Svefnvandi barna eru nokkuð algengur, og hrjá allt að 20% barna á fyrstu árunum. Svefnvandi barna hefur áhrif á svefn foreldranna og þar með hæfni þeirra til að takast á við verkefni og skyldur daglegs lífs og þá jafnframt svefnvanda barnsins.
Einkenni
Algengustu einkenni svefnvanda hjá börnum:
- Barn vaknar oft upp á nóttunni og nær ekki að sofna sjálft aftur.
- Barn á erfitt með að sofna á kvöldin, lengi að sofna eða þarf aðstoð. Börn sem geta farið að sofa sjálf að kvöldi, vekja síður foreldra sína ef þau vakna að nóttu.
- Vandamál tengd daglúrum, s.s. stuttir og óreglulegir og of nálægt nætursvefninum.
Eldri börn geta haft önnur einkenni svefnvandamála. Algeng einkenni eftir 2-5 ára eru slæmir draumar eða martraðir og að geta ekki sofnað að kvöldi. Önnur einkenni eldri barna eru t.d. að ganga í svefni, pissa undir í svefni eða gnísta tönnum.
Helstu ástæður
Flokka má hugsanlegar orsakir með eftirfarandi hætti:
- Líkamleg veikindi hjá barninu, t.d. eyrnabólga, vélindabakflæði, astmi o.fl. Þá ruglast svefnmynstur hjá barninu og lagast ekki aftur þrátt fyrir að veikindin gangi yfir.
- Þroskatengdir þættir hjá barninu geta verið:
- 3-4 mánaða - lærir einfalda afleiðingu af eigin athöfnum eins og gráti.
- 6-7 mánaða - prófar sig áfram með hvort það geti ráðið.
- 9-10 mánaða - lærir að standa upp. Einnig getur borið á aðskilnaðarkvíða.
- 12-14 mánaða - lærir að ganga.
- Lundarfar eða skapgerð barnsins. Ef barn er auðtruflað, hefur litla aðlögunarhæfni eða mikla hreyfivirkni.
- Umhverfisþættir eða breytingar í lífi barns, s.s. erfið lífsreynsla, skilnaður foreldra, flutningar, nýtt systkini, húsnæðisaðstæður.
- Þættir tengdir foreldrum, s.s. veikindi foreldra eða óöryggi og ruglingur í umönnun barns.
Hvað get ég gert?
- Byrja á að útiloka önnur veikindi barns.
- Skoða svefnvenjur og svefntíma barns.
- Kenna barni að sofna sjálft. Draga þarf úr umönnun eða aðstoð við barnið á nóttunni og halda örvun í lágmarki. Mælt er með því að horfa ekki í augun á barninu og ekki spjalla við það.
- Mikilvægt er að hafa fastar venjur fyrir svefn og reglu á svefntíma. Ákveðnar athafnir eru viðhafðar á hverju kvöldi, alltaf í sömu röð og á sama hátt áður en barnið fer að sofa. Þetta veitir börnum öryggi og ró.
- Stundum getur þurft að breyta venjum í tengslum við svefninn til að brjóta upp óæskilegan vana hjá barni, svo sem hver svæfir barnið, hvar það sofnar og hver sinnir því á nóttunni.
- Það er mikilvægt að foreldrar séu samtaka, undirbúi sig og velji hentugan tíma til að takast á við svefnvanda barns.
Tvær aðferðir sem eru mest notaðar við svefnvanda:
- Draga sig rólega í hlé
Dregið er rólega úr þjónustu við barnið þangað til það lærir að sofna sjálft. Foreldrar eru inni hjá barni þegar það sofnar, en takmörk eru sett á hvaða þjónustu þeir veita barninu. Með þessari aðferð veita þeir barninu nærveru en draga sig rólega í hlé dag frá degi. - Reglulegt innlit
Barn er lagt til svefns í rúmið sitt og foreldrar fara strax út úr herberginu. Farið er inn til barnsins með ákveðnu millibili og stoppað stutt í hvert sinn. Tímabilið milli innlita er smám saman lengt. Ekki er mælt með þessari aðferð fyrir börn yngri en 18 mánaða þar sem hún þykir ströng.
Hvert barn er einstakt. Því þarf að læra inná skapgerð barnsins og hvernig það aðlagast þroskaverkefnum sínum á hverjum tíma. Hvað hentar einu barni hentar ekki öðru o.s.frv.
Upplýsingar um svefnþörf barna.
Ef svefnvandi bars er viðvarandi er rétt að leita til heilsugæslunnar. Ef sú aðstoð dugar ekki getur ungbarnaverndin, hjúkrunarfræðingur eða læknir sent tilvísun til göngudeildar Barnaspítala Hringsins. Eftir að tilvísun hefur verið metin er hringt til foreldra og þeim boðinn tími.