Fara á efnissvæði Ógleði - uppköst | Heilsuvera
Fara á efnissvæði

Ógleði - uppköst

Kaflar
Útgáfudagur

Ógleði (e. nausea) og uppköst haldast oft í hendur. En þó getur fólk fundið fyrir ógleði án þess að kasta upp og kastað upp án þess að finna fyrir ógleði. Margar ástæður geta verið fyrir uppköstum og geta önnur einkenni sagt til um hversu alvarlegt ástandið er.

Helstu ástæður uppkasta

Matareitrun - Ef þú borðar skemmdan mat. Matareitrunum valda sterk eiturefni sem sumir sýklar mynda um leið og þeir fjölga sér í matvælum. Berist þessi eiturefni ofan í fólk í nægilegu magni, valda þau bráðum sjúkdómseinkennum svo sem uppköstum, kviðverkjum og niðurgangi. Dæmi eru klasasýklar (Staphylococcus aureus) og perfringensgerlar (Clostridium perfringens).

Matarsýking - Ákveðnir sýklar sem ná að fjölga sér í matvælum og berast með þeim ofan í fólk geta valdið matarsýkingum. Helstu sýklar sem valda matarsýkingum eru kamphylobakter, salmonella og nóróveirur.

Bílveiki og sjóveiki - tengist jafnvægisskynfærum í innra eyranu. Getur einnig komið fram ef um sýkingu eða áverka á innra eyra er að ræða.

Lyf - Mörg lyf hafa þær aukaverkanir að valda ógleði og uppköstum. 

Barnshafandi - Margar konur þjást af ógleði og uppköstum á meðgöngu. Oft talað um morgunógleði.

Bakflæði - þá leka magasýrur úr maganum upp í vélindað og valda ógleði.

Vandamál í meltingarfærum - ef maturinn nær ekki að færast með venjulegum hætti í gegnum meltingarveginn, t.d. vegna stíflu, þá getur það valdið ógleði og uppköstum.

Migreni - hjá sumum fylgir ógleði með mígreni.

Áfengi - mikil neysla áfengis getur bæði valdið ógleði og uppköstum.

Höfuðhögg - ógleði og uppköst eftir höfuðhögg benda til þess að um heilahristing sé að ræða.

Hvað get ég gert?

Nokkur ráð sem geta hjálpað við ógleði og uppköstum:

  • Forðast að borða eða drekka næsta klukkutímann eftir uppköst
  • Drekka sopa og sopa af tærum vökvum, gott ef þeir innihalda smá sykur og salt s.s. íþróttadrykkir. En forðastu sítrus drykki
  • Auka vökvainntekt jafnt og þétt
  • Eftir 12 tíma, prófa að borða ristað brauð, hrísgrjón eða kartöflu
  • Síðar að bæta inn fjölbreyttari fæðutegundum
  • Forðast mjólk, sítrus ávexti og safa, kryddaðan, feitan mat, áfengi og kaffi
  • Taka lyf aftur ef þú hefur kastað upp innan við 30 mínútum frá inntöku

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu strax á næstu bráðamóttöku ef:

  • Breyting er á meðvitund, yfirlið
  • Uppköstin eru með blóði, fersku (rauðu) eða meltu (eins og svartur kaffikorgur)
  • Viðkomandi hefur nýlega fengið áverka á höfuð eða á kvið
  • Brjóstverkur, erfiðleikar við öndun, hjartsláttarónot eða sviti eru til staðar
  • Stöðugur mikill kviðverkur
  • Merki um ofþornun (minnkað þvagmagn, sokkin augu, þurr munnur, svimi við að setjast upp)
  • Ástæðan er hugsanlega eiturefni (lyf, plöntur, hreinsiefni)

Sama á við um börn en auk þess ef:

  • Barn er yngra en 1 mánaða
  • Kviður barns er harður þegar það grætur ekki
  • Barn er með sykursýki og ekki næst að ráða við uppköstin

Leitaðu til heilsugæslunnar á næsta sólarhring ef:

  • Uppköst hafa staðið yfir í meira en 48 tíma
  • Þú ert nýkominn úr aðgerð, nýbúinn að fá greiningu eða legið nýlega á sjúkrahúsi
  • Þú hefur nýlega byrjað á nýjum lyfjum

Finna næstu bráðamóttöku eða heilsugæslustöð.