Margar konur finna fyrir þurrki í leggöngum einhvern tímann á lífsleiðinni. Þurrkur í leggöngum stafar oft af skorti á kvenhormóninu estrógeni og því er algengt að konur finni fyrir þessum einkennum eftir tíðahvörf. Hætta á leggangaþurrki eykst hjá konum:
- Ef eggjastokkar hafa verið fjarlægðir
- Með barn á brjósti
- Í krabbameinslyfjameðferð
- Sem taka ýmis lyf sem hafa áhrif á hormónabúskapinn, eins og ákveðin getnaðarvarnalyf (Depo-Provera) eða lyf sem notuð eru til að meðhöndla legslímuflakk
Einkenni
Einkenni geta verið ólík eftir konum en þau geta verið:
- Kláði eða eymsli í leggöngum eða við leggangaopið
- Óþægindi eða sársauki við samfarir
- Tíðari þvaglát
- Tíðari þvagfærasýkingar
Meðferð
- Sleipiefni
- Rakagefandi krem og/eða stílar
- Lyfjameðferð
Ef einkennameðferð virkar ekki getur verið mælt með að nota lyfseðilsskyld krem, stíla eða hringi sem innihalda estrógen og er komið fyrir í leggöngunum. Kremin og stílana þarf yfirleitt að nota daglega í tvær vikur til að byrja með og síðan tvisvar í viku eftir það til þess að viðhalda raka í leggöngunum. Hringurinn virkar hins vegar þannig að hann er settur hátt upp í leggöng þar sem hann er í þrjá mánuði í senn uns þörf er á að skipta honum út fyrir nýjan.
Hvað get ég gert?
- Sleipiefni mýkja slímhúð legganganna og minnka núning, sem leiðir til minni óþæginda við samfarir. Mælt er með því að nota vatnsleysanleg- eða sílíkon sleipiefni þegar þau eru notuð með smokkum og öðrum latex getnaðarvörnum. Sleipiefni eru ýmist borin inn í leggöng, við leggangaopið eða sett beint á lim eða fingur bólfélagans. Fást án lyfseðils
- Rakagefandi krem og stílar halda raka betur í leggöngunum og þarf öllu jöfnu að nota nokkrum sinnum í viku. Venjuleg rakakrem henta ekki til notkunar á viðkvæma slímhúð legganganna. Rakagefandi efni fást án lyfseðils í apótekum.
- Forðist að nota sápur og aðrar hreinsivörur á kynfærin sem innihalda ilmefni, sjá nánar um hreinlæti kynfæra kvenna.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Ef eftirfarandi einkenni eru til staðar þrátt fyrir notkun sleipiefna eða rakagefandi efna í nokkrar vikur skal hafa samband við heilsugæsluna:
- Kláði
- Erting
- Sársauki í leggöndum
- Blæðing við samfarir