Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Kviðverkur

Kaflar
Útgáfudagur

Kviðverkur (e. stomach ache) er algengt einkenni hjá börnum og fullorðnum. Orsakir geta verið margvíslegar og geta önnur einkenni sem fylgja sagt til um alvarleika kviðverks. 

Helstu ástæður kviðverkja

Hægðatregða: Ein algengasta orsök kviðverkja.

Sýkingar: Bakteríu- og/eða veirusýkingar geta orsakað kviðverki. Kviðverkjunum geta fylgt ógleði, uppköst og/eða niðurgangur.

Bakflæði: Magasýrur fara úr maganum upp vélindað og valda ónotum.

Vandamál í meltingarfærum: Fæðan nær ekki að ferðast með venjulegum hætti í gegnum meltingarveginn, t.d. vegna stíflu, bólgu eða lömunar í þörmum.

Mataróþol eða ofnæmi: Ákveðnar fæðutegundir innihalda ofnæmisvaka sem einstaklingar með ofnæmi skynja sem hættulegt efni. Þessu getur fylgt t.d. kviðverkir, uppþemba og niðurgangur.

Kvíði og streita: Eitt af einkennum kvíða og streitu getur verið kviðverkir.

Þvagfæri og nýru: Þvagfærasýking og nýrnasteinar gera valdið verkjum. Þvagfærasýkingu fylgir oft sviði, verkir og/eða tíð þvaglát. Sýkingin getur gengið upp í nýru og valdið verulegum veikindum oft með hiti. Með nýrnasteinum fylgja miklir kviðverkir sem geta leitt aftan í bak, síðu eða nára.

Sjúkdómur í meltingarvegi: T.d. Crohn's og Colitis.

Lyf: Kviðverkir eru nokkuð algeng aukaverkun lyfja.

Áfengi: Mikil áfengisneysla getur orsakað kviðverki, ógleði og uppköst.

Reykingar og nikótín notkun: Mikil notkun á tóbaki og nikótíni getur orsakað kviðverki, ógleði og uppköst.

Kynsjúkdómar: Kviðverkir oftast neðarlega í grindarholi. 

Sjúkdómar í innri kynfærum kvenna: T.d. blöðrur á eggjastokkum, legslímuflakk eða tíðarblæðingar.

Aðrir kvillar: T.d. kviðslit, magasár, æxlisvöxtur, botnlanga- eða gallblöðrubólga.

Greining

Greining fer eftir einkennum kviðverkja og sjúkrasögu einstaklings.

Rannsóknir sem gerðar eru geta t.d. verið: Blóðprufa, hægðasýni, þvagsýni, þungunarpróf, ómskoðun, maga- og/eða ristilspeglun, röntgenmynd, tölvusneiðmynd eða segulómun.

Hvað get ég gert?

• Hvíla þig og drekka vatn
• Forðast sterka og súra fæðu
• Tyggja matinn vel
• Takmarka áfengis- og tóbaksneyslu
• Stunda reglulega hreyfingu

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu til læknis ef:

  • Verkur kemur skyndilega og fer stigvaxandi
  • Verkur er stöðugur eða endurtekinn
  • Þú finnur sársauka við að snerta kvið
  • Kviðverkir ásamt erfiðleikum með að kyngja
  • Þú finnur fyrir sviða, tíðum þvaglátum eða þvagteppu
  • Þú nærð ekki að losa loft eða hægðir
  • Þyngdartap án áreynslu
  • Blóð er í hægðum eða svartar hægðir  
  • Mikil eða langvarandi uppköst eða niðurgangur
  • Blóðug eða korglituð uppköst
  • Nýlegur áverki á kvið
  • Sár verkur eða bólga í eistum eða pung

Einnig skal leita til læknis ef þú hefur áhyggjur.

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku.