Fara á efnissvæði

Mótþróaröskun barna

Kaflar
Útgáfudagur

Mótþróaröskun (e. oppositional defiant disorder) einkennist af því að barn er oft reitt, rífst við aðra, sýnir ögrandi hegðun og er hefnigjarnt. Hegðunin veldur skerðingu í samskiptum við jafnaldra, fjölskyldu eða í skóla. Hafa þarf í huga hvort að tíðni og alvarleiki hegðunar sé umfram það sem telst eðlilegt út frá þroska barnsins, kyni og menningu. Umhverfisþættir geta haft áhrif á hegðun barna. Þar má nefna óviðunandi uppeldisaðstæður eða vanrækslu.

Talið er að 1 til 11% barna og unglinga sé með mótþróaröskun. Drengir undir 12 ára eru líklegri en stúlkur til að greinast með mótþróaröskun. Á unglingsaldri er ekki munur eftir kynjum. Á Íslandi hefur mótþróaröskun verið algengasta fylgiröskun ofvirkni með athyglisbresti, ADHD.

Einkenni

Til þess að hegðun barns eða unglings uppfylli greiningarskilmerki fyrir mótþróaröskun þurfa þau að hafa sýnt erfiða hegðun í að minnsta kosti sex mánuði þar sem að lágmarki fjögur af eftirfarandi einkennum koma fram:

  • Ergja fólk vísvitandi
  • Eru hefnigjörn
  • Eru hörundsár eða láta pirrast auðveldlega af öðru fólki
  • Kenna öðrum um eigin mistök
  • Missa reglulega stjórn á skapi sínu 
  • Neita að fara eftir óskum, fyrirmælum og/eða reglum fullorðinna
  • Reiðast auðveldlega og eru full gremju 
  • Rífast við fullorðna

Fyrstu einkenni mótþróaröskunar koma oftast fram á leikskólaaldri og fram að unglingsaldri.

Greining

Í frumgreiningu hjá börnum og unglingum er færni þeirra kortlögð, m.a. með mati á vitsmunaþroska. Auk þess eru lagðir fyrir ýmsir skimunarlistar. Ef frumgreining gefur vísbendingar um einkenni mótþróaröskunar er ástæða til að vísa í frekari greiningu. Í nánari greiningu fer fram frekara mat á einkennum með greiningarviðtölum og stöðluðum matstækjum. Auk þess er farið vel yfir þroska-, heilsufars- og fjölskyldusögu. Einnig er upplýsingum aflað frá leikskóla og/eða grunnskóla.

Greining á mótþróaröskun er unnin í þverfaglegum teymum með starfsfólki sem hefur sérhæfða þekkingu á almennum þroska barna. Mælt er með að í teyminu séu barnalæknar/barna- og unglingageðlæknir, sálfræðingur, auk fleiri fagstétta eftir þörfum eins og félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, sérkennara, talmeinafræðinga og þroskaþjálfa.

Fylgiraskanir

Algengar fylgiraskanir mótþróaröskunar eru m.a.

· ADHD

· Hegðunarröskun

· Kvíðaraskanir

· Lyndisraskanir

· Fíknivandi

Hvað tekur við eftir greiningu?

Þegar einstaklingur hefur fengið greiningu á mótþróaröskun er mikilvægt að einstaklingurinn og aðstandendur fái fræðslu um röskunina og aðferðir sem gætu hentað þeim vel. Ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða er mikilvægt að samvinna á milli heimilis og skóla sé góð og stofnað sé til þjónustuteymis ef slíkt er ekki til staðar. Þá er aðlögun umhverfis jafnframt mikilvæg.

Hvað get ég gert?

Ef grunur vaknar um að barn sé með mótþróaröskun er fyrsta skrefið gjarnan að fá ráðleggingar í nærumhverfi barnsins. Ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða er best að leita til kennara, skólastjóra, skólahjúkrunarfræðings eða sérfræðinga sem geta óskað eftir frumgreiningu hjá sérfræðiþjónustu leikskóla og grunnskóla í sveitarfélaginu. Einnig er hægt að leita til heimilis- eða barnalæknis eða sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Ef athugun leiðir í ljós að nánari greiningar sé þörf er tilvísun send á einhverja af eftirfarandi stofnunum:

Finna næstu heilsugæslustöð.