Lúsmý er agnarsmá fluga sem getur verið erfitt að greina með berum augum. Lúsmý heldur sig þar sem er skjól og skuggi. Það leggst til atlögu að nóttu til og verður fólk því ekki vart við bitin fyrr en kláði og bólga koma fram. Bitin eru ekki hættuleg en geta valdið talsverðum óþægindum sérstaklega ef þau eru mörg.
Hvað get ég gert?
- Kaldir bakstrar minnka bólgur og draga úr óþægindum
- Klóra ekki húðina, það getur aukið hættu á sýkingu
- Kælikrem og smyrsli sem draga úr kláða er hægt að nálgast í apótekum
- Ofnæmislyf draga úr bólgu og kláða
- Verkjalyf geta dregið úr verkjum og óþægindum
- Væg sterakrem geta dregið úr einkennum. Slík krem fást í apótekum án lyfseðils. Sterakrem eru ekki ætluð til langtímanotkunar eða á stór húðsvæði
Forvarnir
- Bera á sig krem eða úða sem fælir skordýr í burtu. Mælt er með vörum sem innihalda DEET. Börn eiga ekki að nota vörur sem innihalda meira en 10% DEET
- Hafa viftu í gangi að næturlagi til að koma hreyfingu á loftið. Þá getur lúsmýið ekki athafnað sig
- Klæðast langerma bol og síðum buxum í ljósaskiptum
- Loka öllum gluggum vel fyrir nóttina og setja þétt flugnanet fyrir glugga til þess að koma í veg fyrir að lúsmý komist inn í híbýli
- Sofa í náttfötum og sokkum til að hylja húðina
Hvenær skal leita aðstoðar?
Við alvarlegum ofnæmiseinkennum eins og öndunarerfiðleikum, bólgu á hálsi, svima, hröðum hjartslætti eða meðvitundarskerðingu á strax að leita á bráðamóttöku eða hringja í 112.
Ef útbrot minnka ekki á nokkrum dögum eða versna er ráðlagt að leita til heilsugæslunnar. Það sama á við ef fólk fær flensulík einkenni, einkenni sýkingar í útbrotin og/eða bólgna eitla.