Rótaveira (e. rotavirus) veldur sýkingu í meltingarfærum og er algeng ástæða niðurgangs og uppkasta hjá börnum. Algengast er að börn undir 5 ára aldri smitist en viðkvæmir eldri einstaklingar eru einnig í áhættu.
Einkenni
Sýkingin er oft bráð og veldur óþægindum í meltingarfærum.
Helstu einkenni eru:
- Kviðverkir
- Vatnskenndur niðurgangur í 5 til 7 daga. Niðurgangur - hjá börnum - hjá fullorðnum
- Uppköst í 1 til 2 daga
- Hiti – hjá börnum – hjá fullorðnum
Smitleiðir
Rótaveira smitast auðveldlega á milli fólks með snertismiti. Sýkingin kemur oftast í hrinum á veturna og smitast mest hjá dagforeldrum, í leikskólum eða þar sem ung börn koma saman.
Einkenni koma fram 1 til 3 dögum frá smiti. Smithætta er frá því að einkenni koma fram og þar til tveim sólarhringum eftir að einkenni eru horfin. Veiran er í hægðum og því geta þær verið smitandi upp í 7 daga eftir að einkenni hverfa. Handþvottur og gott hreinlæti draga mikið úr smithættu.
Greining
Í flestum tilvikum þarf ekki formlega greiningu þar sem einkenni eru augljós. Veiran er greind með saursýni ef þörf er á.
Meðferð
Meðferð fer í flestum tilvikum fram heima og sjaldan er þörf fyrir meðferð á sjúkrahúsi.
Hvað get ég gert?
- Hvíld
- Drekka vel. Reyna að drekka minna í einu en oftar. Einn og einn munnsopa á 15 mín fresti. Vanlíðan getur komið veg fyrir að börn vilji drekka og því getur verið hjálplegt að gefa verkjalyf.
- Verkjalyf vegna kviðverkja - mælt er með parasetamól
- Í lyfjaverslunum fást töflur sem innihalda sölt og sykur sem eru líkamanum nauðsynleg en tapast við niðurgang og uppköst. Töflurnar eru leystar upp í vatni.
- Frostpinnar og íþróttadrykkir geta reynst vel
- Borða auðmeltan mat eins og tæra súpu eða ristað brauð
- Forðast feitan og brasaðan mat
- Ávaxtadrykkir og gosdrykkir geta aukið einkenni
Uppköst og niðurgangur geta valdið ofþornun á stuttum tíma, sér í lagi hjá litlum börnum. Mikilvægt er að vera vel vakandi fyrir einkennum ofþornunar.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leita til heilsugæslunnar ef:
- Uppköst í meira en 2 daga
- Niðurgangur í meira en 7 daga
- Barn er mjög ólíkt sér í veikindunum og óduglegt að drekka
- Áhyggjur eru af líðan barns
Leita til bráðamóttöku ef:
- Kviðverkur er stöðugur eða fer versnandi
- Húðlitur er fölur, gráleitur
- Barn hefur mögulega innbyrt eiturefni. Sími eitrunarmiðstöðvar 543-2222
- Barn er þróttlaust og slappt og svarar illa áreiti
- Grunur er um ofþornun
- Bólusetning er öflug vörn gegn rótaveirusmiti. Bólusetning kemur í veg fyrir smit í langflestum tilvikum og dregur úr veikindum ef fólk smitast. Bólusetningin varð hluti af almennum bólusetningum barna í ársbyrjun 2015. Sjá nánar um fyrirkomulag barnabólusetninga.
- Handþvottur, sérstaklega eftir bleyjuskipti og klósettferðir.
Til að koma í veg fyrir útbreiðslu er mikilvægt að:
- Vera heima einkennalaus í 2 sólarhringa
- Handþvottur, sérstaklega eftir bleyjuskipti og klósettferðir
- Gæta sérstakrar varúðar í samskiptum við viðkvæma einstaklinga og ung börn
- Þrífa salerni, krana, hurðarhúna og snertifleti daglega og sótthreinsa