Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

Offita hjá fullorðnum

Kaflar
Útgáfudagur

Offita (e. obesity) er flókinn, langvinnur sjúkdómur. Hann einkennist af aukinni fitusöfnun í líkamanum sem hefur neikvæð áhrif á heilsu. 

Nánar

Líkaminn stýrir orkujafnvægi og þar með söfnun fitu gegnum flókin stýrikerfi. Þessi kerfi leitast við að verja orkubirgðirnar og því getur verið erfitt að léttast. Best er því að fyrirbyggja að mikil fita safnist upp. Ofþyngd getur verið merki um að líkaminn sé að safna meiri orkubirgðum en heilbrigt er. Skynsamlegt er að skoða hvað gæti valdið því og vinna að breytingum sem gætu hjálpað líkamanum að ná jafnvægi á ný. Ef of mikil fita hefur safnast upp í líkamanum og álagið sem fituvefur veldur hefur áhrif á heilsu þá er talað um sjúkdóminn offitu. Álagið skapar hættu á mörgum fylgisjúkdómum fyrir einstaklinga sem lifa með offitu. 

Oft eru til staðar undirliggjandi líkamlegir eða andlegir sjúkdómar, áföll eða andlegt álag sem þarfnast meðferðar.  

Einstaklingar sem lifa með sjúkdómnum offitu hafa oft mætt þekkingarleysi og fordómum vegna holdafars og getur það meðal annars haft mikil áhrif á líðan þeirra  og heilsu.

Enn er verið að skoða hvernig best er að skilgreina sjúkdóminn offitu og ný þekking er stöðugt að verða til. Hingað til hefur líkamsfita verið áætluð með líkamsþyngdarstuðli. Hann gefur góðar vísbendingar en getur þó bæði ofáætlað magn fitu og vanmetið það. Samsetning líkamans hefur áhrif á matið en hana getur líkamsþyngdarstuðull  ekki metið. 

Mikil söfnun fitu í og við líffæri á kvið eykur líkur á efnaskiptasjúkdómum, hjarta- og æðasjúkdómum. Kviðfita er metin með mælingu á mittismáli. Í Evrópu er talið að mittismál sé of mikið hjá konum ef það er yfir 80 sm og hjá körlum yfir 94 sm. Viðmið eru þó mismunandi hjá ólíkum kynþáttum.

 

Orsakir

Að líkaminn safni auknum orkubirgðum er flókið samspil erfða, lífshátta og umhverfis.

Offita hefur aukist mikið um allan heim á undanförnum áratugum samhliða miklum breytingum á samfélögum og umhverfi. Í dag er sjónum helst beint að því að bæta samfélagið og umhverfið þannig að hver einstaklingur eigi auðveldara með að halda góðri heilsu.

Greining

Til þess að greina hvort um sjúkdóminn offitu er að ræða eru ýmsir þættir sem læknir þarf að skoða og meta. Meðal þeirra geta verið:

  • Líkamsskoðun
  • Taka sjúkrasögu, meðal annars með tilliti til þess hvort til staðar séu sjúkdómar sem geta haft áhrif svo sem kæfisvefn, vélindabakflæði, stoðkerfisverkir, ýmsir bólgusjúkdómar og andleg vanlíðan. Einnig þarf að skoða hvort verið er að nota lyf sem geta valdið þyngdaraukningu.
  • Líkamsþyngdarstuðull 
    • 25 til 29,9 kg/m2 telst vera ofþyngd
    • yfir 30 kg/m2 telst vera offita
    • hærri en 35 kg/m2 telst vera alvarleg offita
  • Mittismál og hlutfall mittismáls og hæðar (mittismál deilt með hæð). Æskilegt er að það hlutfall sé minna en 0,5.
  • Áhættuþætti efnaskiptasjúkdóma eins og sykursýki, fitulifrar og háþrýstings.
  • Rannsóknir til dæmis blóðprufa. 

Meðferð

Markmið offitumeðferðar er að bæta heilsu og lífsgæði með því að draga úr neikvæðum áhrifum offitu á heilsufar. Meðferðin stuðlar að heilbrigðri starfsemi líkamans og góðri andlegri líðan óháð þyngdartapi. 

Meðferð við offitu er einstaklingsbundin og getur innihaldið eftirfarandi þætti:

  • Bæta lífsgæði
  • Þyngdartap er hluti meðferðar því of mikið magn fitu í líkamanum skapar álag fyrir starfsemi líffæra. Það þarf að gæta þess að líkaminn léttist um fituvef og kviðfitu en tapi ekki vöðvamassa. Stefna ætti að raunhæfu þyngdartapi með það markmið að viðhalda því til langs tíma og koma í veg fyrir þyngdaraukningu á ný.
  • Efla heilbrigðan lífsstíl með því að skoða alla þætti lífsstílsins og finna hvar sóknarfærin liggja.
    • Næring: Huga að hollri, reglulegri næringu
    • Hreyfing: Stunda hreyfingu við hæfi
    • Svefn: Efla góðar svefnvenjur
    • Líðan: Vinna að góðu andlegu jafnvægi
  • Lyfjameðferð er stundum beitt. Heilsugæslulæknar og ýmsir sérfræðilæknar geta ákveðið slíka meðferð. Nauðsynlegt er að ástunda heilbrigðan lífsstíl samhliða lyfjameðferð.
  • Skurðaðgerðir sem hjálpa einstaklingum að léttast með því að breyta hvernig meltingarvegur og stýrikerfi í heilanum tala saman kallast efnaskiptaskurðaðgerðir (e. bariatric surgery). Þessar aðgerðir eru enn áhrifaríkasta meðferðin sem völ er við alvarlegri offitu og geta verið mikil heilsubót. Til eru mismunandi tegundir aðgerða og þær helstu eru magahjáveita og magaermi. Þessar aðgerðir eru mikið inngrip í líkamann og þarf að vanda vel undirbúning og val á aðgerð. Miklar breytingar verða á daglegum lífsháttum við aðgerð og er nauðsynlegt að kynna sér þær vel. Líkaminn bregst við þessum aðgerðum með ýmsum hætti og gott láta það ekki koma sér á óvart. Eins er mikilvægt að fólk þekki vel hvaða þátt þeir sjálfir hafa í meðferðinni.
    Reglulegt eftirlit er nauðsynlegt eftir efnaskiptaaðgerð, alla ævi.
  • Greining og meðhöndlun fylgisjúkdóma offitu bætir lífsgæði.

Ef sjúkdómurinn offita er þegar til staðar þarf að meðhöndla hann eins og aðra langvinna sjúkdóma alla ævi. 

Munurinn á megrun og offitumeðferð

Mikill munur er á megrun annars vegar og offitumeðferð hins vegar. Við megrun er að öllu jöfnu lögð mest áhersla á þyngdartap og heilsufarslegur ávinningur er óviss. Líkaminn getur skynjað hratt þyngdartap sem ógn sem hann þarf að bregðast við og því leitast hann við að nota minni orku og ná tapaðri þyngd til baka. Slíkt er eðlilegt viðbragð líkamans. 

Hvað get ég gert?

Heilbrigður lífsstíll hjálpar líkamanum að starfa í jafnvægi. Því er gott að huga að mataræði, hreyfingu, svefni og andlegri liðan. Það getur verið snúið að breyta lífsvenjum sínum. Hér finnur þú góð ráð viljir þú breyta venjum þínum?

Mataræði

  • Borða reglulegar máltíðir yfir daginn og leyfa meltingarvegi að hvílast um kvöld og nætur
  • Borða fjölbreyttan, lítið unnin mat sem er næst náttúrulegum uppruna sínum og forðast
    mikið unnin matvæli. Hægt er að útfæra hollt mataræði á marga vegu.
  • Leggja áherslu á góð prótein og trefjar, helst í öllum máltíðum dagsins
  • Taka D vítamín sem bætiefni og ef mataræði er einhæft taka þá einnig fjölvítamín
  • Drekka vatn en forðast, áfengi, gosdrykki, orkudrykki og safa
  • Borða hægt, tyggja vel og njóta matarins
  • Læra á merki líkamans um svengd og seddu. Miðum við að koma hæfilega svöng að máltíðinni og borða okkur hæfilega södd í hverri máltíð.

Hér finnur þú nánari upplýsingar um ráðlagt mataræði fullorðinna

Hreyfing

  • Finna hreyfingu sem hæfir þér og þínum líkama á hverjum tíma
  • Muna að jafnvel lítil hreyfing getur gert mikið gagn til að bæta heilsu
  • Gott er að minna sig á að markmið hreyfingarinnar er að bæta heilsu og líðan og hjálpa líkamanum að stýra þyngdinni á heilbrigðan máta. Markmiðið með hreyfingunni er ekki að léttast.

Hér getur þú fundið æfingar sem hægt er að gera heima og einnig ýmsar ráðleggingar um hvernig auka má hreyfingu í daglegu lífi.

Svefn

  • Stunda góðar svefnvenjur
  • Forgangsraða nægum svefni eins og mögulegt er í daglegu lífi.

Hér finnur þú góð ráð viljir þú bæta svefninn. Einnig getur þú fundið góð ráð á stuttum myndböndum til að bæta svefninn.

Andlega líðan

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu til heilsugæslunnar ef þú hefur áhyggjur af þinni þyngd eða þyngdaraukningu.Þar er hægt að greina hvort ofþyngd er orðin áhættuþáttur fyrir heilsuna og fá viðeigandi leiðbeiningar og stuðning til að draga úr þeirri áhættu. Þar getur þú einnig fengið aðstoð til að greina hvort sjúkdómurinn offita er til staðar og þá alvarleika sjúkdómsins og viðeigandi meðferð.

Finna næstu heilsugæslu

Forvarnir

Til að fyrirbyggja að of mikill fituvefur safnist upp í líkamanum er mikilvægt að halda góðri reglu á daglegum lífsháttum og gera líkamanum  um leið auðveldara með að stýra þyngd sinni á eðlilegan hátt. Ráðleggingarnar sem þú finnur hér á undan „hvað get ég gert?“ stuðla að góðu jafnvægi á þyngdarstjórn líkamans og eru alltaf fyrsta skrefið. Auk þess að draga úr líkum á ofþyngd hjálpa þessir sömu þættir líka til við að draga úr líkum á öðrum langvinnum sjúkdómum. Munum að það er aldrei of seint að byrja að bæta lífshættina.