Fara á efnissvæði

Lekandi

Kaflar
Útgáfudagur

Lekandi (e. Gonorrhoea) er kynsjúkdómur sem orsakast af bakteríunni Neisserie gonerroheae. Bakterían tekur sér bólfestu í slímhúð kynfæra, þvagrás, endaþarmi eða hálsi.

Einkenni

Einkenni koma oftast fram 1-7 dögum eftir smit en geta komið fram síðar. Fólk getur verið einkennalaus en helstu einkenni eru:

  • Breyting á útferð, þykk, græn eða gulleit útferð, hvort sem það er frá leggöngum eða typpi
  • Milliblæðingar eða auknar tíðarblæðingar hjá konum  
  • Sársauki við þvaglát
  • Verkur í grindarholi
  • Þrútin forhúð hjá karlmönnum og verkur í eistum

Lekandi getur valdið ófrjósemi hjá konum og körlum. 

Smitleiðir

Sjúkdómurinn smitast við óvarin kynmök. Algengast er að lekandi greinist í leggöngum, endaþarmi eða þvagrás. Sjúkdómurinn getur smitast í háls við munnmök.

Smit getur einnig orðið í fæðingu og valdið augnsýkingu hjá nýburum

Greining

  • Greining fer fram með að taka strok frá kynfærasvæði og stundum er einnig tekið strok frá hálsi og/eða endaþarmi. Einnig er skilað inn þvagsýni.
  • Til að fá áreiðanlegar niðurstöður þurfa að líða minnst 10 dagar frá mögulegu smiti þar til sýni er tekið.

Meðferð

  • Meðferð fellst í sýklalyfjakúr
  • Þremur vikum eftir meðferð við lekanda þarf að skila nýju sýni (þvagsýni eða stroki) til að staðfesta að sjúkdómurinn sé farinn.
  • Ekki er ráðlagt að stunda kynlíf frá því grunur vaknar um lekandasmit og þar til niðurstöður úr seinni sýnatöku liggja fyrir.

Forvarnir

Hægt er að koma í veg fyrir smit með því að:

  • Nota smokk í hvert skipti sem eru stunduð kynmök.  
  • Deila ekki kynlífstækjum með öðru fólki eða að gæta fyllsta hreinlætis þegar slíkt er gert s.s. þvo tækin vel og/eða setja smokk yfir þau.  
  • Ef móðir er með lekandi við fæðingu er hætta á að barnið smitist. Því er mikilvægt að fá meðferð við sjúkdómnum fyrir fæðingu. 

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef grunur er um lekanda eða ef óskað er eftir að láta skima fyrir kynsjúkdómum er hægt að bóka tíma á heilsugæslu eða hjá göngudeild kynsjúkdóma Landspítalans í síma 543-6050 eða á smáforriti Landspítalans. 

Finna næstu heilsugæslu