Fara á efnissvæði

POTS

Kaflar
Útgáfudagur

Aukin hjartsláttartíðni vegna stöðubreytingar (e. Postural orthostatic tachycardia syndrome) er heilkenni sem veldur því að hjartsláttartíðni eykst við það að setjast eða standa upp.

Nánar

Þegar fólk sest eða stendur upp þá dregur þyngdaraflið blóðið niður að eitthverju leiti. Við það sendir líkaminn taugaboð til heila sem bregst við með því að draga fljótt saman æðar og auka hjartsláttartíðni lítillega til að viðhalda blóðflæði til hjarta og heila. Hjá þeim sem eru greindir með PoTS verður truflun á starfsemi ósjálfráða taugakerfisins sem veldur því að æðar dragast ekki nægilega saman og hjartsláttartíðni eykst mikið í kjölfarið án þess að það sé blóðþrýstingsfall.

Einkenni

Sumir hafa væg einkenni en aðrir upplifa skerðingu á lífsgæðum. Helstu einkenni eru:

  • Svimi
  • Hjartsláttarónot
  • Yfirlið
  • Truflun við hugsanir, minni og einbeitingu, stundum kallað heilaþoka
  • Skjálfti og aukin svitamyndun
  • Þreyta
  • Höfuðverkur
  • Svefntruflanir
  • Brjóstverkur
  • Slappleiki
  • Grunn og hröð öndunartíðni

Sumir einstaklingar finna fyrir versnun á einkennum þegar það finnur fyrir hita, eftir máltíð, við litla vökvainntöku, mikla hvíld, við hreyfingu eða þegar tíðarblæðingar eiga sér stað.

Orsakir

Truflun á starfsemi ósjálfráða taugakerfisins.

Orsök er ekki alltaf þekkt. Stundum þróast PoTS skyndilega eftir veirusýkingu, áverka eða á meðgöngu. Unglingar þróa stundum með sér PoTS en með tímanum fara einkenni minnkandi og hverfa á nokkrum árum.

Greining

Ef hjartsláttartíðni eykst um 30 slög eða fleiri á mínútu innan við 10 mínútur frá því að einstaklingur stóð upp (40 slög eða fleiri hjá 12-19 ára). Þessi aukning á hjartslætti varir í 30 sekúndur eða lengur og önnur einkenni POTS fylgja.

PoTS hefur áhrif á fjölda fólks en greinist oftast hjá stúlkum og konum á aldrinum 15 til 50 ára.

Einnig eru oft gerðar rannsóknir til að staðfesta greiningu og útiloka aðra kvilla.

Meðferð

Meðferð fer eftir einkennum en stundum þarf lyfjagjöf.

Hvað get ég gert?

Ef einstaklingur finnur fyrir svima við að standa upp þá er gott ráð að leggjast niður og setja fætur upp í loft. Ef ekki er rými til þess að leggjast niður er hægt að krossleggja fætur og spenna vöðva t.d. í hnefum og rassi til að koma blóðflæði til höfuðs.

Það er möguleiki á því að draga úr einkennum með því að:

  • Drekka vel af vökva
  • Forðast að standa lengi
  • Forðast áfengi og koffín
  • Hreyfa sig reglulega
  • Hækka höfðalag rúms
  • Nota stuðningssokka
  • Standa rólega upp

Mörg einkenna PoTS eiga einnig við um aðra sjúkdóma og kvilla t.d. lágþrýstingur eða kvíði og því þarf að leita læknis ef grunur er á PoTS.

Finna næstu heilsugæslu hér.