Niðurgangur (e. diarrhea) er skilgreindur sem lausar eða vatnsríkar hægðir að minnsta kosti þrisvar sinnum á sólarhring.
Veirur og bakteríur valda oftast niðurgangi og er algengast að sýkjast við inntöku á menguðum matvælum eða af smituðum einstaklingi. Mikilvægt er að einstaklingur með niðurgang haldi sig heima, hvílist og passi uppá sóttvarnir.
Í flestum tilvikum stöðvast niðurgangur á 3-7 dögum dögum. Mesta hættan af miklum niðurgangi er vökvatap og því er mikilvægast að drekka nægan vökva og fá rétta næringu.
Á fyrstu viku ævinnar hafa flest börn hægðir fjórum sinnum á dag eða oftar. Hægðirnar eru mjúkar og blautar og sum börn geta haft hægðir upp í 10 sinnum á dag. Á fyrstu þremur mánuðunum hafa sum börn hægðir tvisvar á dag eða oftar en önnur hafa hægðir einu sinni í viku. Um tveggja ára aldurinn hafa flest börn hægðir daglega, þær eru mjúkar en formaðar.
Hvert barn er einstakt, sum hafa hægðir eftir hverja máltíð, önnur hafa hægðir annan hvern dag.
Orsakir
- Aukaverkun sýklalyfja, oftast vægur niðurgangur.
- Matarsýkingar.
- Veirusýking, önnur einkenni samhliða niðurganginum geta verið hiti (yfir 38°C), uppköst, magakrampar, lystarleysi og höfuðverkur.
Í sumum tilfellum er tekið saursýni hjá barni.
Hvað get ég gert?
Æskileg næring fyrir börn með niðurgang:
- Drekka vel því mikill vökvi tapast með niðurgang
- Ef barn er á brjósti eða fær pelagjafir skal halda því áfram og gefa oftar en vanalega
- Gefa AB mjólk eða aðrar mjólkurvörur með góðgerlum
- Góðgerlar, hægt að kaupa í apótekum
- Léttur matur eins og súpur og seyði, ristað brauð, saltkex, bananar, epli án hýðis, soðinn fiskur og soðið grænmeti er gott að neyta ef matarlyst er fyrir hendi.
- Soðin sterkja og korn (t.d. kartöflur, núðlur, hrísgrjón, hveiti og hafrar) með salti er gott við vatnskenndum niðurgangi
- Sykursaltvatnslausn, hægt er að kaupa hana í duftformi í apótekum. Til eru sykursaltfreyðitöflur með appelsínubragði fyrir börn eldri en 3ja ára sem eru leystar upp í vatni samkvæmt leiðbeiningum
Gefa skal sykursaltvatnsblönduna eftir hver uppköst/niðurgang en einnig þess á milli. Eftir hver uppköst/niðurgang þurfa börn sem eru léttari en 10 kg að fá 60-120ml en börn þyngri en 10 kg þurfa að fá 120-240ml. Ef barnið þambar vökvann og ælir strax í kjölfarið þá skal gefa sopa og sopa í einu en bjóða mjög oft að drekka þannig að nægri vökvainntöku sé náð.Samhliða sykursaltvatnsblöndu á alltaf að halda áfram með brjósta- og þurrmjólkurgjöf, eftir því sem við á.
Óæskileg næring fyrir börn með niðurgang:
- Fituríkur eða kryddaður matur
- Súrir drykkir og gosdrykkir
- Lyf til að stöðva niðurgang, þau eru ekki ætluð börnum
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leita til heilsugæslunnar ef:
- Niðurgangurinn er blóðugur
- Niðurgangur hefur staðið yfir í meira en viku
- Barn er yngra en 12 mánaða og áhyggjur eru til staðar
Leita til næstu bráðamóttöku ef:
- Kviðverkur er stöðugur eða fer versnandi
- Húðlitur er fölur, gráleitur
- Barn hefur mögulega innbyrt eiturefni (Símanúmer eitrunarmiðstöðvar 543-2222)
- Barn er þróttlaust og slappt og svarar illa áreiti
- Barn er orðið þurrt, s.s.
- Þurr munnur, og/eða þorsti
- Ekki pissað eða bleytt bleyju í 4-6 klst hjá börnum undir tveggja ára aldri, en 6-8 klst hjá börnum yfir tveggja ára
- Engin tár þegar barnið grætur
Forvarnir
- Almennt hreinlæti, sérstaklega handþvottur
- Sýna varúð við meðferð matvæla
- Vera heima þar til einkennalaus í 48 tíma til að koma í veg fyrir að smita aðra