Sjálfsskaði er þegar einstaklingur skaðar sjálfan sig viljandi annað hvort með áverka á húð eða inntöku efna.
Einstaklingur sem skaðar sig gerir það oftast til að lina andlega vanlíðan og/eða takast á við erfiðar tilfinningar sem ekki er ráðið við. Sjálfsskaði er algengastur hjá unglingum en þó á sjálfsskaði sér einnig stað hjá fullorðnum einstaklingum.
Fólk sem skaðar sig upplifir það sem einu leiðina til að hjálpa sér að ráða við erfiðar tilfinningar. Þótt það geti verið rétt upplifun er mikilvægt að vita af öðrum leiðum og hægt sé að fá hjálp.
Ef einstaklingur skaðar sig skiptir máli að leita til fagfólks til að fá aðstoð með tilfinningavanda og finna leiðir til að takast á við erfiðar tilfinningar á annan hátt en að skaða sig.
Frekari upplýsingar um sjálfsskaða má finna hér.
Ef unglingur skaðar sig
Það skiptir máli að foreldrar/forráðamenn og aðstandendur skilji að sjálfsskaði er leið fyrir unglinginn til að ,,lifa af” erfiðar tilfinningar. Það veiti unglingnum tímabundinn létti við að skaða sig og erfiða tilfinningin sem var til staðar virðist viðráðanlegri um tíma.
Það að skilja hegðunina er ekki það sama og samþykkja hana. En um leið og foreldrar/forráðamenn skilja hegðunina þá hjálpar það til með framhaldið og eykur líkurnar á því að unglingurinn leiti til foreldra næst þegar þörf fyrir sjálfsskaða á sér stað.
Það fyrsta sem foreldrar geta gert ef þau fá upplýsingar um að unglingurinn sinn sé að skaða sig er að tala við unglinginn. Foreldrar ættu eftir fremsta megni að halda ró sinni yfir þessu og eiga gott samtal við unglinginn. Það þarf að fá upplýsingar um af hverju verið er að skaða sig, hvort að einstaklingurinn sé búinn að vera að skaða sig lengi, hvaða tilfinningar þau telja sig ekki ráða við og hvort að unglingurinn sé tilbúinn að finna aðrar leiðir til að ráða við erfiðar tilfinningar. Ef samtalið við unglinginn dugir ekki er hægt að leita á heilsugæsluna til læknis eða hjúkrunarfræðings sem geta þá vísað í viðeigandi úrræði.
Í samtali við unglinga skiptir sköpum að fá upplýsingar um hvort þau séu með hugsanir um að vilja ekki lifa. Ef þær eru til staðar þarf að spyrja unglinginn hvort þau hafi hugsað um leiðir til að deyja. Ef unglingurinn hefur hugsað um að vilja ekki lifa en ekki hugsað um leiðir þarf að leita til fagaðila í framhaldinu svo viðeigandi aðstoð fáist, oft er gott að byrja á heilsugæslunni.
Ef sjálfsvígshugsanir eru til staðar og hugsanir um leiðir til að deyja er brýnt að leita aðstoðar strax og þurfa foreldrar að hafa samband við 1700 (símaþjónustu heilsugæslunnar) eða bráðamóttöku utan opnunartíma heilsugæslunnar.
Leiðbeiningar fyrir unglinga má finna hér.
Upplýsingar um gagnleg viðbrögð foreldra/forráðamanna má finna hér.
Ef einhver nákominn skaðar sig
Ef vitneskja er um einhvern nákominn sem skaðar sig er mikilvægt að ræða það við viðkomandi að tekið sé eftir því. Fyrst þarf að spyrja hvort verið sé að þiggja aðstoð við þessum vanda og ef ekki er hægt að bjóða fram aðstoð t.d. með því að leita á næstu heilsugæslu.
Það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að spyrja út í sjálfsskaða og oft finnur einstaklingurinn fyrir létti að geta rætt þetta við einhvern.
Frekari upplýsingar um staðreyndir um sjálfsskaða má finna hér.
Finna næstu heilsugæslu hér.