Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Kynsjúkdómar

Kaflar
Útgáfudagur

Kynsjúkdómar smitast við kynmök og stafa af örverum á borð við bakteríur, veirur eða lýs. Kynsjúkdómar sem orsakast af bakteríum eða lúsum er oftast hægt að lækna með lyfjum. Aftur á móti eru kynsjúkdómar sem orsakast af veirum oftast ólæknandi og einungis hægt að draga úr einkennum og hindra framgang þeirra tímabundið. 

Einkenni

Hafa þarf í huga að einstaklingar geta verið einkennalausir og því er mikilvægt að fara í skoðun ef grunur er um smit. Helmingur þeirra sem fá kynsjúkdóm vita ekki að þau eru smituð þar sem þau finna ekki fyrir neinum einkennum. Hér að neðan eru dæmi um almenn einkenni kynsjúkdóma: 

  • Sár á kynfærum
  • Útferð úr typpi eða leggöngum
  • Verkir og sviði við þvaglát  

Algengi

Algengustu kynsjúkdómar á Íslandi eru klamydía, kynfæraáblástur og kynfæravörtur/HPV. Sjaldgæfari eru lekandi, HIV og alnæmi, lifrarbólga B, sárasótt, tríkómónas sýking, flatlús og kláðamaur

Greining

Ef óskað er eftir að láta skima fyrir kynsjúkdómum er hægt að bóka tíma á heilsugæslu eða hjá göngudeild húð- og kynsjúkdóma Landspítalans eða á smáforriti Landspítalans. 

Smitleiðir

  • Kynsjúkdómar smitast milli einstaklinga við kynmök þ.e. leggangamök, munnmök eða endaþarmsmök. Það eru örverur sem valda þessum sjúkdómum og berast á milli einstaklinga í gegnum slímhúðir líkamans sem eru meðal annars í leggöngum, endaþarmi, munni og augum. 
  • Hægt er að smitast af kynsjúkdóm með óhreinum nálum 
  • Óhreinum kynlífstækjum ef þeim er deilt milli einstaklinga. Sjá nánar Örugg hjálpartæki ástarlífsins.   
  • Kynsjúkdómar smitast ekki af klósettsetum, sundlaugum, kossum eða faðmlagi. 
  • Sýkt móðir getur smitað barn sitt við fæðingu eða brjóstagjöf.

Fyrir þau sem stunda kynmök er eina vörnin gegn kynsjúkdómum að nota smokk og mikilvægt er að nota hann rétt. Fólk í nýjum samböndum sem haft hefur kynmök við aðra ætti að láta athuga hvort bæði séu laus við kynsjúkdóm áður en stunduð eru kynmök án smokks.

Hvað get ég gert?

  • Kynsjúkdómar eru þess eðlis að hægt er að draga stórlega úr líkum á að fá þá með því að nota smokk.  Því er mikilvægt að velja vel þá sem kynmök eru höfð við og nota smokkinn ef á þarf að halda.
  • Fara í kynsjúkdómatest ef minnsti grunur vaknar um mögulegt smit. Ekki stunda kynmök með öðrum einstaklingum þar til er komin neikvæð niðurstaða. 
Taka ábyrgð

Hver og einn getur með ábyrgri hegðun haft mikil áhrif á hvort hann smitast af kynsjúkdómi. Það eru einkum þrír þættir sem hafa ber í huga

  • Notaðu smokkinn þegar þú hefur kynmök við þá sem þú þekkir lítið eða þá sem þú telur að hafi haft mök við marga.
  • Vandaðu valið á bólfélaga. 
  • Ef þú velur að neyta áfengis hafðu það þá í hófi. Áfengisneysla slævir dómgreindina og eykur líkur á að þú gerir hluti sem þú hefði ef til vill ekki gert allsgáður. 

Hver og einn þarf líka að taka ábyrgð á því að smita ekki aðra. Það er einfalt að fara í kynsjúkdómatékk og fólk sem er að hefja nýtt samband ætti að gera það til að koma í veg fyrir að smita aðra af kynsjúkdómi.

Láta kanna málið

Mestur hluti þeirra sem smitast eru einkennalausir en einnig geta einkenni komið í stuttan tíma og horfið svo. Sjúkdómurinn er þó ekki farinn.

Mörg hafa á tilfinningunni að eitthvað gæti verið að án þess að geta bent á ákveðin einkenni. Ef grunur er á kynsjúkdómi eða ef óskað er eftir að skima fyrir kynsjúkdómum er hægt að leita til næstu heilsugæslu, til sérfræðilæknis eða á göngudeild húð- og kynsjúkdóma Landspítalans eða á smáforriti Landspítalans. 

Finna næstu heilsugæslustöð.

Meðferð

Meðferð kynsjúkdóma er þeim að kostnaðarlausu sem hana þurfa. Suma kynsjúkdóma er hægt að lækna með sýklalyfjum. Þetta á við um bakteríusýkingarnar til dæmis klamydíu. Kláraðu lyfjaskammtinn ef þú hefur greinst með kynsjúkdóm. Þó einkennin séu farin þarf að klára sýklalyfjaskammtinn svo sjúkdómurinn fari.

Kynsjúkdómar sem orsakast af veirum er ekki hægt að lækna með lyfjum. Í sumum tilvikum eru til lyf sem draga úr hættu á að smita aðra og hemja framgang sjúkdómsins í líkamanum. Þau lyf þarf að taka alla ævi. Þetta á til dæmis við um HIV og alnæmi.

Gefa upplýsingar

Samkvæmt íslenskum lögum er öllum sem greinast með kynsjúkdóm skylt að gefa upp nöfn þeirra sem þau kunna að hafa smitað. Oftast er hægt að velja á milli þess að hafa beint samband við viðkomandi eða láta senda viðkomandi bréf þar sem nafn þess sem gaf upplýsingarnar kemur ekki fram.

Þau sem greinast með kynsjúkdóm eru beðin um að gefa upplýsingar um alla sem þau hafa haft kynmök við síðustu 12 mánuði. Það er því ágætt að taka saman lista yfir þessa aðila og hafa með sér til læknisins. Óskað er eftir nafni, kennitölu, heimilisfangi og símanúmeri viðkomandi.

Kynsjúkdómar eru oft einkennalausir eða einkennalitlir. Algengustu sjúkdómana er auðvelt að lækna og þá hafa þeir ekki alvarlegar afleiðingar. Ef meðferð hins vegar dregst og sjúkdómurinn uppgötvast ekki geta afleiðingarnar orðið alvarlegar. Til þess að draga úr kynsjúkdómasmiti eins og hægt er og fækka alvarlegum afleiðingum þeirra er mikilvægt að gefa þessar upplýsingar.

Taka ábyrgð

Hver og einn getur með ábyrgri hegðun haft mikil áhrif á hvort hann smitast af kynsjúkdómi. Það eru einkum þrír þættir sem hafa ber í huga

  • Notaðu smokkinn þegar þú hefur kynmök við þá sem þú þekkir lítið eða þá sem þú telur að hafi haft mök við marga.
  • Vandaðu valið á bólfélaga. 
  • Ef þú velur að neyta áfengis hafðu það þá í hófi. Áfengisneysla slævir dómgreindina og eykur líkur á að þú gerir hluti sem þú hefði ef til vill ekki gert allsgáður. 

Hver og einn þarf líka að taka ábyrgð á því að smita ekki aðra. Það er einfalt að fara í kynsjúkdómatékk og fólk sem er að hefja nýtt samband ætti að gera það til að koma í veg fyrir að smita aðra af kynsjúkdómi.

Láta kanna málið

Mestur hluti þeirra sem smitast eru einkennalausir en einnig geta einkenni komið í stuttan tíma og horfið svo. Sjúkdómurinn er þó ekki farinn.

Mörg hafa á tilfinningunni að eitthvað gæti verið að án þess að geta bent á ákveðin einkenni. Ef grunur er á kynsjúkdómi eða ef óskað er eftir að skima fyrir kynsjúkdómum er hægt að leita til næstu heilsugæslu, til sérfræðilæknis eða á göngudeild húð- og kynsjúkdóma Landspítalans eða á smáforriti Landspítalans. 

Finna næstu heilsugæslustöð.

Meðferð

Meðferð kynsjúkdóma er þeim að kostnaðarlausu sem hana þurfa. Suma kynsjúkdóma er hægt að lækna með sýklalyfjum. Þetta á við um bakteríusýkingarnar til dæmis klamydíu. Kláraðu lyfjaskammtinn ef þú hefur greinst með kynsjúkdóm. Þó einkennin séu farin þarf að klára sýklalyfjaskammtinn svo sjúkdómurinn fari.

Kynsjúkdómar sem orsakast af veirum er ekki hægt að lækna með lyfjum. Í sumum tilvikum eru til lyf sem draga úr hættu á að smita aðra og hemja framgang sjúkdómsins í líkamanum. Þau lyf þarf að taka alla ævi. Þetta á til dæmis við um HIV og alnæmi.

Gefa upplýsingar

Samkvæmt íslenskum lögum er öllum sem greinast með kynsjúkdóm skylt að gefa upp nöfn þeirra sem þau kunna að hafa smitað. Oftast er hægt að velja á milli þess að hafa beint samband við viðkomandi eða láta senda viðkomandi bréf þar sem nafn þess sem gaf upplýsingarnar kemur ekki fram.

Þau sem greinast með kynsjúkdóm eru beðin um að gefa upplýsingar um alla sem þau hafa haft kynmök við síðustu 12 mánuði. Það er því ágætt að taka saman lista yfir þessa aðila og hafa með sér til læknisins. Óskað er eftir nafni, kennitölu, heimilisfangi og símanúmeri viðkomandi.

Kynsjúkdómar eru oft einkennalausir eða einkennalitlir. Algengustu sjúkdómana er auðvelt að lækna og þá hafa þeir ekki alvarlegar afleiðingar. Ef meðferð hins vegar dregst og sjúkdómurinn uppgötvast ekki geta afleiðingarnar orðið alvarlegar. Til þess að draga úr kynsjúkdómasmiti eins og hægt er og fækka alvarlegum afleiðingum þeirra er mikilvægt að gefa þessar upplýsingar.

Helstu kynsjúkdómar

Klamydía

Bakterían Chlamydia trachomatis veldur sjúkdómnum klamydía. Hún tekur sér bólfestu á slímhúð kynfæra og þvagrásar og getur valdið bólgum þar. Klamydía smitast með óvörðu kynlífi.

Einkenni hjá konum

  • Verkur við þvaglát
  • Óvenjuleg útferð
  • Verkir í grindarholi
  • Verkir við samfarir
  • Blæðing eftir samfarir
  • Milliblæðingar

Einkenni hjá körlum

  • Verkur við þvaglát
  • Hvít útferð frá þvagrás
  • Verkur í pung

Ef þig grunar að þú sért með klamydíu getur þú leitað til næstu heilsugæslu, á húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítala eða til sérfræðilæknis.

Klamydía er greind með þvagprufu hjá körlum eða stroki frá leghálsi hjá konum.

Klamydía er meðhöndluð með sýklalyfjum. Hægt er að smitast aftur og aftur af klamydíu. 

Kynfæraáblástur

Kynfæraáblástur er sýking af völdum veirunnar Herpes simplex.

Kynfæraáblástur smitast einungis með óvörðu kynlífi við sýktan einstakling þegar hann er með einkenni.

Ef smokkur er notaður þá verndar hann þann hluta kynfæranna sem hann hylur.

Liðið getur langur tími frá smiti og þar til einkenni koma fram, jafnvel einhverjir mánuðir.

Einkenni kynfæraáblásturs eru

  • Litlar blöðrur eða sár á kynfærum
  • Dofi, brunatilfinning eða kláði á kynfærum
  • Sársauki við þvaglát
  • Óvenjuleg útferð hjá konum

Ef þig grunar að þú sért með kynfæraáblástur getur þú leitað til næstu heilsugæslu, húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítala eða til sérfræðilæknis.

Kynfæraáblástur er greindur með skoðun læknis eða sýnatöku.

Ekki er til nein lækning við kynfæraáblæstri. Til er meðferð sem dregur úr einkennum og styttir tímann sem einstaklingar eru með blöðrur eða sár.

Einkenni geta komið fram ítrekað en sjaldnar eftir því sem lengri tími líður frá smiti.

Kynfæravörtur/HPV

Kynfæravörtur er sýking af völdum Human Papilloma Virus (HPV). Um 100 gerðir eru til af þessari veiru og sumar þeirra hafa verið tengdar við leghálskrabbamein.

Aðeins eru tvær tegundir veirunnar sem valda vörtum en þær birtast á slímhúð og á húð. Algengast er að þær komi á ytri kynfæri og við endaþarmsop. Vörturnar geta valdið kláða og óþægindum.

HPV smitast með snertingu húðar eða slímhúðar við sýkta húð eða slímhúð. Smit getur orðið þó engin einkenni séu til staðar.

Einkenni kynfæravarta

  • Kláði og erting
  • Sársauki við samfarir hjá konum
  • Óþægindi við þvaglát 

Ef þig grunar að þú sért með kynfæravörtur getur þú leitað til næstu heilsugæslu, á húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítala eða til sérfræðilæknis.

Kynfæravörtur eru greindar með skoðun læknis. Langur tími getur liðið frá smiti þar til einkenni koma í ljós, jafnvel einhverjir mánuðir.

Ekki er hægt að meðhöndla kynfæravörtur þar sem engin lyf eru til. Vörturnar hverfa fyrr eða síðar af sjálfu sér en liðið getur langur tími, jafnvel ár þangað til að þær hverfa. Veiran sem veldur vörtunum hverfur þó ekki úr líkamanum og geta því vörturnar komið fram aftur. 

Bólusetning

Byrjað var að bólusetja stúlkur við 12 ára aldur gegn HPV- veirunni árið 2011 til að draga úr líkum á leghálskrabbameini. Bólusett er tvisvar sinnum með 6 mánaða millibili.

Lekandi

Lekandi orsakast af bakteríunni Neisserie gonerroheae. Lekandi smitast við óvarin kynmök. Lekandi getur einnig smitast í háls við munnmök.

Einkenni lekanda 

  • Lekandi getur verið einkennalaus
  • Breytingar á útferð úr leggöngum eða þvagrás
  • Sársauki við þvaglát
  • Verkur í grindarholi
  • Milliblæðingar hjá konum eða meiri blæðingar
  • Þrútin forhúð hjá karlmönnum og verkur í eistum

Ef þig grunar að þú sért með lekanda getur þú leitað til næstu heilsugæslu, húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítala eða til sérfræðilæknis.

Lekandi er greindur með stroksýni úr þvagrás, leghálsi, endaþarmi eða með þvagsýni.

Lekandi er meðhöndlaður með sýklalyfjum

Sárasótt

Sárasótt orsakast af bakteríunni Treponema pallidum. Sjúkdómurinn smitast við óvarin kynmök við sýktan einstakling. Einkenni sárasóttar eru ekki alltaf augljós og sumir fá ekki einkenni.

Einkenni sárasóttar eru

  • Lítil sár sem birtast á kynfærum, endaþarmi eða í munni
  • Rauð útbrot sem birtast á lófum eða á fótleggjum
  • Húðvöxtur sem lítur út eins og vörtur sem geta myndast á ytri kynfærum hjá konum eða í kringum endaþarm hjá bæði konum og körlum
  • Hvítir blettir í munni
  • Þreyta, höfuðverkur, liðverkir, hiti, bólgnir kirtlar í hálsi, nára eða handarkrika

Ef þig grunar að þú sért með sárasótt getur þú leitað til heilsugæslunnar, húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítala eða til sérfræðilæknis. 

Sárasótt er greind með blóðprufu. 

Sárasótt er meðhöndluð með sýklalyfjum

Mikilvægt er að meðhöndla sjúkdóminn því hann getur breiðst út til heila eða annarra líkamshluta og haft alvarlegar afleiðingar.

HIV - alnæmi

Upplýsingar um HIV og alnæmi.

Tríkómónassýking


Tríkómónassýking orsakast af sníkjudýrinu trichomonas vaginalis og smitast við óvarðar samfarir.

Um helmingur einstaklinga fá ekki nein einkenni.

Einkenni hjá konum

  • Óvenjuleg útferð
  • Meiri útferð en venjulega
  • Þrútin slímhúð
  • Eymsli í leggöngum og leghálsi 

Einkenni hjá körlum 

  • Verkir við þvaglát eða sáðlát
  • Tíð þvaglát
  • Sársauki, bólga og roði í kringum þvagrásaropið
  • Óvenjuleg útferð

Ef þig grunar að þú sért með tríkómónassýkinguna getur þú leitað á næstu heilsugæslustöð, húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala eða til sérfræðilæknis.

Sýkingin er meðhöndluð með sýklalyfjum.

Kláðamaur

Kláðamaur (e. scabies) er sníkjudýr sem lifir í húð manna

Einkenni:

  • Algengasta einkennið er kláði og er hann mest áberandi á meðan sofið er. Kláðinn kemur 2-6 vikum eftir smit og kemur samfara útbrotum.
  • Útbrot eru vanalega litlar rauðar bólur en einnig sjást stundum blöðrur eða hnökrótt þykkildi. Útbrotin eru vanalega mest áberandi á innanverðum lærum, handarkrikum, kringum nafla, á rasskinnum og við kynfæri.

Meðferðin er fólgin í lyfjameðferð og góðu hreinlæti. Lyfin eru borin á húðina. Mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum framleiðanda. Fylgiseðla lyfja má finna á sérlyfjaskrá.

Upplýsingar um kláðamaur

Flatlús

Flatlús (e. Pubic lice) er sníkjudýr og finnst oftast í hárum við kynfæri. Lúsin getur einnig fundist í líkamshárum á öðrum stöðum svo sem í handakrika, bringuhárum, augabrúnum og augnhárum. Flatlús er sjaldgæf í hársverði.

Einkenni:

  • Staðbundinn kláði, oft verri á nóttunni 
  • Litlir rauðir eða dökkir blettir á húðinni í kring, geta verið merki um lúsarbit
  • Litlar hvítar eða gular kúlur á hárum, geta verið merki um nit/egg lúsarinnar

Meðferðin er fólgin í að bera lúsadrepandi krem á alla hærða staði. Hægt er að kaupa lúsaáburð án lyfseðils í apóteki.