Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Kynlífsfíkn

Kaflar
Útgáfudagur

Kynlífsfíkn er kynferðisleg hegðun sem viðkomandi hefur misst tökin gagnvart. Þetta getur verið kynlíf með maka eða öðru fólki, kaup á vændi, neysla á klámi, sjálfsfróun eða kaup á kynlífsþjónustu á netinu eða í síma. Allt er þetta hegðun sem veldur flestu fólki ekki vanda en þau sem eru haldinn fíkn geta ekki stoppað. Heldur þurfa þau alltaf meira og meira til að fullnægja fíkninni þannig að vandi hlýst af. 

Jafnvel þó að þau viti að fíknin og hegðunin geti skaðað samband þeirra við maka sinn geta þau ekki haft hemil á fíkninni. Það er því ekki hegðunin sem slík sem er vandamálið heldur fíknin í hana, hversu oft hún er stunduð, neikvæðar tilfinningar og afleiðingar sem henni fylgja.

Hvað get ég gert?

Kynlífsfíkn er eins og aðrir fíknisjúkdómar að því leiti að það er hægt að fá hjálp. Ef þú hefur áhyggjur eða telur að þú sért mögulega haldin/n/ð kynlífsfíkn er ráðlagt að leita aðstoðar hjá sálfræðingi eða geðlækni.

Kynlífsfíkn veldur oft miklum sársauka í parasamböndum fyrir báða aðila. Hafir þú áhyggjur af að maki þinn sé haldinn kynlífsfíkn er gott að taka samtalið. Fyrsta skrefið er að viðurkenna að vandi er til staðar og það eru ekki allir tilbúnir til þess í byrjun. Það getur líka verið að vandi ykkar sé af öðrum toga.

Ef þið eruð sammála um að leita ykkur hjálpar ættuð þið að gera það. Ef maki þinn er ekki tilbúinn til þess getur þú samt sem áður leitað aðstoðar fyrir þig. Þú getur rætt málið við heimilislækninn þinn, leitað til sálfræðings eða geðlæknis. 

Finna næstu heilsugæslustöð.