Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Kynfæraáblástur (Herpes simplex)

Kaflar
Útgáfudagur

Kynfæraáblástur er kynsjúkdómur af völdum Herpes simplex veirunnar. Sjúkdómurinn birtist sem sár eða blöðrur við kynfæri, endaþarm og/eða á milli læra. Engin lækning er til við kynfæraáblæstri og geta einkenni komið fram mörgum sinnum eftir smit. Til eru veiruhamlandi lyf sem draga úr einkennum sjúkdómsins.

Einkenni

Fyrst þegar einkenni koma fram eftir smit eru þau oft verri en einkenni sem koma við endursýkingar. Fólk getur verið einkennalaust.

Fyrstu einkenni eru:

  • Verkur
  • Sviði í húð
  • Sársauki við þvaglát

Seinna koma fram:

  • Sár
  • Blöðrur
  • Eitlastækkanir í nára

Konur geta fengið breytta útferð úr leggöngum og eru í meiri hættu á slæmum einkennum þar sem útbrot geta verið nálægt leghálsi og valdið bólgu þar

Nánar

Til eru tvær gerðir af Herpes simplex veiru, I og II. Herpes simplex I sýkir oftar munn og er þá kallað frunsa en Herpes simplex II sýkir oftar kynfæri. Báðar gerðir geta þó sýkt bæði munn og kynfæri.

Einstaklingur sem smitast af Herpes simplex er með veiruna út lífið og endursýkingar eru tíðar. Fólk sem smitast af kynfæraáblæstri fær oftast verri einkenni fyrst eftir smit en eftir því sem tíminn líður koma sjaldnar fram endursýkingar og einkenni eru mildari, í sumum tilfellum hætta endursýkingar alveg.

Meðgöngutími

Einkenni koma vanalega í ljós 1 – 3 vikum eftir smit. Sumir fá einkenni síðar og aðrir eru einkennalausir. 

Smitleiðir

  • Sjúkdómurinn smitast við kyn-, endaþarms- eða munnmök
  • Kynlífsleikföngum er deilt frá einstakling með herpes
  • Sýking getur smitast frá fingrum, ef fingur snertir áblástur og síðan kynfæri

Fólk með frunsu getur smitað aðra af kynfæraáblæstri ef stunduð eru munnmök. Smokkurinn getur aðeins verndað þann hluta kynfæra sem hann hylur. Sár sem smokkur nær ekki að hylja getur smitað við samfarir. Smithættan er mest þegar sýnileg sár eru til staðar og því skal ekki stunda kynlíf fyrr en sár eru gróin. 

Kynfæraáblástur hjá þunguðum konum

Börn geta smitast af kynfæraáblæstri þegar þau fara í gegnum fæðingarveg hjá sýktri móður. Sýkingin getur verið hættuleg nýfæddu barni. Ef grunur eða staðfesting er á kynfæraáblæstri hjá verðandi mæðrum er mikilvægt að greina lækni og ljósmóður frá því. 

Endursýkingar

Tíðni endursýkinga fækkar verulega eftir 5 ár. Fólk sem sýkist af Herpes simplex I á kynfærum fær færri endursýkingar en fólk sem sýkist af Herpes simplex II. Oftast verður tíminn á milli endursýkinga lengri með hverju árinu og útbrot koma sjaldnar fram. Í flestum tilfellum hætta útbrot alveg að koma fram og endursýkingar hætta. 

Streita getur ýtt undir endursýkingar.

Ef endursýkingar eru tíðar getur það haft áhrif á andlega líðan. 

Meðferð

  • Ef sárin valda ekki ama þá þarf ekki meðferð
  • Ómeðhöndluð sýking grær oftast á tveimur til þremur vikum
  • Ef verkur fylgir sárum er mælt með veiruhamlandi lyfi eins fljótt og mögulegt er
  • Verkjastilling 

Hvað get ég gert?

  • Veiruhamlandi lyf
  • Verkjalyf
  • Bera verkjastillandi áburð á sár fyrir þvaglát
  • Halda sárum hreinum og þurrum
  • Hella vatni yfir kynfæri á meðan þvaglát eru til að minnka ertingu og sársauka
  • Nota kælibakstur
  • Passa upp á handþvott
  • Fjölbreytt fæði, hreyfing og nægur svefn styrkir ónæmiskerfi líkamans

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef einkenni kynfæraáblæstri eru til staðar eða ef óskað er eftir að skima fyrir kynsjúkdómum er hægt að leita til næstu heilsugæslu, til sérfræðilæknis eða á göngudeild kynsjúkdóma Landspítalans í síma 543-6050 milli kl 08:15-15:00 eða á smáforriti Landspítalans.

Finna næstu heilsugæslu hér.