Mítilborin heilabólga (e. Tick-borne Encephalitis, TBE) er veirusýking sem hefur áhrif á miðtaugakerfið og berst oftast í fólk með biti frá sýktum mítlum. Í flestum tilfellum eru veikindi skammvinn og væg en geta í einstaka tilfellum leitt til alvarlegri lífshættulegra sjúkdóma.
Möguleiki er að smitast af veirunni með að neyta ógerilsneyddra mjólkurvara eins og mjólk eða osta frá sýktum dýrum.
Einkenni
Einkenni byrja venjulega sem mild flensueinkenni 4-28 dögum eftir bit. Veikindi ganga oftast yfir af sjálfu sér á fimm dögum:
Fyrstu einkenni eru flensulík:
- Höfuðverkur
- Hiti - hjá börnum - hjá fullorðnum
- Ógleði
- Uppköst
- Vöðvaverkir
- Þreyta
Flestir ná sér fljótlega af þessum veikindum. Þegar fólk er orðið hraust er þriðjungur þessa hóps í hættu að verða aftur veikt og þá alvarlega. Þau einkenni koma ekki fram fyrr en viku eftir að fólk hefur náð bata eftir fyrri veikindin:
- Skyndileg og mikil hitahækkun
- Flogaköst
- Heilahimnubólga
- Heilabólga
Orsök og smitleiðir
Veiran berst með sýktum mítlum. Mítlarnir finnast í skóg- og graslendi en geta einnig verið í görðum.
Veiran sem mítillinn getur borið er flavoveira en nokkur tilbrigði eru til af henni. Veiran er svæðisbundin og liggur eins og belti um:
- Flest lönd Evrópu þar með talið norðurlöndin
- Rússland
- Ákveðin landsvæði í Kína og Japan
Útbreiðsla blóðmítla fer vaxandi. Dánartíðni er hærri eftir bit sýktra mítla í Kína og Japan en öðrum svæðum og alvarlegar langtíma afleiðingar á taugakerfið eru einnig algengar þar.
Mítilborin heilabólga sé ekki algengur sjúkdómur en ferðamenn í aukinni hættu á sýkingu ferðist þeir um skóglendi á svæðum þar sem sjúkdómurinn er landlægur.
Greining
Tímasetning á ferðalagi og bitum hjálpar mikið til við greiningu þar sem einkenni sjúkdóma af völdum sýktra mítla koma fram innan ákveðins dagafjölda frá biti. Til að greina hvaða afbrigði af flavoveirunni um ræðir eru gerðar blóðrannsóknir.
Meðferð
Engin ákveðin lyfjameðferð er til gegn mítilborinni heilabólgu og felst því meðferð aðallega í að draga úr einkennum sjúkdóms og bæta líðan. Sjúkrahúsinnlögn kann að vera nauðsynleg og jafnvel innlögn á gjörgæslu í alvarlegum tilfellum.
Forvarnir
Það er mikilvægt að fólk sé meðvitað um hættuna á sýkingu á ferðalögum þar sem sjúkdómur er landlægur. Forvarnir beinast fyrst og fremst að því að forðast bit frá skógarmítlum.
- Bólusetning gegn blóðmítlaheilabólgu er möguleg fyrir þau sem hyggja á ferðalög á svæðum þar sem sjúkdómur er þekktur. Huga þarf að bólusetningu tímalega.
- Mælt er með notkun skordýravarna og viðeigandi fatnaði eins og hnéháum sokkum og hatti á hættusvæðum.
- Forðast neyslu á ógerilsneyddum mjólkurvörum.
- Skoða allan líkamann fyrir mítlum reglulega, sérstaklega að lokinni útivist um skóglendi. Lirfaform mítla eru örsmáar og erfitt að sjá þar sem þeir geta verið á stærð við freknu. Þegar mítlar hafa tekið blóð í sig verða þeir stærri jafnvel eins og kaffibaun. Mítlar geta fest sig hvar sem er á líkama fólks en algengir staðir eru handarkrikar, hnésbót, olnbogabót, nári og hárlínur.
Hvað get ég gert?
Fjarlæga mítla eins fljótt og auðið er með fíngerðri töng. Til eru sérstakar mítlatangir í stórmörkuðum og lyfjaverslunum.
Finni fólk fyrir einkennum og það er statt eða nýkomið frá svæði þar sem mítilborin heilabólga er landlægur sjúkdómur er ráðlagt að hafa samband við næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku.