Fara á efnissvæði

Næturvæta barna

Kaflar
Útgáfudagur

Næturvæta (e. enuresis nocturna) er það ástand þegar barn missir þvag að nóttu einu sinni í mánuði eða oftar eftir 5 ára aldur. Næturvæta er eitt algengasta heilsufarsvandamál 6-7 ára barna og kemur fram hjá um 15% fimm ára barna. Næturvæta er þrisvar sinnum algengari hjá strákum en stelpum.

Helstu ástæður næturvætu

Næturvæta getur verið af ýmsum orsökum:

  • Seinkun á þroska hjá þeim hluta taugakerfis sem stjórnar þvagfærum.
  • Erfðafræðilegir þættir. Ef foreldri hefur sögu um næturvætu þá eru 50% líkur að barnið sé með næturvætu. Ef báðir foreldrar hafa sögu þá eru 75% líkur að barnið sé með næturvætu. Ef hvorugt foreldrið hefur sögu um næturvætu þá eru 15% líkur á að barnið sé með næturvætu.
  • Mikil þvagmyndun að nóttu - Getur verið tengt ónógri framleiðslu eða minni virkni þvagtemprandi hormóns frá heiladingli.
  • Djúpur svefn - Óeðlilega djúpur svefn sem veldur að barnið vaknar ekki þegar þvagblaðran er full.
  • Ofvirk þvagblaðra - Þvagblaðran er næmari fyrir því að vera full og dregst jafnvel saman þótt lítið magn af þvagi sé í henni.
  • Þvagfærasýking, hægðatregða og sykursýki geta einnig verið orsakir fyrir næturvætu. Þetta á sérstaklega við ef barnið byrjar að pissa á nóttunni eftir að hafa ekki gert það í langan tíma. 

Hvað get ég gert?

Í næstum öllum tilfellum hættir næturvæta af sjálfu sér en eftirfarandi ráð geta hjálpað til:

  • Reglulegar salernisferðir, að minnsta kosti fjórum sinnum yfir daginn og að pissað sé fyrir svefn.
  • Drekka reglulega yfir daginn og minna á kvöldin og helst ekkert klukkutíma fyrir svefn.
  • Forðast drykki á kvöldin sem auka þvagframleiðslu, t.d. gosdrykki eða te.
  • Taka því rólega klukkutíma fyrir svefn, til dæmis með því að lesa, eða hlusta á róandi tónlist.
  • Fullvissa barnið um að þetta sé ekki því að kenna og þetta muni verða betra.
  • Ekki skamma eða refsa barninu fyrir að væta rúmið því það mun ekki hjálpa og gæti jafnvel aukið vandamálið.
  • Ekki vekja barnið að nóttu til að fara á klósettið - Það mun ekki flýta fyrir að barnið nái sjálft stjórn á næturvætunni.
  • Auka rúmfatnað er gott að geyma í herbergi barns til að auðvelda skipti um miðja nótt.

Fyrir sum börn geta næturbleyjur eða næturbuxur verið tímabundin lausn við sérstök tækifæri, t.d. þegar þau fara í sumarbúðir eða skólaferðalög. Gott er að ræða við starfsfólk áður en barnið fer í hópferðalag þannig að það viti af vandamálinu og barnið geti rætt við það. Einnig er hægt að senda barn með auka lak eða auka svefnpoka.

Meðferð

Börn geta fengið meðferð við næturvætu þegar þau eru orðin sex ára. Yngri börn geta einnig fengið meðferð ef þeim líður illa vegna næturvætunnar. Það er ekki til neinn réttur tími hvenær leitað er til heilsugæslunnar, mikilvægast er að horfa á hvernig barninu líður.

Áður en meðferð er valin er mikilvægt að útiloka aðra kvilla sem geta valdið næturvætu. 

  • Börn sem hrjóta mikið og hafa truflaðan svefn þurfa stundum að fara í ýtarlegri skoðun, til dæmis hjá eyrnalækni. Dregið getur úr næturvætu hjá sumum börnum ef svefninn er bættur, t.d. með því að fjarlægja nefkirtla eða hálskirtla.
  • Ef grunur er um að barn sé með nýrnasjúkdóm þá er hægt að skoða það frekar, til dæmis með ómskoðun eða röntgenmynd í þvagfærum.
  • Mikilvægt er að kanna hvort barnið sé með hægðatregðu og meðhöndla hana ef hún er til staðar.
Hvatningarmeðferð
  • Árangursrík meðferð fyrir 5 - 7 ára börn sem væta ekki rúm á hverri nóttu. Þessi hvatningarmeðferð er talin árangursrík og 25% barna ná góðri bætingu.
  • Hægt er að nota umbunarkerfi, t.d. safna límmiðum eða stjörnum.
  • Ef hvatningarmeðferð leiðir ekki til bætingar eftir 3 - 6 mánuði þá ætti að velja aðra aðferð (sjá hér fyrir neðan).
Næturþjálfi sem hringir þegar barn vætir rúmið
  • Yfirleitt er þetta fyrsta úrræðið og við notkun þessarar aðferðar hættir oft barnið að væta rúmið. 
  • Með notkun næturþjálfa er rakanemi festur í lak eða nærbuxur barns og hringir hann þegar barnið byrjar að pissa. Þegar byrjað er að nota næturþjálfann þá þurfa foreldrar að sofa fyrstu næturnar inni hjá barninu og vekja barnið þegar næturþjálfinn hringir. Eftir notkun í nokkur skipti þá vaknar barnið við hringingu og stendur upp og fer að pissa. Eftir þrjá mánuði þá eru 7 af hverjum 10 þessara barna hætt að væta í rúmið. 
  • Þessi meðferð getur staðið allt frá 6 vikum að 6 mánuðum, og er mikilvægt að bæði barn og foreldrar hafi áhuga og vilja til að láta reyna á hana, því foreldar og barn verða að taka virkan þátt í þessari meðferð.
  • Mikilvægt er að barnið sé þátttakandi í meðferðinni og setji sjálft nemann á sig og læri að slökkva á hringingu og fari að pissa.
  • Ef næturþjálfinn er ekki að virka þá gætu lyf við næturvætu hjálpað til.
Lyf sem draga úr þvagframleiðslu getur læknir mælt með fyrir börn eldri en 6 ára
  • Vasopressin er hormón sem dregur úr framleiðslu á þvagi. Mörg börn sem væta rúmið framleiða ekki nóg vasopressín. Hægt er að fá lyfseðilsskyld lyf, t.d. Minirin, sem inniheldur virka efnið Desmopressin. Það er tilbúið hormón svipað og vasopressin. Barnið tekur lyfið í formi töflu sem er sett undir tungu og leysist þar upp.
  • Minirin er tekið einni klukkustund áður en barnið fer að sofa. Barnið á ekki að drekka neitt eftir að hafa tekið lyfið og á að að pissa rétt fyrir svefninn. Lyfið veldur því að framleiðsla þvags minnkar yfir nóttina og dregur úr líkum á því að barnið væti rúmið um nóttina.
  • Þetta lyf má einnig nota í einstökum tilfellum t.d. þegar barnið sefur hjá vini eða vinkonu, fer í sumarbúðir eða skólaferðalög.
  • Barnið gæti einnig fengið þetta hormón í langan tíma. Þá er venjulega gert hlé á þriggja mánaða fresti til að sjá hvort barnið sé hætt að væta rúmið af sjálfu sér.
  • Hætta skal lyfjameðferð ef barnið heldur áfram að væta rúmið eftir nokkurra vikna meðferð. Reyna má síðan aftur eftir um það bil sex mánuði.
  • Um það bil helmingur allra barna sem nota lyf hætta að væta rúmið þegar þau taka lyfið en byrja oft aftur þegar þau hætta að taka lyfið.

Að ræða við barn um næturvætu

  • Útskýra fyrir barninu að næturvæta sé eðlileg miðað við aldur þess, mjög algeng og að það muni ekki alla ævi væta rúmið.
  • Fræða barnið. Í bekk barnsins eru að minnsta kosti eitt til tvö börn til viðbótar sem væta rúmið þó það viti ekki hver það er. Með því að segja barninu að önnur börn séu með þetta vandamál getur það hjálpað því að vita að það er ekki eitt í bekknum sem vætir rúmið.
  • Útskýra að þetta er ekki barninu að kenna. Jafnvel þó það sé engin fjölskyldusaga um næturvætu. Útskýra hvað veldur næturvætu, einnig að sum börn hafa litla þvagblöðru og önnur sofi svo fast og að þau finni ekki þegar þvagblaðran dregst saman á nóttunni.
  • Segja barninu að hægt sé að fá aðstoð frá lækni. Talaðu við barnið um að hitta lækni til að ræða meðferð við næturvætu.
  • Ræða við barnið um hvaða meðferðir eru í boði. Vertu viss um að barnið skilji hvað er í boði til að hjálpa því að takast á við næturvætuna t.d. næturþjálfinn, lyf og lífsstílsbreyting. Lyfjameðferð er oft notuð hjá börnum sem eru eldri en 6 ára. Útskýrðu einnig hvaða valkostir virka miðað við aldur barns og hvers er að búast við hverja meðferð.
  • Tala við barnið um að breyta venjum. T.d. fara alltaf á klósettið áður en barnið fer að sofa, forðast koffeindrykki og saltaðan mat, drekka minna á kvöldin. Þetta getur mögulega hjálpað barninu að vera þurrt á nóttunni.
  • Vera hvetjandi. Mundu að hrósa barninu þegar það fylgir meðferðinni við næturvætu sem það hefur valið hvort sem næturnar eru þurrar eða ekki. Mundu að halda ró þinni ef barn vætir rúmið og vera jákvæður.
  • Hvetja barnið að gista hjá vinum ef það sýnir löngun til en þorir ekki. Barn getur gist hjá vinum eða farið í skólaferðalög með því að nota buxur sem draga í sig vökva, lyf og með hjálp annarra foreldra.
  • Tala við barnið um að taka þátt við að skipta um á rúminu ef það vætir rúmið. Með því að deila ábyrgðinni að skipta á rúmi og þvo rúmfötin þá getur það hjálpað barninu að takast á við næturvætuna. Hjálpaðu því að taka þátt og mundu að hrósa barninu fyrir það.
  • Mikilvægt að skamma ekki barn fyrir að missa þvag á nóttunni en í staðinn á að hrósa barni þegar það hefur sofið eina nótt án þess að væta rúmið.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef eftirfarandi er til staðar skaltu leita til heilsugæslunnar sem fyrst:

  • Barn byrjar að bleyta sig á nóttunni eftir að hafa ekki gert það mánuðum saman
  • Önnur einkenni eru til staðar t.d. verkur við þvaglát, hiti eða hægðatregða
  • Vart verður við andlega vanlíðan hjá barninu
  • Næturvætan hefur áhrif á samskipti barnsins við aðra

Finndu næstu heilsugæslu hér.