Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Mígreni

Kaflar
Útgáfudagur

Mígreni (e. migraine) er algeng tegund höfuðverks sem kemur oft í sárum köstum, jafnvel með æðaslætti. Verkurinn varir oftast í nokkrar klukkustundir. Verknum fylgir gjarnan ógleði og ljósfælni. Höfuðverkurinn er oftast öðrum megin í höfðinu eða í enni. Höfuðverkurinn getur aukist við líkamlega áreynslu og getur hamlað daglegum athöfnum. Eftir mígrenikast finnur fólk oft fyrir mikilli þreytu og slappleika. Mígrenisköstum fer oft fækkandi með hækkandi aldri. Mígreni getur hins vegar aukist á breytingaskeiði kvenna.  

Flokka má mígreni í þrjá flokka:

  • Mígreni með fyrirboða – fyrirboði er ákveðin einkenni sem koma fram stuttu áður en höfuðverkurinn byrjar, svo sem að sjá eldglæringar
  • Mígreni án fyrirboða – algengasta tegundin þar sem höfuðverkurinn kemur skyndilega án einhvers fyrirboða
  • Blandað mígreni – mígreni með fyrirboða án höfuðverks, einkenni fyrirboða koma án þess að höfuðverkurinn fylgi á eftir. Þessi tegund er algengari meðal eldri einstaklinga.

Mígreni er algengara meðal kvenna en karla. Ein af hverjum fimm konum upplifa mígreni og um einn af hverjum fimmtán körlum. Fyrsta mígrenikastið kemur oft í kringum kynþroskaaldurinn. 

Börn geta einnig fengið mígreni, en það er ekki algeng. Oftast eru mígreniköst hjá börnum stutt og mild. 

Orsakir mígrenis eru óþekktar. Talið að tímabundnar truflanir á flóknu samspili efnaskipta í heilanum, tauga – og æðakerfisins heilans geti valdið því.  Mígreni getur verið arfgengt.

Einkenni

Einkenni mígrenis geta verið mis mikil. Það getur varað mislengi en yfirleitt stendur það yfir í nokkrar klukkustundir en getur þó staðið yfir í allt að einn til þrjá sólarhringa. Í sumum tilfellum finnst höfuðverkurinn báðum megin í höfðinu og leiðir jafnvel út í andlit og niður í háls. Oft er mígrenihöfuðverk lýst sem slætti.  

Einkenni mígrenis eru misjöfn á milli einstaklinga og geta varað í mislengi, frá nokkrum klukkustundum upp í þrjá sólarhringa.

Um 25% einstaklinga fær fyrirboða (aura) sem getur varað frá 5-60 mínútum og eru einkenni hans eftirfarandi:

  • Sjónræn truflun, s.s. sjá eldglæringar
  • Náladofi
  • Svimi og ójafnvægi
  • Taltruflun

Algengustu einkennin eftir fyrirboðann eru:

  • Höfuðverkur - Í 70% tilvika er hann öðru megin í höfðinu en um 30% finna fyrir honum báðum megin í enni eða öllu höfðinu. Mis slæmur eftir einstaklingum.
  • Ógleði og uppköst
  • Ofurnæmi fyrir lykt, ljósi og hljóði
  • Slappleiki

Eftirfarandi einkenni geta einnig komið fram í mígrenikasti:

  • Úthaldsminnkun og erfiðleikar með einbeitingu
  • Stífir hálsvöðvar
  • Skapbreytingar
  • Hægðatregða
  • Dapurleiki

Hvað get ég gert?

Ekki er til nein lækning við mígreni en eftirfarandi ráð geta linað einkennin

  • Verkjalyf, t.d. paracetamól eða íbúprófen sem fást án lyfseðils í apóteki geta verið hjálpleg í vægum köstum
  • Það getur verið hjálplegt að byrgja fyrir birtu inn í herbergið þar sem viðkomandi er
  • Hvílast í hljóðlátu og myrkvuðu herbergi

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu til heilsugæslunnar ef eitthvað af eftirfarandi kemur fram:

  • Læknir getur ávísað öðrum lyfjum sem gagnast oft vel við mígreni
  • Einkenni minnka ekki innan 4 daga á verkjalyfjum
  • Einkenni aukast
  • Áhyggjur af líðan

Leitaðu til bráðamóttöku ef eitthvað af eftirfarandi kemur fram:

  • Skyndilegt þróttleysi eða doði í öðrum helming líkamans
  • Óskýrt eða drafandi tal
  • Skyndilegur kvalafullur höfuðverkur, ólíkur fyrri höfuðverkjum
  • Höfuðverkur samhliða háum hita, stífleika í hnakka, skertri meðvitund, flog, tvöfaldri sýn og útbroti.

Þessi einkenni geta mögulega verið merki um alvarleg veikindi, svo sem heilablæðingu eða heilahimnubólgu. Læknir þarf að meta þau eins fljótt og mögulegt er.

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku.

Forvarnir

Áhrifaþættir sem geta kallað fram mígreni eru mjög einstaklingsbundnir. Oft getur verið gagnlegt að halda dagbók til að gera sér grein fyrir áhrifaþáttunum. Með því að þekkja áhrifaþættina er hægt að reyna að forðast þá eða draga úr þeim þannig að áhrif þeirra verið eins lítil og mögulegt er.

Ef tengsl eru milli mígrenikasta og tíðarblæðinga eru mígreniköstin tiltölulega fyrirsjáanleg og mögulega hægt að koma í veg fyrir þau með fyrirbyggjandi meðferð. Þá er annað hvort um að ræða lyfjameðferð án hormóna eða hormónalyfjameðferð.

Þættir sem dregið geta úr líkum á mígrenikasti:

Þættir sem meðal annars geta framkallað mígreni:

  • Breytingar á tilfinningum svo sem; streita, kvíði, spenna, þunglyndi
  • Hormónabreytingar; sumar konur tengja mígreni við tíðarhringinn
  • Matur og drykkir til dæmis óreglulegar máltíðir, ónóg vökvainntaka
  • Áfengi
  • Koffíndrykkir, svo sem te og kaffi
  • Súkkulaði
  • Sítrus ávextir
  • Langvarandi líkamleg áreynsla
  • Truflun/breyting á svefnmynstri
  • Skær birta
  • Reykingar
  • Mikill hávaði