Lengt QT bil (e. Long QT syndrome) er truflun í rafleiðni hjartans og veldur því að lengri tíma tekur fyrir slegla hjartans að dragast saman og slaka á aftur. Misjafnt er hvort eða hversu mikið einstaklingar finna fyrir einkennum vegna kvillans en heilkennið getur aukið líkur á hjartastoppi.
Einkenni
Margir eru einkennalausir og sjúkdómurinn greinist fyrir tilviljun þegar einstaklingur fer í hjartalínurit af annarri ástæðu.
Ef heilinn fær ekki það blóðflæði sem hann þarf á að halda getur það valdið tvenns konar einkennum:
- Yfirlið
- Flog
Aðal ástæða fyrir einkennum er sú að hjartað slær ekki á fullnægjandi hátt í stutta stund og veldur þar með skerðingu á blóðflæði til heilans.
Önnur einkenni sem einstaklingar geta fundið fyrir með þennan kvilla:
- Hjartsláttarónot eða hjartsláttaróregla
Algengast er að lengt QT bil standi yfir í stutta stund og hjartað fari síðan aftur að slá á eðlilegan hátt. Hins vegar getur þessi kvilli verið hættulegur ef hjartað slær á ófullnægjandi hátt til lengri tíma. Það getur þurft að leita til læknis til þess að komast í eðlilegan takt aftur.
Orsakir
- Erfðir
- Lyf
Lengt QT bil er kvilli sem erfist oftast frá foreldri til barns. Aðrar orsakir sem geta valdið lengdu QT bili eru ýmsar gerðir lyfja, sérstaklega milliverkanir hjá lyfjum. Algengast er þó að einstaklingur hafi tilhneigingu til þess að fá sjúkdóminn og lyfjagjöf magnar einkennin.
Einkenni geta komið fram fyrirvaralaust en ákveðnir þættir geta einnig aukið líkur á þeim:
- Erfiðar líkamsæfingar
- Lágur hjartsláttur í svefni
- Skyndilegur hávaði t.d. viðvörunarbjalla
- Streita
Greining
- Áreynslupróf
- Blóðprufa
- Hjartalínurit
- Hjartasírit eða holter rannsókn (sólarhrings hjartsláttarmæling)
- Genaskoðun (fyrir greiningu gens sem veldur lengdu QT bili í fjölskyldum)
Meðferð
- Gangráður eða bjargráður
- Leiðrétta saltbúskap í líkamanum
- Lyfjameðferð eða fyrri lyfjameðferð endurskoðuð
- Rafvending
Hvað get ég gert?
- Finna hvaða hreyfing er ákjósanleg, erfið líkamsrækt eða erfiðis vinna getur aukið líkur á einkennum.
- Huga að áreiti, mikil streita og hávaði getur valdið einkennum.
- Ræða við lækni áður en ný lyf eru tekin. Einstaklingar með lengt Q-T bil þola illa ýmis lyf þar sem þau geta valdið meiri lengingu á Q-T bili.
- Huga vel að vökvainntöku. Koma í veg fyrir þurrk.
- Huga að saltbúskap í líkamanum í veikindum eins og uppköstum eða niðurgangi. Drekka íþróttadrykki með söltum eða taka inn saltfreyðitöflur.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leita á heilsugæslustöð ef:
- Fjölskyldusaga um lengt QT bil
- Hjartsláttarónot
- Óútskýrður svimi
Leita á næstu bráðamóttöku ef:
- Flog
- Hjartsláttaróregla
- Yfirlið og hjartsláttarónot