ferðalagi stendur, sérstaklega reglulegum handþvotti með sápu og vatni fyrir neyslu matvæla til að draga úr líkum á smiti.
  • Huga sérstaklega að hreinlæti á stöðum er bjóða matvæli og neyta helst gegnheitra eldaðra matvæla. Neyta síður hrárra matvæla ef öruggt aðgengi að hreinu vatni til handþvotta, vökvunar og hreinsunar matvæla er óvíst.

Bólusetning 

  • Mælt er með bólusetningu fyrir alla sem eru að skipuleggja lengra en tveggja vikna ferðalag til landa þar sem sjúkdómurinn er landlægur, sem er víðast hvar í Afríku, Asíu og Ameríku sunnan Texas. Mesta hættan á smiti er á ferðalagi um Suður-Asíu, sérstaklega á Indlandi.
  • Bólusetning er virk í tvö - þrjú ár. Hana þarf að endurtaka eftir þörfum við frekari ferðalög.
  • Á netspjallinu hér á síðunni er hægt að sækja um bólusetningarráðgjöf vegna ferðalaga. Ráðgjöfin byggir á fyrri bólusetningum viðkomandi ásamt upplýsingum um ferðalagið. 

Hér má sjá gjaldskrá fyrir bólusetningar.