Fara á efnissvæði

Sinaskeiðabólga

Kaflar
Útgáfudagur

Sinaskeiðabólga (e. Carpal tunnel syndrome) verður vegna mikils álags á úlnlið. Endurteknar hreyfingar eins og að spila tennis, spila á hljóðfæri eða stunda lyftingar geta valdið bólgu í úlnlið. Við álag þrýstir bólgan á taugar sem liggja í göngum í úlnliðnum. Þetta getur valdið verkjum, nálardofa og breyttri tilfinningu í fingrum og í lófa.

Þegar fólk finnur fyrir álagseinkennum er mikilvægt að hvíla liðinn eins og hægt er. Sinaskeiðabólga getur gengið tilbaka með réttri meðferð og án inngrips. Það getur tekið margar vikur að jafna sig að fullu.

Einkenni

  • Verkir í úlnlið
  • Bólga og roði getur myndast kringum úlnlið og stundum heyrist brak við mikið álag
  • Grip verður erfiðara
  • Nálardofi eða brunatilfinning í fingrum, lófa og/eða handlegg
  • Þumalfingur þolir minna álag en áður

Orsök

Úlnliður er flókinn liður mótaður úr átta beinum. Á milli þessara beina eru göng (e. Carpal tunnel) og í þeim liggja flestar þær sinar sem beygja fingur ásamt æðum og taugum.

Sinar eru úr bandvef og tengja vöðva við bein. Sinarnar eru umluktar sinaslíðri til að auðvelda hreyfingu þeirra og minnka núning. Þegar álag verður of mikið á úlnlið myndast bólga sem þrýstir á sinar, æðar og taugar í þessum göngum.  

Áhættuþættir

  • Endurtekið álag á úlnlið tengt vinnu eða áhugamálum
  • Ofþyngd
  • Slys eða áverki á úlnlið
  • Undirliggjandi sjúkdómar s.s. gigt eða sykursýki
  • Þungun
  • Ættarsaga um sinaskeiðabólgu

Greining

  • Skoðun: Sinaskeiðabólgu er unnt að greina með skoðun því úlnliður er oft aumur viðkomu og bólginn.
  • Saga: Það skiptir máli hvort fólk sé að stunda badminton, lyftingar eða aðra iðju þar sem endurtekið álag er á úlnlið. 
  • Rannsóknir: Ómskoðun og speglanir eru stundum gerðar til að skoða ástand liðsins.

Meðferð

  • Hvíld
  • Verkjalyf
  • Sterar
  • Aðgerð 

Hvíld er helsta meðferð við sinaskeiðabólgu en úlnlið getur verið erfitt að hvíla vegna vinnu eða íþrótta. Verkjalyf eru notuð tímabundið til að draga úr bólgum og verkjum. Læknar geta ákveðið að hefja meðferð með sterum til að draga úr bólgum, hafi hvíld og verkjalyf ekki dugað. Sterar draga úr bólgum og þar með verkjum. Skurðaðgerð er framkvæmd í verstu tilfellum.

Hvað get ég gert?

Bólga í langan tíma getur dregið úr styrkleika liðsins og valdið varanlegu sliti í honum svo það er mikilvægt að draga úr álagi og leyfa úlnlið að jafna sig. Það getur tekið vikur og jafnvel mánuði þar til úlnliður hefur jafnað sig. Það helsta sem hægt er að gera:

  • Hvíla úlnliðinn og draga úr þekktu álagi
  • Notast við spelku eða teygjusokk. Slíkt styður við úlnlið og heldur honum beinum. Þannig má koma í veg fyrir þrýsting á æðar og taugar í göngum úlnliðs. Algengt er að nota spelku í nokkrar vikur þar til ástand lagast. Spelkan er notuð að nóttu til en einnig að degi ef verkir eru miklir.
  • Nota verkjalyf til að draga úr verkjum þegar ástand er slæmt

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitið á heilsugæsluna ef einkenni eru slæm og lagast ekki þrátt fyrir minna álag.

Finna næstu heilsugæslu hér.