Krabbamein (e. cancer) er orð sem notað er yfir marga ólíka sjúkdóma sem allir eiga það sameiginlegt orsakast af því að frumur líkamans hætta að starfa eðlilega. Frumur fara að skipta sér stjórnlaust og mynda vefi sem gagnast ekki líkamanum heldur valda skaða. Þetta getur gerst hvar sem er í líkamanum. Flest krabbamein bera heiti upprunastaðar síns. Lungnakrabbamein á upptök sín í lungunum, ristilkrabbamein í ristlinum og svo framvegis.
Orsakir krabbameina
Þekking á orsökum krabbameina er sífellt að verða meiri og það sama má segja um áhrif verndandi þátta. Enn er það þó þannig að ekki er vitað um ástæður fjölmargra krabbameina en vitað er að lífstíll og umhverfi hafa áhrif.
Forvarnir
- Með því að stunda reglulega hreyfingu, borða hollan mat, tryggja hæfilega hvíld og huga að líðan er hægt að draga úr líkum á krabbameinum og reyndar mörgum öðrum sjúkdómum.
- Tóbaksnotkun er einn áhættuþátta krabbameina. Því er mikill ávinningur af því að nota ekki tóbak og vera ekki í tóbaksreyk. Hér er hægt að lesa nánar um skaðsemi tóbaks og ráð til þeirra sem vilja hætta.
Hægt er að bóka meðferð og fá stuðning við að hætta tóbaksnotkun á netspjalli hér á síðunni og í síma 1700. - Áfengisneysla eykur líkur á krabbameinum. Góð ráð til þeirra sem vilja draga úr eða hætta áfengisnokun.
- Mikil vera í sterkri sól eykur líkur á ýmsum gerðum húðkrabbameina. Hér eru góð ráð til að tryggja öryggi fólks í sólinni.
- Sumar gerðir krabbameina eru arfbundnar. Á síðunni arfgerd.is getur fólk skráð sig inn með rafrænum skilríkjum og óskað eftir upplýsingum frá Íslenskri erfðagreiningu sem hefur upplýsingar um arfgerð margra sem tekið hafa þátt í rannsóknum þeirra.
Hafir þú áhyggjur af því að þú sért mögulegur arfberi getur þú leitað til Erfða- og sameindalæknisfræðideildar Landspítala (sími 543-5070) sem sérhæfir sig í aðstoð við fólk í þeirri stöðu. - Boðið er upp á skimanir til að finna leghálskrabbamein og brjóstakrabbamein á byrjunarstigi. Með því að svara kallinu þegar boð berst um skimun getur þú gert gæfumuninn.
- Með því að þekkja vel líkamann sinn og leita til læknis ef breytingar verða eru meiri líkur á að mein finnist snemma. Hér getur þú lesið nánar um sjálfskoðun á eistum og brjóstum.
Á vef Krabbameinsfélags Íslands eru góðar upplýsingar um flest krabbamein sem við hvetjum áhugasama til að kynna sér.