Salmonella er baktería með yfir 2000 afbrigði. Tvö þeirra, S. Enteritidis og S. Typhimurium eru algengustu afbrigði salmonellusýkingar hér á landi en uppruni smitsins er oftast af erlendum toga. Bakterían veldur einkennum í meltingarfærum. Bæði menn og dýr geta sýkst og það oftar en einu sinni.
Einkenni
Helstu einkenni eru:
- Hiti - hjá börnum - hjá fullorðnum
- Kviðverkir
- Niðurgangur - hjá börnum - hjá fullorðnum
- Ógleði og/eða uppköst
Einkenni ganga yfirleitt yfir á um 4-5 dögum.
Smitleiðir
- Algengast er að smitast út frá menguðum matvælum.
- Tími frá smiti og þar til einkenni koma fram getur verið allt frá 6 klst upp í 10 daga en er oftast um 1-3 dagar.
- Smit getur borist á milli manna. Baktería er að meðaltali um 5-6 vikur til staðar í saur eftir sýkingu.
- Þau sem eru með staðfesta sýkingu eiga ekki fara í sund á meðan einkenni eru til staðar (sérlega mikilvægt fyrir börn sem nota bleyju).
- Ef barn í dagvistun greinist með salmonellu skal hafa samband við dagvistunina ef barnið dvaldi þar dagana fyrir veikindi eða var með einkenni í dagvistuninni.
Salmonellusýking er lögum samkvæmt tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis. Nánar um smitsjúkdóma.
Greining
Algengast er að sýkingin sé í hægðum og þá er sent saursýni til greiningar. Ef grunur er um sýkingu á öðrum stað í líkama þá þarf að senda sýni frá sýkingarstað s.s. blóði eða öðrum líffærum.
Meðferð
Algengast er að einkenni gangi yfir á nokkrum dögum án meðferðar. Í einstaka tilfellum getur verið þörf á stuðningsmeðferð vegna mikilla einkenna frá meltingarfærum, sérstaklega ef einstaklingar fá einkenni þurrks.
Forvarnir
- Full elda kjötmeti
- Forðast neyslu ógerilsneyddrar mjólkur og mjólkurafurða
- Huga að góðu hreinlæti, sérstaklega eftir salernisferðir, eftir snertingu við dýr og fyrir meðferð matvæla
- Þvo og/eða afhýða hrátt grænmeti og ávexti fyrir neyslu
- Þvo áhöld og búnað eftir meðhöndlun á hráu kjöti
Hvað get ég gert?
- Drekka vel af vökva til þess að koma í veg fyrir ofþornun.
- Frekari ráð sem geta hjálpað við ógleði og uppköstum.
- Frekari ráðleggingar um æskilega næringu fyrir fullorðna með niðurgang.
- Huga að saltbúskap líkamans með því að drekka vel af vökva sem inniheldur sölt. Til dæmis íþróttadrykki, tærar bollasúpur eða léttsykrað te. Einnig er hægt að kaupa sykursaltvatnsblöndur í apóteki. Best er að drekka oft og lítið í einu.
- Huga að handþvotti eftir umönnun fólks með bakteríuna.
Hvenær skal leita aðstoðar?
- Blóðugur niðurgangur
- Einkenni hafa staðið yfir í meira en viku
- Einkenni ofþornunar gera vart við sig (dökkt þvag, minnkuð þvaglát, þorsti, þurrkur í slímhúð í munni)
- Hiti >38°C hefur verið í meira en sólarhring auk einkenna frá meltingarvegi
- Matarsýking átti sér stað erlendis þar sem hreinlæti er ábótavant