Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Kvíði barna og ungmenna

Kaflar
Útgáfudagur

Kvíði er mjög gagnleg og nauðsynleg tilfinning sem hjálpar okkur að komast af. Líta má á kvíða sem nokkurs konar varnarkerfi líkamans sem ætlað er vernda okkur í hættulegum aðstæðum. Líkamleg viðbrögð við kvíða, eins og ör hjartsláttur, hraðari öndun og vöðvaspenna hjálpar okkur að bregðast hratt við hættum og koma okkur út úr erfiðum aðstæðum, t.d. með því að hlaupa mjög hratt. Of mikill kvíði hjálpar okkur ekki og getur verið hamlandi í hversdagslegum aðstæðum. 

Einkenni

Einkenni kvíðaraskana eru ólík eftir tegundum. Börn sem glíma við kvíða eru gjarnan með fleiri en eina kvíðaröskun. 

Almenn einkenni kvíða hjá börnum eru:

  • Uppnám og grátur
  • Skapofsaköst og reiði
  • Stöðugar áhyggjur og þrálátar spurningar
  • Vilja ekki vera aðskilin frá foreldrum sínum
  • Erfitt að fá þau til að vera ein eða fara í leikskóla eða skóla
  • Mjög mikil hræðsla við annað fólk og í félagslegum aðstæðum
  • Miklar áhyggjur af áliti annarra
  • Komast í mikið uppnám við ákveðnar aðstæður eða þegar þau í nálægð við ákveðna hluti t.d. dýrategundir, náttúrufyribæri eða hrædd við meiðsli (sprautur)
  • Mjög mikill og ástæðulaus ótti við ákveðna hluti eða aðstæður
  • Mikil líkamleg einkenni kvíða í ákveðnum aðstæðum svo sem andþyngsli, hraðari hjartsláttur og aukin vöðvaspenna
  • Endurteknar hugsanir og/eða ímyndir sem virðast órökréttar og erfitt er að hafa stjórn á
  • Miklar endurtekningar, vilja gera sama hlut aftur og aftur í sérstakri röð eða á tiltekin hátt.

Hamlandi kvíði

Þegar kvíðinn kemur í veg fyrir að barnið fari í ákveðnar aðstæður eða þegar barnið hættir að gera hluti sem það réði áður við, er talað um hamlandi kvíða. Börn og unglingar átta sig fljótt á því að líðan þeirra batnar þegar þau forðast erfiðar aðstæður en þá er líklegra að kvíðinn festi sig í sessi. Einnig er algengt að koma sér upp ákveðnum venjum og siðum til að auðvelda sér erfiðar aðstæður sem geta samt sem áður ýtt enn frekar undir kvíðann.

Tegundir kvíða

Tegundir kvíða eru ólíkar eftir aldri, t.d. er aðskilnaðarkvíði algengari hjá yngri börnum og félagskvíði algengari hjá ungmennum. 

Aðskilnaðarkvíði

Barn með aðskilnaðarkvíða óttast að eitthvað hræðilegt komi fyrir foreldra sína eða það sjálft sem gæti valdið varanlegum aðskilnaði.

Það getur verið ótti við að veikjast eða foreldrar veikist, lendi í slysi, deyi, týnist eða verði rænt.

Barn með aðskilnaðarkvíða er gjarnt á að hanga í foreldrum, á oft erfitt með að sofna eitt, vill ekki að gista hjá vinum eða ættingjum og kvartar oft um líkamleg einkenni eða „veikindi“ á skóladögum.

Almenn kvíðaröskun

Almenn kvíðaröskun einkennist af yfirdrifinum kvíða og óstjórnlegum áhyggjum sem snúa að ólíkum sviðum í lífi barnsins í fortíð, nútíð og framtíð.

Allt frá því að hafa áhyggjur af eigin frammistöðu eða heilsu til ótta við atburði eða styrjaldir úti í heimi eða í fjarlægri framtíð. 

Barnið sækir mikið í hughreystingu og spyr endurtekinna spurninga. Samfara áhyggjunum koma fram líkamleg kvíðaeinkenni.

Almennri kvíðaröskun fylgir oft mikil fullkomnunarþörf þar sem lítið þol er fyrir smávægilegum mistökum sem getur leitt til þess að barnið forðast verkefni ef það sér ekki fram á að geta gert það fullkomlega.

Áráttu- þráhyggjuröskun

Áráttu-þráhyggjuröskun einkennist af endurtekinni þráhyggju og áráttuhegðun.

Þráhyggja vísar til þrálátra og endurtekinna hugsana sem eru ágengar og uppáþrengjandi. Hugsanirnar tengjast oft sýklum, smiti, skaða eða hættu.

Áráttuhegðun sem er endurtekin, fastmótuð hegðun sem viðkomandi finnst hann verða að gera til að draga úr vanlíðan eða líkum á neikvæðum afleiðingum þráhyggjunnar. Til dæmis síendurteknir þvottar, athuga endurtekið hvort eitthvað sé eins og það á að vera eða hafa hlutina á ákveðinn hátt. 

Félagsfælni

Félagsfælni felur í sér yfirdrifinn kvíða eða óþægindi í félagslegum aðstæðum, ótta við mat annarra eða ótta við að verða sér til skammar. Barn með félagskvíða forðast athygli og er oft mjög meðvitað um sjálft sig. Það getur þó notið félagslegra samskipta við þær aðstæður sem ekki eru kvíðavekjandi. 

Kjörþögli

Kjörþögli einkennist af því að barn talar ekki í tilteknum félagslegum aðstæðum þar sem þess er vænst. Til dæmis í skólanum eða við leikfélaga, þrátt fyrir að tala í öðrum aðstæðum eins og heima hjá sér eða við fjölskyldu. Að hvaða marki kjörþögult barn talar, hvíslar eða þegir er mjög mismunandi. Barnið velur oft ákveðna einstaklinga eða aðstæður þar sem það talar, hvíslar eða notar látbragð til að tjá sig.

 

Ofsakvíði

Ofsakvíði felur í sér endurtekin skyndileg ofsakvíða- eða skelfingarköst eða þrálátar áhyggjur af öðru kasti og afleiðingum þess.

Ofsakvíðakast kemur óvænt fram og nær hámarki á nokkrum mínútum og felur í sér gífurlegan ótta og óþægindi ásamt líkamlegum einkennum og óttavekjandi hugsunum.

Óttinn eða áhyggjurnar geta leitt til þess að barnið forðast staði þar sem köstin hafa komið fram vegna ótta um annað kast. Þetta getur leitt til víðáttufælni. 

Sértæk fælni

Sértæk fælni er yfirdrifinn og ýktur ótti tengdur einhverjum afmörkuðum hlut, dýri eða aðstæðum.

Þetta geta til dæmis verið sprautur, læknar, tannlæknar, skordýr, hundar, myrkur, lyftur, óveður, vatn og hæð.

Óttinn við aðstæðurnar eða hlutinn leiðir yfirleitt til þess að barnið forðast það sem veldur óttanum eða það umber hann með miklum kvíða og vanlíðan. 

Víðáttufælni með eða án ofsakvíða

Víðáttufælni er ótti við ákveðna staði eða ástæður þar sem viðkomandi óttast að fá ofsakvíðakast og geta hvorki fengið hjálp né flúið (t.d. í mannfjölda, strætó eða opnum svæðum).

Helstu ástæður kvíða

  • Erfðir og aðrir líffræðilegir þættir
  • Fjölskylduaðstæður og vandi innan fjölskyldunnar
  • Álag 
  • Áföll
  • Félagslegir erfiðleikar

Greining

Sálfræðingar og geðlæknar greina kvíða með sérstökum viðtölum og spurningalistum. Í flestum tilfellum eru upplýsingar fengnar frá barninu sjálfu og foreldrum þess. Til þess að greinast með kvíða þarf barnið að vera með talsverð einkenni af ákveðinni tegund kvíða, kvíðinn þarf að hafa hamlandi áhrif og vera viðvarandi í nokkurn tíma, stundum sex mánuði.

Meðferð

Viðtalsmeðferð ýmist við foreldra og/eða barn þar sem aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) eru notaðar. Viðtalsmeðferð er oftast einstaklingsmeðferð við barnið eða við foreldra ef barnið er ungt.

Sumstaðar er boðið uppá hópmeðferð við kvíða. Oftast meðferð sem kallast Klókir Krakkar.

Ef um ung börn er að ræða, er fræðsla og samvinna við foreldra mikilvægur hluti meðferðar.

Á flestum heilsugæslustöðum er boðið uppá einstaklings- eða hópmeðferð fyrir börn og unglinga og foreldra þeirra.

Aðrar leiðir eru lyfjameðferð, fjölskyldumeðferð og fræðsla.

Hvað get ég gert?

Það er ýmislegt sem foreldrar geta gert til að hjálpa barni sem glímir við kvíða. Hvetjið barnið til að:

  • Segja öðrum frá hvernig því líður
  • nægan svefn og aðstoðið barnið við að koma á góðum svefnvenjum
  • Halda áfram að sinna skóla, heimanámi og tómstundum
  • Hitta vini og eiga ánægjulega samveru með fjölskyldunni
  • Mæta óttanum, hægt og örugglega með aðstoð annarra
  • Sinna áhugamálum sínum og átta sig á hvað skiptir þig máli í lífinu
  • Biðja um og þiggja aðstoð frá fjölskyldu og vinum
  • Borða góðan og hollan mat, helst með fjölskyldu eða vinum
  • Kortleggja kvíðann og það sem viðheldur honum

Hvar er hjálp að fá?

Það er víða hægt að leita aðstoðar þegar hamlandi kvíði hrjáir barn. Hér eru nokkrir aðilar.

  • Heilsugæslustöðin þín, ræða við heimilislækni og fá tilvísun til sálfræðings á heilsugæslustöðinni
  • Skólahjúkrunarfræðingur getur greint tegund kvíða hjá börnum og veitt stuðning við vægum kvíðaröskunum
  • Umsjónarkennari eða sérfræðiþjónusta skóla 
  • Námsráðgjafi
  • Sjálfstætt starfandi sálfræðingar og geðlæknar
  • Ef málið er mjög brýnt er hægt að leita á bráðamóttöku barna á Barnaspítala Hringsins eða á bráðamóttöku BUGL (barna- og unglingageðdeildar)

Finna næstu heilsugæslustöð.

Hér eru þrjú gagnleg myndbönd. Eitt skýrir hvernig tilfinningar hafa áhrif á starfssemi líkamans og hvernig nota má núvitund til að ná tökum á erfiðum tilfinningum. Annað inniheldur æfingu í núvitund sem auðvelt er að framkvæma. Það þriðja fjallar um virkniþjálfun.

Kvíði - Núvitund
Núvitundaræfing
Virkniþjálfun