Malaría (e. Malaria) smitast með sníkjudýri sem berst í fólk með biti frá sýktri moskítóflugu. Malaría berst ekki manna á milli. Sjúkdómurinn finnst ekki hér á landi en er landlægur í ákveðnum heimshlutum. Sjúkdómurinn er lífshættulegur ef ekkert er að gert.
Einkenni
Einkenni koma oftast fram 6-18 dögum eftir smit. Þau geta byrjað sem væg almenn einkenni en versnað fljótt, helstu einkenni eru:
- Hár hiti og kuldahrollur
- Höfuðverkur
- Gulleit húð og augnhvíta
- Lystarleysi
- Hálssærindi, andþyngsli og hósti
- Kviðverkir og niðurgangur
- Ruglástand
- Vöðvaverkir
- Þreyta
Orsakir og smitleiðir
Sýktar moskítóflugur geta borið sjúkdóminn í fólk með biti. Það getur tekið aðeins eitt bit til að veikjast. Sjúkdómurinn berst ekki á milli manna. Sýkingin er þekkt í ákveðnum heimshlutum og þá sérstaklega hitabeltissvæðum við miðbaug:
- Dóminíska lýðveldinu og Haítí
- Hluta Afríku og Asíu, við miðbaug
- Hluta miðausturlanda
- Sumum eyjum Kyrrahafs
Greining
- Blóðprufur eru aðallega notaðar til greiningar þar sem leitað er eftir sníkjudýrum
- Farið er yfir einkenni, sögu og ferðalög einstaklings
Meðferð
Malaría krefst alltaf lyfjameðferðar. Mismunandi lyf koma til greina og fer lyfjagjöf t.d. eftir tegund malaríu og aldri einstaklings.
Sjúkrahúsinnlögn getur verið nauðsynleg.
Snemmgreining og meðferð dregur úr einkennum og kemur í veg fyrir dauðsföll.
Forvarnir
- Ráðfæra sig við heimilislækni hvort æskilegt sé að taka inn fyrirbyggjandi malaríulyf fyrir ferðalög á hitabeltissvæði.
- Forðast moskítóbit t.d. vera í síðbuxum og langermabol. Vanda gististaði, hafa net í gluggum og loftræstingu á svefnstað.
- Nota varnir gegn moskítóbiti, áburð og sprey.
- Sérstaklega þarf að huga að vörnum hjá eldra fólki, þunguðum konum, ungum börnum og fólki með skert ónæmiskerfi.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Ef hiti eða önnur ofangreindra einkenna koma fram á meðan eða eftir dvöl til landsvæða þar sem malaría er landlæg.
Til er fyrirbyggjandi lyf í töfluformi sem einnig er notað til meðferðar við malaríusýkingar í blóði.
Val á lyfjagjöf fer eftir hvar og hversu lengi er verið að dvelja á svæði þar sem malaría er algeng.
Lyfin eru lyfseðilsskyld og þarf að panta skal tíma hjá heimilislækni til að fá ráðleggingar og leiðsögn um fyrirbyggjandi lyfjameðferð.