Meðgöngueitrun (e. pre-eclampsia) er sjúkdómur sem getur komið fram eftir 20. vikna meðgöngu og lýsir sér með hækkuðum blóðþrýstingi og eggjahvítu í þvagi. Oft finna konur engin einkenni og er því skimað fyrir sjúkdómnum í mæðraverndinni með því að mæla blóðþrýsting og rannsaka þvag.
Meðgöngueitrun er algeng en 2-8 af hundrað barnshafandi konum greinast með sjúkdóminn. Oftast er sjúkdómurinn vægur og hefur lítil áhrif á meðgönguna en um 1 af hverjum 200 barnshafandi konum fá alvarlega meðgöngueitrun sem getur verið lífshættuleg fyrir þær og ófædda barnið.
Alvarleg meðgöngueitrun getur truflað starfsemi nýrna, lifrar eða blóðstorkukerfisins. Hún getur haft áhrif á fylgjuna þannig að barnið vaxi ekki eðlilega og/eða legvatnið minnki.
Einkenni
Konur finna oft engin einkenni um meðgöngueitrun (e. preeclampsia) en fyrstu einkennin eru mælanleg því þau koma fram í hækkuðum blóðþrýstingi og eggjahvítu í þvagi. Þessir þættir eru því skoðaðir í mæðraverndinni.
Einkenni alvarlegrar meðgöngueitrunar geta verið:
- Höfuðverkur sem lagast ekki við að taka væg verkjalyf.
- Sjóntruflanir svo sem þokusýn eða eldglæringar.
- Sár verkur undir rifjaboga.
- Brjóstsviði/flökurleiki sem lagast ekki við að taka sýrubindandi lyf.
- Skyndilegur bjúgur í andliti, höndum og/eða fótum.
- Skyndileg mikil vanlíðan.
Þessi einkenni geta verið alvarleg á meðgöngu og ætti að hafa strax samband við heilsugæslu eða fæðingarstofnun utan dagvinnutíma ef þeirra verður vart.
Aukin áhætta
Meðgöngueitrun getur komið fram í öllum meðgöngum en konur eru í meiri hættu ef:
- Blóðþrýstingur er hár fyrir þungun.
- Kona fékk meðgöngueitrun á fyrri meðgöngu.
- Kona er með nýrnasjúkdóm, sykursýki eða sjálfsofnæmisjúkdóm eins og rauða úlfa (Lupus).
Aðrir áhættuþættir eru ekki eins skýrir en þó er meðgöngueitrun líklegri hjá konum sem :
- Ganga með sitt fyrsta barn.
- Eru 40 ára eða eldri.
- Hafa ekki gengið með barn í meira en 10 ár.
- Eru í mikilli yfirþyngd, líkamsþyngdarstuðull 35 eða meira.
- Eiga móður eða systur sem fengu meðgöngueitrun.
- Ganga með fleira en eitt barn.
Ef eitthvað af þessu á við er mælt með því að konur taki inn lágskammta aspirín (hjartamagnyl) frá 12. viku meðgöngu og fram að fæðingu til þess að draga úr hættunni á að þær fái meðgöngueitrun.