Fara á efnissvæði

Mislingabróðir

Kaflar
Útgáfudagur

Mislingabróðir (e. roseola) orsakast af veiru sem kallast herpesveira 6 og einstaka sinnum er sýkingin af völdum herpesveiru 7. Hann kemur venjulega fram hjá börnum yngri en tveggja ára og er oftast vægur og nánast allir jafna sig án sérstakrar meðferðar. Sjúkdómurinn skilur eftir sig ævilangt ónæmi.

Einkenni

Einkenni sjúkdómsins koma fram um 1-2 vikum frá smiti. Veikindin byrja venjulega með 39-40°C hita sem varir að jafnaði í þrjá til fimm daga. Þegar hitinn lækkar koma útbrot. Meðgöngutími er ein til tvær vikur. Algeng einkenni eru:

• Hár hiti - hjá börnum - hjá fullorðnum
• Ljósbleik útbrot á maga, brjósti og baki
Útbrot án kláða
• Nefrennsli
• Hálssærindi
• Eitlastækkanir á hálsi
• Minnkuð matarlyst

Útbrotin eru bleikleit og koma vanalega fyrst fram á brjóstkassa, maga og baki, en dreifast síðan á háls, andlit og handleggi. Útbrotin dofna og hverfa á nokkrum dögum og stundum á nokkrum klukkustundum. Útbrotunum fylgir vanalega ekki kláði. Mörg börn fá sjúkdóminn án teljandi einkenna.

Smitleiðir

Veiran berst auðveldlega á milli manna með úðasmiti þegar smitað fólk hóstar eða hnerrar í umhverfið. Smithætta er mest nokkrum dögum áður en útbrot koma fram og því erfitt að komast hjá smiti.

Greining

Venjulega þarf ekki að fara með barn til læknis vegna mislingabróður nema einkenni séu þeim mun alvarlegri. Stundum eru gerð veirupróf til að útiloka aðra sjúkdóma.

Meðferð

Engin sérstök meðferð er til gegn veirunni en sjúkdómurinn læknast af sjálfu sér á nokkrum dögum.

Hvað get ég gert?

  • Nota hitalækkandi lyf eins og parasetamól 
  • Tryggja næga hvíld
  • Til að koma í veg fyrir þurrk þarf að gæta þess að börnin drekki vel

Flest börn jafna sig innan viku frá því að hitinn byrjar. Þegar almennt ástand er orðið gott og barnið hefur verið hitalaus í sólarhring án hitalækkandi lyfja getur barnið farið á leikskóla þrátt fyrir að útbrot séu enn til staðar.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu á næstu heilsugæslu ef:

  • Barnið er 3 til 6 mánaða og hefur hita 39°C eða hærra
  • Hiti hefur varað lengur en í 5 daga
  • Barn er ólíkt sér og þú hefur áhyggjur
  • Hiti lækkar ekki þrátt fyrir hitalækkandi lyf

Mikilvægt er að leita til læknis ef einstaklingur er ónæmisbældur og hefur verið nálægt einhverjum sem er með mislingabróður.

Leitaðu á næstu bráðamóttöku ef barnið hefur eftirfarandi einkenni:

  • Barnið er undir 3 mánaða aldri og er með hita 38°C eða hærra
  • Barn sýnir einkenni ofþurrks – vætir ekki bleyju, sokkin augu eða tár koma ekki þegar barnið grætur
  • Blá, fölleit og flekkótt húð, varir eða tunga
  • Erfiðleikar við öndun, mæði eða andar ört
  • Óáttað, ólíkt sjálfu sér og/eða talar óljóst
  • Útbrot fölna ekki þegar þú rúllar glasi yfir þau

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku.