Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Lin börn

Kaflar
Útgáfudagur

Til að örva hreyfiþroska er gott að barn fái að hreyfa sig frjálst á gólfi. Eftirfarandi æfingar/leikir miða að því að styrkja barn almennt, auka úthald þess og hjálpa því til að fara að hreyfa sig um. Ekki er ætlast til að barn geri æfingarnar allar í hvert sinn og röð þeirra skiptir ekki máli. Mikilvægt er að notfæra sér forvitni barnsins til að spinna leik inn í æfingarnar og spreyta sig þannig á að nota hendurnar í leiðinni.

Gera æfingarnar að leik. Hrósa og hvetja barnið til dáða. 

Tillögur að æfingum fyrir lin börn

  • Ef barn er lint í hrygg og axlarvöðvum er gott að það liggi sem mest á maganum og fái að spreyta sig þannig í leik undir eftirliti. Með því að styðja létt við rass barnsins og halda undir bringu má aðstoða barn við að sperra sig upp og lyfta höfði. 

Skýringarmynd við æfingu

  • Það eru margar leiðir við að hvetja barn til dáða. Leggja má barn yfir sundbolta. Velta má boltanum mjúklega fram og aftur og til hliðanna til að reyna á mismunandi vöðva. Þessi æfing styrkir axlar- og hryggvöðva og örvar jafnvægisviðbrögð.  

Skýringarmynd með æfingu

  • Til að styrkja handleggi og efri hluta líkamans er barni velt yfir sívaling þannig að það taki þunga á handleggina. Þetta verður auðveldara fyrir eftir því sem haldið er ofar á líkamanum, auðveldast ef haldið er um mitti eða mjaðmir. Það má líka notað annað lærið á sér í sama tilgangi. Sívaling má kaupa í íþróttavörubúðum eða útbúa þannig að þykku handklæði er rúllað þétt upp og plástrað saman. 

Skýringarmynd með æfingu

  • Það má líka halda á barninu þannig að það kræki fótum um mittið á þeim sem heldur á því. Haldið er undir kvið eða brjóstkassa og þá getur það sperrt sig upp til að styrkja bakið. Ef staðið er fyrir framan borð getur barnið stutt sig á beina arma til að styrkja handleggi og axlarvöðva. Þetta verður erfiðara eftir því sem haldið er neðar á líkamanum. 

Skýringarmynd með æfingu

  • Það er auðveldara fyrir barnið að liggja yfir upprúlluðu handklæði, skápúða eða pullu þegar það leikur sér á gólfinu. Þá á það hægara með að lyfta höfðinu upp og kíkja í kringum sig. Setjið leikföng fyrir framan barnið og sitt hvoru megin við það. Það hvetur barnið til hreyfinga.  

Skýringarmynd með æfingu

  • Aðstoðið barn við að velta sér til beggja hliða á gólfinu, af baki yfir á maga og af maga og yfir á bak. Notið hægar hreyfingar svo barnið geti tekið þátt. 

Skýringarmynd með æfingu

  • Til þess að hvetja barn til að fara upp á fjóra fætur má setja það yfir pullu og beygja undir það hnén svo það taki þunga á bæði hné og beina arma. 

Skýringarmynd með æfingu

  • Þegar barn er lengra komið, má hjálpa því með að taka þunga á iljarnar á meðan það liggur yfir pulluna, aðra í einu eða báðar í senn.  

Skýringarmynd með æfingu

  • Leyfa barni að sitja í kjöltu og spreyta sig á því að halda sér uppi án þess að styðja við búk eða hafa barn alveg upp við sig. Best er að það hafi báðar iljar þétt í gólfi og stutt sé á hnén á því þannig að þrýstingur á fótleggi komi niður á iljarnar. 

Skýringarmynd með æfingu

  • Það má leyfa barni að sitja á pullu með iljar í gólfi og styðja sig á hendurnar fram á við um leið. Ekki veita of mikinn stuðning við bakið. 

Skýringarmynd með æfingu

  • Að sitja í „hafmeyjarstöðu" bæði til hægri og vinstri gefur barninu kost á að bera fyrir sig hendurnar til hliðanna. Hjálpið barninu að rétta úr olnboganum og hvetjið það til að leika sér með hinni hendinni. Þetta er undanfari þess að barnið fari úr sitjandi stöðu yfir á magann, að skríða og setjast upp aftur.

Skýringarmynd með æfingu

  • Sitja með barnið í kjöltunni og hallið því fram á við þannig að það verði að bera fyrir sig hendurnar til að detta ekki á nefið. Það er styrkjandi fyrir bak og handleggi og er undanfari þess að barnið geti farið að reisa sig sjálft upp frá gólfi. Þegar barn hefur getu og þroska má hjálpa því að krjúpa upp við lágan stall, pullu eða ykkur sjálf til að auka jafnvægi kringum mjaðmirnar og auka styrk og úthald í uppréttri stöðu.

Skýringarmynd með æfingu

  • Til að barnið fái tilfinningu fyrir að stíga í fæturna, má hvetja það til að lyfta rassinum úr skriðstöðu og ýta sér upp með höndunum til að standa. Gott er að halda við mjaðmir barnsins til að veita hæfilegan stuðning. Þetta eflir stöðugleika í mjöðmum, öxlum og baki auk þess sem það ýtir undir jafnvægisviðbrögð og tilfinningu fyrir að vera í uppréttri stöðu. 

Skýringarmynd með æfingu