Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Niðurgangur hjá fullorðnum

Kaflar
Útgáfudagur

Niðurgangur (e. diarrhea) er skilgreindur sem lausar eða vatnsríkar hægðir að minnsta kosti þrisvar sinnum á sólarhring.

Veirur og bakteríur valda oftast niðurgangi og er algengast að sýkjast við inntöku á menguðum matvælum eða af smituðum einstaklingi. Mikilvægt er að einstaklingur með niðurgang haldi sig heima, hvílist og passi uppá sóttvarnir.

Í flestum tilvikum stöðvast niðurgangur á 3-7 dögum dögum. Mesta hættan af miklum niðurgangi er vökvatap og því er mikilvægast að drekka nægan vökva og fá rétta næringu.

Upplýsingar um niðurgang hjá börnum.

Orsakir

Algengustu ástæður fyrir niðurgangi eru eftirfarandi:

  • Veirur, t.d. nóróveirur, rotaveirur, adenoveirur
  • Bakteríur, t.d. Kamphylobakter, Salmonella, E.coli, Shigella
  • Sýklalyf
  • Fæðuóþol eða fæðuofnæmi
  • Langvinnir bólgusjúkdómar í þörmum

Hér eru gagnlegar leiðbeiningar ef taka þarf saursýni.

Ef fólk ferðast til landa þar sem hreinlæti er ábótavant eða loftslag er heitara en það er vant þá verða auknar líkur á niðurgangi. 

Hvað get ég gert?

Æskileg næring fyrir fullorðna með niðurgang:

  • Drekka vel af vökva sem inniheldur sölt, til dæmis vatnsblandaða íþróttadrykki (t.d. Gatorade, Powerade, Aquarius), tærar bollasúpur eða léttsykrað te. Einnig er hægt að kaupa sykursaltvatnsblöndur í apóteki. Best er að drekka oft og lítið í einu.
  • Léttur matur eins og súpur og seyði, ristað brauð, saltkex, bananar, epli án hýðis, soðinn fiskur, soðið grænmeti og hrísgrjón er gott að neyta ef matarlyst er fyrir hendi.
  • AB mjólk og LGG+ geta reynst vel en varast ætti aðrar mjólkurafurðir þar sem þær eru oft erfiðar að melta.
  • Soðin sterkja og korn (t.d. kartöflur, núðlur, hrísgrjón, hveiti og hafrar) með salti er gott við vatnskenndum niðurgangi. 
  • Forðast skal sterkan, fituríkan og brasaðan mat. Einnig sykraðar vörur eins og gosdrykki, ávaxtasafa og sæta safa. Kaffi og orkudrykki ætti einnig að forðast.
  • Hægt er að fá lyf í apóteki til að stöðva niðurgang í nokkrar klukkustundir ef enginn hiti er til staðar. Það er hægt að nota til dæmis ef fólk þarf að fara í flug eða ferðast á milli landshluta. Dæmi um slíkt lyf er Imodium. Að öðru leyti ætti ekki að taka Imodium nema þegar um langvarandi niðurgang er að ræða og þá í samráði við lækni.
  • Fylgjast með þvaglátum, eðlilegt er að pissa ca. á 3ja tíma fresti og þvag á að vera ljósgult. Ef þvag er dökk gult og sjaldan pissað yfir daginn þá þarf að drekka meira.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu til heilsugæslunnar ef einhver eftirfarandi einkenni eru til staðar:

  • Niðurgangur hefur staðið yfir í meira en viku
  • Mikil þreyta og slappleiki
  • Slæmir kviðverkir
  • Hiti ≥ 38.5° í meira en sólarhring 
  • Blóðugur niðurgangur
  • Merki um vökvaskort eins og dökkt þvag, lítil þvaglát, munnþurrk og þorsta

Finna næstu heilsugæslustöð.

Forvarnir