Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Skakkt höfuð ungbarna

Kaflar
Útgáfudagur

Fyrstu mánuðina er mælt með að börn liggi á bakinu þegar þau sofa. Nýfætt barn getur átt erfitt með að snúa höfðinu sjálft og því getur verið að það snúi höfði alltaf í sömu átt. Höfuðkúpa ungra barna er mjúk og mótanleg. Ef barnið liggur alltaf með höfuðið til sömu hliðar getur það skekkt höfuð barnsins (e. torticollis).

Myndin sýnir legutengda skekkju á höfuðkúpu barns

Einkenni

  • Höfuðið hefur aflagast
  • Hliðin sem mest er legið á er flöt og því erfiðara fyrir barnið að snúa höfðinu
  • Hryggurinn getur skekkst, barnið liggur í sveigju og notar annan handlegginn meira en hinn
  • Þetta getur valdið styttingu í hálsvöðvum sem hindrað getur hreyfingu enn frekar

Við dæmigerða ósamhverfu í hálshreyfingum hallar höfuð barnsins að stytta vöðvanum og andlit barnsins snýr í gagnstæða átt. Slík skekkja og stytting í vöðva þarf meðferð sjúkraþjálfara. Í einstaka tilfellum getur skurðaðgerðar verið þörf. 

Helstu ástæður skekkts höfuðs

Algengustu orsakir legutengdrar skekkju eru taldar vera:

  • Mikil og einhæf baklega
  • Lítil magalega ungbarna þegar þau eru vakandi
  • Mikil notkun ungbarnastóla
  • Lega barns í móðurkviði á síðustu vikum meðgöngu
  • Álag á vöðva/liði í fæðingu

Sjaldgæfar aflaganir á hálsliðum, sjónskerðing, viðbeinsbrot og æxli geta einnig valdið ósamhverfu í hálshreyfingum og er því mikilvægt að börn með þessi einkenni séu skoðuð af lækni.

Hvað get ég gert?

Til að fyrirbyggja skekkju er mikilvægt að foreldrar fylgist með hvernig barnið hreyfir sig og liggur. Hjálpa þarf barninu að snúa höfði jafnt til beggja átta. Ef gripið er inn í nógu snemma er oftast hægt að leiðrétta legutengda skekkju á höfuðkúpu barna með viðeigandi örvun. 

Ef enn ber á skekkju við sex vikna aldur og ráð hafa ekki dugað er mikilvægt að leita aðstoðar hjá læknum og hjúkrunarfræðingum ung- og smábarnaverndar. Oft er börnunum vísað til sjúkraþjálfara til frekari leiðbeininga og þjálfunar. Meðferðin er yfirleitt erfiðari og tímafrekari því eldri sem börnin eru.

Svefnvenjur

Mælt er með því að ungbarn sofi á bakinu. Setja má stuðning við þann vanga sem barnið leitar til. Ef barnið snýr oftast til hægri þá setjið upprúllað handklæði eða taubleiu undir hægri vanga.

Halda á barninu
  • Nýta tækifærið þegar ungbarn vakir og haldið á því í mismunandi stellingum, ýmist á hægri eða vinstri handlegg.
    Ungbarn situr í kjöltu foreldris
  • Hafa í huga að barn hefur tilhneigingu til að horfa í birtu eða á fólk á hreyfingu og leita eftir hljóði.
  • Halda á barninu fyrir framan ykkur til að þjálfa höfuðjafnvægi þess. Þá er hægt að beina höfðinu til vinstri eða hægri í leiðinni. 
    Ungbarn liggur á maga móður sinnar og horfir á hana
  • Láta barn hvíla á öxl ykkar með höfuðið snúið til vinstri ef það snýr oftast til hægri. Ef það snýr oftast til vinstri þá látið höfuðið snúa til hægri.
    Móðir heldur á ungbarni uppréttu
  • Þegar barn heldur höfði getur verið gott að lyfta því aðeins hærra upp á öxlina þannig að handleggir barnsins nái yfir öxlina.
    Móðir heldur á barni þannig að það horfir yfir öxl hennar
  • Framhallandi staða. Halda á barninu í uppréttri stöðu og halla því aðeins fram á við. Styðja vel undir brjóstkassa barnsins. Fyrstu mánuðina er eðlilegt að barnið nái ekki að halda höfði uppréttu og því er mikilvægt að styðja vel undir brjóstkassa. 
    Móðir heldur á barni í framhallandi stöðu
  • Halda á barninu í magalegu og hliðarlegu, bæði til hægri og vinstri.
    Móðir heldur á ungbarni í hliðarlegu
Örvandi leikur
  • Leyfa barni að hreyfa sig frjálst á gólfi. Það örvar hreyfiþroskann.
  • Frá fæðingu er æskilegt að láta barnið liggja skamma stund í senn á maganum undir eftirliti þegar það er vakandi. 
    Ungbarn liggur á maganum og horfir á dót
  • Leggja barn á hægri og vinstri hlið til skiptis. Hafa kodda við bakið til stuðnings. 
    Ungbarn liggur á hliðinni
  • Þegar barn liggur á bakinu er gott að reyna fá það til að snúa höfði til hliðar. Setjið hönd á mjöðm barnsins og aðstoðið það við að snúa sér yfir á hliðina. Þegar barnið liggur á hlið er gott að setja leikfang fyrir framan bringu.
    Ungbarn liggur á bakinu og horfir á móður sína
  • Frá 4-6 vikna aldri er gott að byrja á að láta barnið liggja á maganum með upprúllað handklæði undir bringu svo það geti stutt á olnbogana. Nota leikföng til þess að virkja barnið til hreyfinga.
    Ungbarn liggur á maga með upprúllað handklæði til stuðnings
  • Hafa barnið á maganum í kjöltunni, á skiptiborðinu, í rúminu eða á gólfi. Leyfa því að reyna að lyfta höfðinu. Nota leikfang sem hvatningu til að augnhreyfingar fylgi með. Leggja aðaláherslu á að barnið líti til vinstri ef það snýr oftast til hægri og til hægri ef það vill oftast snúa til vinstri. Það má aðstoða barnið með því að leggja aðra hönd undir bringu þess á meðan hin stýrir höfðinu mjúklega.

  • Aðstoðið barn við að fara úr hliðarlegu og yfir á magann. Gerið hreyfinguna hægt þannig að barninu gefist tími til að taka þátt í snúningnum. Munið að leggja áherslu á að velta bæði yfir á hægri og vinstri hlið. 
    Móðir aðstoðar ungbarn við að snúa sér
  • Barnið notar háls- og bolvöðva til að halda höfði þegar því er lyft í upprétta stöðu. Hægt er að lyfta barni upp frá magalegu, baklegu og úr hliðarlegu. Lyfta barni upp frá hægri eða vinstri hlið. Gera þetta rólega svo það nái að halda höfði þegar því er lyft upp eða lagt niður.
    Ungbarn reist upp og beint til hliðar

Í augum ungbarna eru andlit foreldranna skemmtilegasta „leikfangið“ svo það er tilvalið tækifæri fyrir foreldra að leika saman með barninu þegar æfingarnar eru gerðar.

Nánari upplýsingar um tengslamyndun.

Barnastólar
  • Til eru ýmsar gerðir af stólum ætlaðir kornabörnum. Slíkir stólar geta verið þægilegir til dæmis á matmálstímum en gæta þarf að því að börn sitji ekki lengi í þeim. Barnabílstólar eru til tryggja öryggi barna í bílum en varast ber að nota þá nema í þeim tilgangi. 
  • Hagræðið barninu vel í bílstól. Ef um skekkju er að ræða má setja upprúllaða taubleiu við vanga barns til að styðja við höfuð þess þannig að það haldist í miðlínu.
    Ungbarn í bílstól