Ristilpokar (e. diverticulosis) eru litlir pokar eða útbungun á ristli sem myndast vegna veikleika í ristilveggnum og þrýstings frá hægðum. Ristilpokar geta myndast hvar sem er í ristlinum en oftast eru þeir í neðri hluta hans. Þeir eru um 5-10 mm að stærð en geta orðið 2 cm og jafnvel stærri og er fjöldi þeirra breytilegur.
Algengt er að fá ristilpoka eftir 50 ára aldur og eins getur mataræði haft áhrif á myndun þeirra. Ristilpokar eru oftast einkennalausir en ef ristilpoki stíflast og upp kemur bólga eða sýking kallast það ristilpokabólga (e. diverticulitis).
Einkenni
- Blæðing frá endaþarmi
- Breyting á hægðum
- Hiti
- Ógleði
- Uppþemba
- Verkir um neðanverðan kvið, einkum vinstra megin
Einkenni ristilpokabólgu geta svipað til einkenna iðraólgu.
Áhættuþættir
- Hækkandi aldur
- Inntaka á ákveðnum lyfjum: Til dæmis NSAID verkjalyfjum, sterum og ópíóðum
- Lágt D-vítamín gildi
- Mikil áfengisneysla
- Offita
- Reykingar
- Skortur á hreyfingu
- Trefjalaust mataræði
Orsök
Orsök er oftast bakteríusýking í einum eða fleiri ristilpoka.
Greining
- Blóðprufa
- Saursýni
- Ristilspeglun
- Röntgenmynd
- Tölvusneiðmynd
Meðferð
- Sýklalyf
- Tímabundin fasta á mat og stundum drykk til að hvíla ristilinn
- Verkjalyf
- Vökvagjöf
- Skurðaðgerð þar sem hluti úr ristli er fjarlægður
Hvað get ég gert?
Þegar sjúkdómurinn er virkur, einkenni eru til staðar er mælt með að takmarka trefjaríka fæðu og auka neyslu á vökva og söltum. Ef einkenni eru áberandi er ráðlagt að sleppa fastri fæðu og taka frekar inn fljótandi fæði og bæta hægt og rólega inn maukfæði og síðast bæta við fastri fæðu þegar einkenni fara minnkandi. Þá er gott að tyggja matinn vel, borða litla skammta og drekka vel af vökva með mat.
Í sjúkdómshléum, þegar einkenni eru ekki til staðar er ráðlagt að:
- Borða fjölbreytt og hollt fæði samkvæmt ráðleggingum
- Drekka vel af vatni
- Ekki reykja
- Taka inn góðgerla
- Takmarka eða sleppa inntöku á bólgueyðandi NSAID lyfjum
- Stunda reglubundna hreyfingu
- Viðhalda kjörþyngd
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leita skal til læknis ef stöðugur óútskýrður kviðverkur, sérstaklega ef hiti er til staðar og áberandi breytingar á hægðum.
Fólk sem hefur fengið ristilpokabólgu eru í aukinni hættu á að fá bólgu aftur. Ef einkenni koma upp ítrekað er æskilegt að leita læknis áður en verkir verða slæmir.